Fá vatn úr virkjunum í stað borholna

Hitaveita Veitna mun á næstu dögum breyta afhendingu heits vatns í nokkrum hverfum borgarinnar og í Mosfellsbæ svo þau fái upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Hverfin sem fá virkjanavatn í stað jarðhitavatns eru Reykjavík vestan Elliðaáa ásamt Árbæjarhverfum og Mosfellsbær.

Fyrri hluti vatnsskiptanna verður framkvæmdur á morgun, þann 27. maí, þar sem virkjanavatni verður veitt inn á austari hluta Reykjavíkur. Svæðið sem breytingin nær til er því frá Kringlumýrabraut og austur úr, til og með Ártúnsholti. Síðari hluti verður svo framkvæmdur um viku síðar þar sem skipt verður um vatn í Reykjavík vestan Kringlumýrarbrautar og í Mosfellsbæ. Að því loknu verður allt höfuðborgarsvæðið, nema Kjalarnes og Mosfellsdalur, komið á virkjanavatn.

Lítil áhrif á notendur

Notendur á þessum stöðum gætu orðið varir við einhverjar minniháttar truflanir á meðan skipt er yfir þótt það sé ekki líklegt. Um tímabundna aðgerð er að ræða en ráðgert er að þessi tilhögun standi fram í ágúst. Svipað fyrirkomulag var haft á afhendingu vatns í nokkrum hverfum um tíma sl. sumar og gafst það vel.

Helsti munurinn á virkjanavatni og jarðhitavatni er að jarðhitavatn kemur úr borholum og er veitt beint úr holunum og inn á dreifikerfið en virkjanavatnið er upphitað grunnvatn. Ekki er marktækur munur á þessum tveimur tegundum af vatni þannig að notendur ættu ekki að finna mun á vatninu. Engar breytingar verða á hitastigi eða þrýstingi í hitaveitunni við skiptin.

Létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum

Þessari tímabundnu aðgerð er ætlað að stækka dreifisvæðið sem fær virkjanavatn til að nýta betur framleiðslugetu virkjana. Á meðan er létt á vinnslu úr jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ sem gerir mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn. Aukin notkun heits vatns á hvern einstakling, mikil uppbygging og þétting byggðar í þeim hverfum sem nýta jarðhitavatn skapar álag á jarðhitasvæðin sem bregðast þarf við. Í sögulegu samhengi er staðan þokkaleg en til að tryggja sjálfbærni þessarar dýrmætu auðlindar til framtíðar þarf að auka hlut virkjanavatnsins og minnka hlut jarðhitavatnsins.

Framleiðsla virkjanavatns aukin

Í framtíðarskipulagi hitaveitu Veitna er virkjanavatni ætlað stærra hlutverk. Með það fyrir augum hefur framleiðslugeta Hellisheiðarvirkjunar á heitu vatni verið aukin með stækkun varmastöðvar sem lauk fyrr í þessum mánuði. Samhliða þeirri stækkun verða Árbærinn og Úlfarsárdalurinn settir á virkjanavatn til frambúðar.

Nýsköpun í hitaveitu verðlaunuð

Verðlaunahafar saman á sviðinu

Alþjóðlegu hitaveituverðlaunin Global District Energy Climate Awards voru afhent í sjötta sinn á Hilton Reykjavík Nordica í gær, samhliða ráðstefnunni Sustainable District Energy Conference. Samtökin Euroheat and Power standa fyrir verðlaununum og í þetta sinn í samstarfi við voru vinningshafar valdir í samstarfi við Alþjóðaorkumálastofnunina (IEA) og markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar borgir og samfélög.

Fjölmargar tilnefningar bárust alls staðar að úr heiminum sem áttu allar það sameiginlegt að vera framlag til að bæta hitaveitu í nærsamfélagi sínu og skipta yfir í endurnýjanlega orku úr jarðefnaeldsneyti til að hita eða kæla húsnæði.

Fimm hitaveituverkefni voru verðlaunuð og tóku fulltrúar fyrirtækjanna við verðlaununum við hátíðlega athöfn í gær. Nánari upplýsingar um verkefnin og verðlaunahafana má sjá á heimasíðu Euroheat and Power.

Framtíð og möguleikar hitaveitu á SDEC 2019 í Reykjavík

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti við opnun hennar í morgun.

Alþjóðlega hitaveituráðstefnan SDEC 2019, Sustainable District Energy Conference, var sett á Hilton Reykjavik Nordica í morgun.

Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska orkuklasann.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin Global District Energy Climate Awards veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin Euroheat & Power og EGEC (European Geothermal Energy Concil) sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

Orkan sem fer í húshitun er um 50% allrar orkunotkunar í löndum Evrópusambandins og ríður því á að skipta út jarðefnaeldsneyti í endurnýjanlega orkugjafa til að kynda og kæla húsnæði. Ráðstefnan er vettvangur fyrir umræðu um hvernig skal unnið að því, fjármögnun verkefna á sviði hitaveitu og tæknilegar útfærslur.

Umfangsmikil dagskrá er í boði um stöðu og framtíðarmöguleika hitaveitu í heiminum, en dagskrána má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

 

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku á SDEC 2019

 

Ráðstefnugestir á opnunarmálstofu SDEC 2019

Heitt vatn fundið í Súgandafirði

Leit á vegum Orkubús Vestfjarða að auknum jarðhita að Laugum í Súgandafirði hefur nú borið árangur. Talsvert magn af heitu vatni streymir inn í borholuna á 940 metra dýpi og er það yfir væntingum. Holan er orðin 971 metra djúp, en ekki liggur fyrir enn hvert lokadýpið verður, þar sem reiknað er með að bora eitthvað dýpra.

Þetta kemur fram á vef Orkubús Vestfjarða.

Mynd frá Orkubúi Vestfjarða af loftdælingu þann 25. ágúst.

30 seklítrar af 63 gráðu heitu vatni

Mælingar og prófanir á næstu tveimur mánuðum munu leiða í ljós hvers vænta má af holunni til lengri tíma litið. Skammtímamælingar gefa þó til kynna talsvert meira magn en úr eldri vinnsluholu Orkubúsins. Fullsnemmt er að fullyrði nákvæmlega um magnið, en fyrstu vísbendingar gefa til kynna að um geti verið að ræða a.m.k. 30 l/sek. eða þrefalt til fjórfalt það magn sem eldri holan gaf. Hitastigið er núna 63°C og er reiknað með að það fari í a.m.k 67°C.

Allt bendir því til að hægt verði að nota jarðhitavatn eingöngu til að hita húsnæði á Súgandafirði, en í dag er þar rekin rafkynt hitaveita sem nýtir jarðhitaorku að hluta til.

Kostnaður á þriðja hundrað milljóna

Ellefu rannsóknarholur voru boraðar á árunum 2016 til 2018, til að ákveða staðsetningu á vinnsluholunni, en áður höfðu farið fram rannsóknir og rýni á eldri gögnum.

Vænta má að heildarkostnaður við verkefnið verði á þriðja hundrað milljónir króna. Þar er um að ræða kostnað við rannsóknir, borun á rannsóknarholum, úrvinnslu gagna og undirbúning og borun vinnsluholu.

Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sér um borun vinnsluholunnar og notar til verksins borinn „NASA“.

 

Orkustefna er leiðarljós

Aðalfundur Samorku, sem haldinn var 6. mars 2019 á Grand hótel Reykjavík, ályktaði um orkustefnu:

Á sama tíma og heimurinn stendur frammi fyrir miklum áskorunum í umhverfismálum er ljóst að tækifæri Íslendinga til jákvæðra aðgerða eru einstök. Landið er ríkt af auðlindum sem gerir okkur kleift að ganga bjartsýn inn í næstu orkuskipti.

Sem aldrei fyrr er samfélag okkar, heimili, atvinnurekstur og þjónusta, grundvallað á orku. Orku- og veitufyrirtækin reka samfélags¬lega mikilvæga innviði sem jafnframt eru grunnur að rekstri annarra mikilvægra innviða.

Skýr stefnumörkun í orkumálum er því afar mikilvæg og fagnaðarefni að vinna við orkustefnu sé nú hafin hjá ríkistjórn Íslands.

Orkustefna þarf að tryggja orkuöryggi landsmanna, nægt framboð af orku sem uppfyllir þarfir þjóðarinnar, að hér sé skilvirkt og hagkvæmt regluverk og traustir orkuinnviðir. Hafa þarf í huga að orkuöryggi snýr bæði að raforku og heitu vatni.

Orkustefna þarf að styðja við að orkuframleiðsla verði áfram ein af grunnstoðum efnahags- og samkeppnishæfni þjóðarinnar um leið og hún gerir íslenskum stjórnvöldum kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Orkustefna þarf þannig að vera skýrt leiðarljós inn í sjálfbæra framtíð.

