Ný hitaveita Hornafjarðar formlega tekin í notkun

Mikilvægt framfaraskref fyrir byggðina í Hornafirði var stigið á dögunum þegar Hitaveita Hornafjarðar var formlega tekin í notkun.

Lagningu nýrrar hitaveitu fyrir Höfn og hluta Nesja er nú að ljúka. Heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var hleypt á stærstan hluta Hafnar síðastliðinn vetur en nú hefur dreifikerfi verið lagt í þann hluta sem áður var með beina rafhitun. Nú eiga því allir íbúar Hafnar möguleika á því að tengjast hitaveitunni.

Hluti hópsins við borholuhús RARIK í Hoffelli.

Síðustu áratugi hefur verið rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta hitaveitu á Höfn og voru ¾ húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn sem nýtt var í dreifikerfi veitunnar. Síðustu ár hefur verð á ótryggðri raforku hækkað verulega og framboð á henni verið mikilli óvissu háð. Því var forsenda fyrir óbreyttum rekstri fjarvarmaveitunnar ekki lengur fyrir hendi.

Matthildur Ásmundsdóttir bæjarstjóri, Benedikt Árnason ráðuneytisstjóri og Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK.

Hitaveita Hornafjarðar er í eigu RARIK sem hefur sett mikla vinnu og fjármuni í leit að heitu vatni á undanförnum árum. Skipulögð leit að virkjanlegum jarðhita í Austur Skaftafellssýslu hefur staðið yfir frá því upp úr 1990 og hafa verið boraðar samtals 54 rannsóknaholur og fimm 1100 til 1750 metra djúpar vinnsluholur í landi Hoffells. Frá 1992 til 2002 kostuðu sveitarfélagið Hornafjörður og Orkustofnun jarðhitaleitina en RARIK kom að verkefninu 2002. Fram til 2006 voru boraðar 33 rannsóknaholur en eftir að RARIK keypti jarðhitaréttindin í Hoffelli 2012 hefur verið boruð 21 rannsóknahola til viðbótar og áðurgreindar fimm vinnsluholur.

Nánari upplýsingar um nýju hitaveituna í Hornafirði má sjá á heimasíðu RARIK.