Vel heppnaður Veitudagur

Veitudagur Samorku var haldinn í fyrsta sinn á Fagþingi hita-, vatns- og fráveitna á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23.- 25. maí.

Dagurinn var sérstaklega tileinkaður framkvæmda- og tæknifólki í aðildarfélögum Samorku. Fundargestum var boðið upp á áhugaverða fyrirlestra, þ.m.t. um öryggismál, en svo var skipt í lið og keppt í hinum ýmsu greinum.

 

Í mælaþrautinni áttu keppendur að „koma fyrir vatnsmæli í húsi“ og líkt var eftir mjög erfiðum aðstæðum sem geta komið upp þegar starfsmenn veitufyrirtækja þurfa að koma upp mælum. Í suðukeppninni var heimæð komið fyrir á dreifilögn undir þrýstingi og tengja þurfti svo heimlögnina við ímyndaða tengigrind húsveitu.

 

Í suðukeppninni var keppt í suðu á lagnaefni, í röraboltanum átti að kasta bolta og hitta ofan í rör eftir fyrirfram ákveðnum reglum og síðast en ekki síst var keppt í stígvélakasti, þar sem dæmt var eftir lengd og stefnufestu.

 

Veitt voru verðlaun fyrir hverja þraut fyrir sig, en það voru Selfossveitur sem voru stigahæsta liðið samanlagt og fengu því sigurverðlaun dagsins.

Selfossveitur voru með besta árangur samanlagt í þrautum dagsins

 

 

Veitudagurinn þótti heppnast vel og líklegt verður að teljast að hann verði héðan í frá fastur liður á Fagþingum Samorku.

 

 

 

 

 

 

Myndir frá deginum má sjá á Facebooksíðu Samorku

Alþjóðleg umhverfis- og orkuverðlaun afhent á Íslandi

Umsækjendur GDECA 2019 ásamt Paul Voss, frkvstj. Euroheat&Power

Dagana 23. – 25. október 2019 verður alþjóðlega hitaveituráðstefnan „Sustainble District Energy Conference“ haldin í Reykjavík. Ráðstefnan fer fram í fyrsta skipti hér á landi en tilgangur hennar er að vera samstarfsvettvangur Evrópuþjóða í rannsóknum og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi heldur ráðstefnuna í samstarfi við íslenska jarðvarmaklasann, Iceland Geothermal.

Samhliða ráðstefnunni verða verðlaunin „Global District Energy climate Awards“ veitt í sjötta skipti. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykja skara framúr í vinnslu og nýtingu á endurnýjanlegri orku. Það eru samtökin „Euroheat & Power“ og „EGEC (European Geothermal Energy Concil)“ sem standa að verðlaununum en bæði samtökin hafa það að markmiði að auka samkeppnishæfni endurnýjanlegra orkugjafa.

2-300 þátttakendur eru væntanlegir til landsins vegna ráðstefnunnar og verðlaunanna sem verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica. Á síðasta ári fór verðlauna afhendingin fram í Doha í Qatar en í ár stóð valið milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar.

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku fór fyrir umsókn Íslands um verðlaunin í samstarfi við Iceland Geothermal, Ráðstefnuborgina Reykjavík (Meet in Reykjavík) og Athygli Ráðstefnur.
Hann fagnar því að þessi alþjóðlegur viðburður sé haldinn á Íslandi, sem sé í fararbroddi í nýtingu á endurnýjanlegri orku í heiminum. „Íslenskar hitaveitur eiga stóran þátt í þeim árangri sem Ísland hefur þegar náð í orkuskiptum og því vel við hæfi að halda alþjóðlega ráðstefnu um hitaveitur og loftslagsmál hér á landi.“

Paul Voss, framkvæmdastjóri Euroheat & Power sagði þrennt hafa ráðið vali Íslands fyrir verðlaunin 2019. Í fyrsta lagi vegna forystu Íslands í nýtingu á endurnýjanlegri orku, í öðru lagi vegna mikils áhuga hér á landi fyrir verðlaununum og í þriðja lagi sé töluvert sem fulltrúar annarra þjóða geti lært af Íslendingum.

Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Meet in Reykjavík, segir komu ráðstefnunnar og verðlaunanna enn eina birtingarmynd þeirrar forystu sem Íslendingar hafa tekið í notkun og nýtingu á grænum og endurnýjanlegum orkugjöfum. „Áhugi fyrir Íslandi innan geirans er ótrúlegur, við finnum fyrir því í fyrirspurnum og þegar við sækjumst eftir slíkum viðburðum. Það á að vera metnaðarmál okkar í ferðaþjónustunni, þeirra sem starfa í orkugeiranum og stjórnvalda að fá viðburði eins og þessa til landsins enda um vermæta gesti að ræða sem skilja eftir sig mikilvæga þekkingu og tengsl.“

Langódýrast að hita húsið sitt í Reykjavík

Húshitunarkostnaður á Íslandi er langt undir meðaltali á Norðurlöndunum. Fimmfalt dýrara er fyrir íbúa í Helsinki að hita húsið sitt en fyrir íbúa í Reykjavík.

 

Árlegur kostnaður við að hita heimili íbúa á höfuðborgarsvæðinu er 88 þús krónur á ári og hefur hann hækkað lítillega á milli ára. Íbúi í Helsinki þarf að borga 440 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi tæplega 300 þús krónur, í Kaupmannahöfn 272 þúsund krónur og í Osló tæplega 247 þúsund krónur á ári. Að meðaltali er kostnaðurinn 269.366 krónur á ári.

Þetta kemur fram í samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

 

Íslendingar hita heimili sín vel en greiða hlutfallslega minnst af ráðstöfunartekjum í það miðað við aðra íbúa höfuðborga Norðurlandanna.

Langflest heimili landsins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri.

Góð rekstrarniðurstaða OR

or

Hagnaður OR eftir fyrstu níu mánuði ársins nemur 9,4 milljörðum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag.

Nettóskuldir OR hafa lækkað um 17,8 milljarða frá áramótum. Þar af hefur styrking krónunnar skilað 3,8 milljörðum til lækkunar skulda og færist til tekna.

Í gær tilkynntu Veitur um gjaldskrárbreytingar sem verða um áramót. Veitur er dótturfyrirtæki OR sem sér um rekstur hitaveitu, vatnsveitu, fráveitu og rafveitu víða á sunnan- og vestanverðu landinu. Sparnaður í rekstrinum gerir fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrá rafmagnsdreifingar um 5,8%. Rafveita Veitna þjónar Reykjavík, Akranesi, Mosfellsbæ, Kópavogi og meirihluta Garðabæjar. Gjaldskrá vatnsveitnanna lækkar um allt að 11,2% en miklar fjárfestingar í fráveitum og hitaveitum leyfa ekki lækkun á þeim gjaldskrám.

 

Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi

Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust.

Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi.

Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda.

Forsendur:
Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun.
Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun.
Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda.
Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.

Ísland önnur umhverfisvænsta þjóð heims

Ísland er önnur umhverfisvænsta þjóð heimsins samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskólans í Bandaríkjunum. Þessi skemmtilega staðreynd þarf ekki endilega að koma á óvart því staða Íslands er mjög sterk í alþjóðasamhengi vegna gnægðar vistvænnar orku hér á landi.

Hlutfall endurnýjanlegrar orku við rafmagnsframleiðslu og húshitun er ríflega 99% á Íslandi og vegur þyngst í að skila Íslandi svo ofarlega á lista. Einnig er hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu 0%. Í öðrum löndum Evrópu nær þessi tala allt að 80%.

Finnland kemur best út samkvæmt vísitölunni og Danmörk og Svíþjóð koma fast á hæla Íslandi.

 

 

Þorsteinn Þorsteinsson hjá Markaðsrýni vakti nýlega athygli á þessa nýju vísitölu Yale, Yale‘s Environmental Performance Index (EPI).

