Íslenskar jarðvísindakonur heiðraðar

Hrefna Kristmannsdóttir og Ragna Karlsdóttir hlutu á dögunum brautryðjendaverðlaun alþjóðasamtakanna Women in Geothermal, WING, fyrir framlag sitt til útbreiðslu jarðhitanotkunar í heiminum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti þeim verðlaunin í móttöku samtakanna á jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference, sem fram fór í Reykjavík dagana 26. -28. apríl.

Hrefna var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi í jarðfræði. Það gerði hún frá Oslóarháskóla árið 1970. Hún átti langan starfsferil sem jarðefnafræðingur á Orkustofnun og átti þátt í að þróa efnafræðilegar aðferðir við mat á jarðhitaholum sem nú er beitt við allar slíkar boranir. Hrefna hefur verið mikilvirk á vísindasviðinu og skrifað um 100 greinar sem birst hafa í vísindatímaritum.

Ragna Karlsdóttir er jarðeðlisfræðingur sem einnig starfaði lengi hjá Orkustofnun og nú síðari ár hjá ÍSOR. Þar hóf hún störf árið 1970 og hefur komið að rannsóknum, líkanagerð og auðlindamati á öllum þeim háhitasvæðum sem nýtt eru hér á landi og flestum lághitasvæðunum með einhverjum hætti.

Báðar hafa þær Ragna og Hrefna komið að starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem rekinn er hér á landi.

WING eru samtök sem hvetja til framgangs kvenna innan jarðhitageirans, styðja við konur sem þar starfa og leitast við að gera störf þeirra á þeim vettvangi sýnilegri. Samtökin voru stofnuð 2013.

Móttaka WING var haldin í félagi við Konur í orkumálum, sem eru samtök kvenna sem starfa við orkumál á Íslandi. Þau samtök eru líka ný af nálinni.

Auk iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði Andrea Blair, forseti WING, samkomuna.
 

 

Hitaveitur spara losun á við eina og hálfa Kaupmannahöfn

Fyrir átak í uppbyggingu hitaveitna á áttunda áratug síðustu aldar var víða notast við olíu til húshitunar á Íslandi. Ef við værum að nýta sama orkumagn til húshitunar með brennslu olíu og við gerum í dag með nýtingu jarðhita hefði sú olíubrennsla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 18 milljónum tonna af koldíoxíði á ári. Það er á við eina og hálfa árlega losun Kaupmannahafnar.

Í vikunni fór fram alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpu í Reykjavík, þar sem samankomnir voru um 700 manns frá 45 löndum til að ræða kosti jarðvarmanýtingar og áskorunum sem þeim fylgja. Nú þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að gera gríðarlegar breytingar á orkunýtingu til að ná Parísarmarkmiðum í loftslagsmálum, er horft til þeirrar einstöku stöðu Íslands að 90% allra bygginga eru hituð með jarðvarma. Jarðvarmi finnst á fjölmörgum stöðum um allan heim og líta margir því til íslenskrar sérþekkingar í þeim geira – að hér höfum við á árangursríkan hátt skipt yfir í endurnýjanlegan og sjálfbæran orkugjafa á skömmum tíma.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita

Stofnaður hefur verið alþjóðlegur samstöðuhópur um nýtingu jarðhita, með aðild á fjórða tug ríkja og stofnana, þar með talið Íslands, Orkustofnunar, ÍSOR og Jarðhitaskóla SÞ. Tilkynnt var um stofnun hópsins í tengslum við ríkjaráðstefnu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París. Markmið samstarfsins er að auka hlutdeild jarðhita í orkubúskap heimsins og auka þannig hlutfall sjálfbærrar orkunýtingar.

Nánari upplýsingar eru á vef utanríkisráðuneytisins.