Hitaveitur komnar í hámarks afkastagetu

Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist mjög mikið á skömmum tíma. Staðan er nú orðin þannig að núverandi vinnslusvæði eru komin í hámarks afkastagetu og það er því stór áskorun fyrir hitaveitur að anna þessari eftirspurn. Þá blasir við að hún eigi enn eftir að aukast mikið samkvæmt jarðvarmaspá Orkustofnunar til ársins 2060. Jarðhitaleit, leyfisveitingar og rannsóknir taka langan tíma og því engin lausn í sjónmáli. Komið geti til skerðinga á heitu vatni á köldustu dögum ársins.

Um þetta var fjallað á opnum fundi Samorku fimmtudaginn 17. nóvember undir yfirskriftinni Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?

Fulltrúar þriggja hitaveitna kynntu stöðuna eins og hún er í dag og hvernig aukin eftirspurn hefur haft áhrif á starfsemi þeirra. Þá kynnti Orkustofnun jarðvarmaspána og nýja orkunýtnitilskipun Evrópusambandsins. Að lokum var hvatt til vitunarvakningar meðal almennings um að fara vel með heita vatnið og sóa því ekki að óþörfu.

Upptöku af fundinum má sjá neðst í færslunni.

Hér má sjá svipmyndir frá fundinum í Hörpu. Ljósmyndir: BIG