Þótt að vísitalan sýni hversu framarlega Ísland er þegar kemur að loftslagsmálum, þá má ná enn betri árangri. Eins og staðan er í dag er hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum lágt í samanburði við önnur lönd, eða 3,3%, en rafbílum fer þó hratt fjölgandi. Þarna liggja langstærstu tækifæri Íslands í loftlagsmálum; Að skipta um orkugjafa í bíla- og skipaflota landsins og minnka þannig útblástur gróðurhúsalofttegunda allverulega.

Hægt er að skoða skýrslu Yale í heild sinni á vefnum og lesa sér betur til um forsendur og niðurstöður EPI.

 

Húshitunarkostnaður langlægstur í Reykjavík

Það kostar fimmfalt meira á ári að hita húsið sitt í Helsinki en í Reykjavík. Húshitunarkostnaður er langlægstur á Íslandi og er þrefalt minni en þar sem næstódýrast er að hita.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt Samorku um húshitunarkostnað á Norðurlöndum. Stuðst er við tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg.

Árlegur kostnaður við að hita heimili á Íslandi er rúmar 85 þús krónur á ári fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu . Íbúi í Helsinki þarf að borga hátt í hálfa milljón árlega, eða um 428 þús krónur. Í Stokkhólmi er næstdýrast að hita húsið sitt eða rúmlega 300 þús krónur á ári. Íbúar í Kaupmannahöfn og Osló borga svipað á ári, eða tæplega 300 þús krónur.

Skattar vega nokkuð þungt á húshitunarreikningi Norðurlandabúa, en auk virðisaukaskatts er innheimtur sérstakur orkuskattur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn.

 

Langflest heimili landsins eru hituð upp með heitu vatni (jarðhita), eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Auk þess að vera ódýr kostur, er jarðhiti endurnýjanlegur og umhverfisvænn orkugjafi. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa.

Hitaveitur spara losun á við eina og hálfa Kaupmannahöfn

Fyrir átak í uppbyggingu hitaveitna á áttunda áratug síðustu aldar var víða notast við olíu til húshitunar á Íslandi. Ef við værum að nýta sama orkumagn til húshitunar með brennslu olíu og við gerum í dag með nýtingu jarðhita hefði sú olíubrennsla í för með sér losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur 18 milljónum tonna af koldíoxíði á ári. Það er á við eina og hálfa árlega losun Kaupmannahafnar.

Í vikunni fór fram alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma í Hörpu í Reykjavík, þar sem samankomnir voru um 700 manns frá 45 löndum til að ræða kosti jarðvarmanýtingar og áskorunum sem þeim fylgja. Nú þegar heimsbyggðin stendur frammi fyrir því að gera gríðarlegar breytingar á orkunýtingu til að ná Parísarmarkmiðum í loftslagsmálum, er horft til þeirrar einstöku stöðu Íslands að 90% allra bygginga eru hituð með jarðvarma. Jarðvarmi finnst á fjölmörgum stöðum um allan heim og líta margir því til íslenskrar sérþekkingar í þeim geira – að hér höfum við á árangursríkan hátt skipt yfir í endurnýjanlegan og sjálfbæran orkugjafa á skömmum tíma.

Hitaveitur spara 272 þús á hvern íbúa landsins árlega

Sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum fyrir árið 2014, eða 272 þúsundum á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn er í hreinum gjaldeyri, þar sem olía er flutt inn til landsins. 89 milljarðar eru 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2014.

Hitaveitur Íslendinga spara þar að auki mikla losun gróðurhúsalofttegunda því jarðvarmi er græn, endurnýjanleg orka sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti en svo er ekki með olíu og kol.

Nánari upplýsingar og fleiri tölur má sjá á vef Orkustofnunar, meðal annars sparnaðinn í sögulegu samhengi allt frá því að stigin voru fyrstu skrefin í nýtingu jarðvarma til húshitunar árið 1914.

Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.