Fyrirlesarar óskast á alþjóðlega hitaveituráðstefnu

Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska orkuklasann.

Óskað er eftir áhugaverðum fyrirlestrum á ráðstefnuna og opnað hefur verið fyrir tillögur á heimasíðu ráðstefnunnar, sdec.is. Í boði eru fjölbreytt umfjöllunarefni og mega erindin vera bæði um efni vísindalegra greina eða rannsókna, sem og byggð á reynslu fyrirlesarans. Frestur til að skila inn tillögu að erindi er 1. apríl 2019. Erindin verða flutt á ensku á ráðstefnunni.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

Viðbúnaður Veitna vegna kuldakasts

Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins sem nú stendur yfir á höfuðborgarsvæðinu.

Rennsli í hitaveitukerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram að aukast í nótt eftir metrennsli í gær. Jafnaðarrennslið nemur um 16.400 rúmmetrum þá klukkutíma sem notkunin er mest. Megin skýringin er aukin kynding húsa og varmatap úr þeim vegna kuldans.

Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og vegna þessa hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun sína. Gangi veðurspáin eftir gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda á föstudag, á meðal þeirra eru sundlaugarnar.

Förum vel með heita vatnið
Veitur hvöttu fólk í gær til að fara vel með heita vatnið og huga að því hvort hugsanlega sé vatni sóað á heimilum þess eða vinnustöðum. Um 90% af hitaveituvatninu eru notuð til húshitunar. Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið. Fleiri sparnaðarráð er að finna á vef Veitna.

Stækkuð varmastöð í haust
Uppbygging stendur yfir í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð aukning varð á notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018. Árið var mun kaldara en árin á undan, fólksfjölgun var mikil og mikið byggt af húsnæði. Aukning notkunar á heitu vatni var þó umfram það sem þessu svaraði. Á meðal yfirstandandi fjárfestinga Veitna er tenging eldri borhola við hitaveituna, sverun aðalæða en mestu mun skipta stækkun varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun. Hún var upphaflega ráðgerð árið 2023 en var flýtt til haustsins 2019. Gangi langtímaspár um heitavatnsnotkun eftir duga þessar aðgerðir fram undir miðjan næsta ártug. Spár Veitna í þessum efnum eru endurskoðaðar tvisvar á ári.

Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum.

Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

 

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.

 

Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.

Húshitun ódýrust hér af Norðurlöndum

Mikill munur er á kostnaði vegna húshitunar fyrir íbúa í höfuðborgum Norðurlandanna. Íbúi í Kaupmannahöfn þarf að borga 314 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi rúmlega 300 þús krónur, í Osló 264 þúsund krónur og í Helsinki 246 þúsund krónur á ári.

Í Reykjavík er árlegur kostnaður hins vegar aðeins 90 þúsund krónur.

Að meðaltali er kostnaðurinn 243.521 kr. á ári fyrir íbúa í höfuðborg á Norðurlöndum.


Í samanburðinum er stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg á Norðurlöndum.

Langflest heimili á Íslandi eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Á hverju ári sparar húshitun með jarðhita og framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegri orku mikla losun koltvísýrings út í andrúmsloftið, eða um 19 milljónir tonna árlega. Til samanburðar höfum við skuldbundið okkur til að minnka losun koltvísýrings um eina milljón tonna fyrir árið 2030 samkvæmt Parísarsamningnum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Hér má sjá samanburðinn þegar kostnaður hefur verið brotinn niður.

Uppfærð 6. sept: Lagfærðar tölur um að húshitun spari árlega um 19 milljónir tonna, rétt er að húshitun og framleiðsla rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum sparar árlega 19 milljónir tonna.

Metnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu

Notkunin á heitu vatni til húshitunar á fyrstu sex mánuðunum hefur verið 10% meiri en að meðaltali, sé litið til næstu fjögurra ára á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum.

Dagana 16. – 23. janúar fóru að jafnaði 15.161 rúmmetrar á klukkustund í gegnum hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta vikunotkunin sem sést hefur. Met í sólarhringsnotkun og notkun á klukkustund voru einnig slegin í janúar.

Ástæða þessarar aukningar á notkun á heitu vatni ætti ekki að koma íbúum á höfuðborgarsvæðinu á óvart. Kuldatíð í janúar og febrúar og einstaklega rysjótt tíð í maí og júní á suðvesturhorni landsins hefur ekki farið fram hjá neinum. Þess utan hefur notkun á heitu vatni aukist mikið á síðustu árum, eða um tæplega 20% á síðustu fimm árum.