Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.