Ársfundur Norðurorku 2015

Ársfundur Norðurorku hf. verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi föstudaginn 27. mars 2015, kl. 15:00. Á fundinum eru tvö meginþemu, vatnsvernd og menntamál og verða mörg áhugaverð erindi flutt á fundinum, t.d mun Sigurjón Kjærnested, framkvæmdastjóri veitusviðs Samorku flytja erindi um nýtt samstarfsverkefni Samorku og Neyðarlínunnar á sviði vatnsverndar. Frekari upplýsingar um fundinn má finna á heimasíðu Norðurorku.

Orkan ódýrust hérlendis

Húshitun er mun ódýrari í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Raforka til heimila sömuleiðis. Kalda vatnið er á svipuðu verði og í Stokkhólmi en mun ódýrara en í hinum norrænu höfuðborgunum og fráveituþjónustan er næst ódýrust í Reykjavík, á eftir Stokkhólmi. Þetta kemur fram í gögnum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur tekið saman. Heilt yfir er orku- og veitukostnaður viðmiðunarheimilis lang lægstur í Reykjavík, eða innan við 20 þúsund krónur á mánuði, á meðan kostnaðurinn í höfuðborgum hinna Norðurlandanna er á bilinu 45 til 62 þúsund krónur á mánuði. Sjá nánar hér á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Dagur vatnsins 2015 – Vatn og sjálfbær þróun

Þann 22. mars er Dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagur vatnsins er árlega tilefni til þess að fagna vatnsauðlindinni, hvetja til góðrar umgengni um hana og sérstaklega hérna á Íslandi, vera þakklát fyrir hversu vel við búum. Þema dagsins í ár er vatn og sjálfbær þróun og vill Samorka að því tilefni koma á framfæri hvatningu til góðrar umgengni um vatnsauðlindina og skynsamlegrar nýtingar á henni. Frekari umfjöllun um Dag vatnsins má finna á heimasíðu samtakanna sem árlega skipuleggja Dag vatnsins: United Nations Water.

Við vekjum einnig athygli á áhugaverðum fróðleik um kalda vatnið hér á heimasíðu Samorku og á heimasíðu Orkuveitu Reykjavikur þar sem verður á næstu dögum sérstaklega beint sjónum að kalda vatninu.

Erindi af vorfundi Jarðhitafélags Íslands

Vorfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn þann 19. mars síðastliðinn í húsakynnum Landsvirkjunar. Fundurinn, sem var haldinn í beinu framhaldi af aðalfundi félagsins, var vel sóttur en þegar mest var voru yfir 50 manns á fundinum. Þema fundarins var: „Erindi Íslendinga á WGC 2015“. Erindi fyrirlesara má finna á heimasíðu JHFÍ.

Vindmyllur með mjög góða nýtingu

Nýting vindmyllanna fyrir ofan Búrfell var afar góð á fyrsta heila rekstrarári þeirra, raunar með því allra hæsta í heiminum, eða 44%. Á heimsvísu er meðaltalið um 28%.Tvö svæði hafa verið til frekari skoðunar af hálfu Landsvirkjunar fyrir mögulega framtíðaruppbyggingu á sviði vindorku: Þjórsár- og Tungnaársvæðið og einnig virkjanasvæði Blöndustöðvar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar 20. mars

Árlegur Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar verður haldinn föstudaginn 20. mars næstkomandi. Í ár hefst vísindadagurinn á sólmyrkva! Ráðstefnugestum verður boðið út á svalir á höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og boðið að rýna í gegnum til þess gerð gleraugu á sólmyrkvann áður en gengið verður til dagskrár. Þar verður boðið upp á kynningu á 14 vísindaverkefnum, sem unnin hafa verið af fyrirtækjunum tveimur eða í samstarfi við þau. Skráningar er óskað og stendur hún yfir á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

ESB eykur kröfur um samtengingar raforkukerfa, m.a. með sæstrengjum

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett fram tilmæli til aðildarríkja sambandsins þess efnis að þau efli samtenginar flutningskerfa raforku, m.a. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Árið 2020 er hverju aðildarríki ætlað að búa að flutningsgetu til annarra ríkja á sem svarar a.m.k. 10% allrar raforku sem framleidd er í landinu. Þessari stefnu er m.a. ætlað að efla orkuöryggi og bæta nýtingu raforkukerfa, og minnka þar með þörfina á að auka vinnslugetu raforku með virkjunum eða öðrum raforkuverum. 

Tólf núverandi aðildarríkja ESB uppfylla ekki þessar kröfur í dag, m.a. Bretland og Írland. Ætla má að þessar kröfur, auk kröfunnar um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa og aukið orkuöryggi, skýri þann áhuga sem bresk stjórnvöld hafa sýnt á tengingu um sæstreng við Ísland o.fl. ríki.

Sjá má umfjöllun framkvæmdastjórnar ESB hér á vef hennar.