Sylvía Kristín Ólafsdóttir ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar Landsvirkjunar

Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar.

Hlutverk jarðvarmadeildar á orkusviði er að annast aflstöðvar Landsvirkjunar á sviði jarðvarma og vindorku þannig að þær skili tilgreindu hlutverki sínu. Deildin ber ábyrgð á rekstri, eftirliti og viðhaldi þessara orkuvirkja og leggur áherslu á öryggi og hagkvæmni, umhverfismál og samstarf við nærsamfélag.

Sylvía hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015 sem forstöðumaður tekjustýringar á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði. Áður starfaði hún hjá höfuðstöðvum Amazon í Evrópu fyrst við rekstur og áætlanagerð um innviði vöruhúsa víðs vegar um Evrópu. Þaðan fór Sylvía í Kindle deild fyrirtækisins og sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur. Áður starfaði Sylvía m.a sem forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía situr í stjórn Ölgerðarinnar og Orkufjarskipta.

Sylvía er gift Kjartani Björgvinssyni og eiga þau tvö börn.