27. október 2014 Erindi haustfundar Jarðhitafélags Íslands 2014 Haustfundur JHFÍ fór fram þann 23.10.2014 og var fundurinn ár tileinkaður störfum Sverris Þórhallssonar. Fundinn þótti vel heppnaður en hann sátu yfir 100 manns og var fullt út úr dyrum. Erindi sem flutt voru á fundinum má finna á heimasíðu Jarðhitafélagsins:
14. október 2014 Nýir sæstrengir sagðir munu auka verðmætasköpun í Noregi Norska orkumálaráðuneytið hefur gefið flutningsfyrirtækinu Statnett leyfi til að leggja tvo nýja sæstrengi til raforkuflutnings, annars vegar til Þýskalands og hins vegar til Bretlands. Um er að ræða strengi með 1.400 megavatta flutningsgetu og yrði strengurinn til Bretlands sá lengsti sinnar tegundar, um 800 km að lengd. Ráðgert er að hann verði tekinn í notkun árið 2020, en strengurinn til Þýskalands árið 2018. Að sögn Olufs Ulseth framkvæmdastjóra Energi Norge – samtaka norskra orkufyrirtækja – mun stóraukin flutningsgeta til annarra Evrópulanda hafa í för með sér aukna verðmætasköpun fyrir Noreg, þar sem hægt verði að flytja inn vind- og sólarorku þegar hennar nýtur við á lágum verðum í öðrum Evrópuríkjum, en nýta sveigjanleika vatnsaflsins til að flytja orkuna út þegar sólar eða vinds nýtur ekki við og verðin því hærri á umræddum mörkuðum. Þá muni þessar nýju tengingar auka orkuöryggi Noregs, þar sem raforkan gegnir m.a. lykilhlutverki í húshitun. Loks bendir hann á að aukin strengvæðing muni stuðla að auknum hlut grænna orkugjafa í orkunotkun Evrópulanda og þar með að minni brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu, gas og kol, og þannig draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þær þjóðir sem helst búi að vind- og sólarorku, auk brennslu jarðefnaeldsneyta, muni flytja inn raforku úr norsku vatnsafli þegar vinds eða sólar nýtur ekki við. Sjá nánar á vef Energi Norge.
7. október 2014 Öryggið fyrst og fremst – ráðstefna 16. október Fimmtudaginn 16. október stendur Dokkan fyrir ráðstefnu um öryggishegðun á vinnustöðum, í samvinnu við Samorku o.fl. Ráðstefnan verður haldin á Hótel Natura, en nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu má nálgast hér á vef Dokkunnar.
6. október 2014 Verkefnakynning Jarðhitaskólans 8. október Árlegir fyrirlestrar nemenda Jarðhitaskólans um verkefni sín verða haldnir í Víðgelmi, fyrirlestrarsal Orkugarðs, Grensásvegi 9, miðvikudaginn 8. október og hefjast kl. 09:00. Fyrirlestrarnir eru öllum opnir. Sjá nánar í meðfylgjandi dagskrá frá Jarðhitaskólanum.
23. september 2014 Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins 2020 haldið á Íslandi! Stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins (IGA) hefur ákveðið að World Geothermal Congress 2020 – heimsþing sambandsins sem haldið er á 5 ára fresti – verði haldið á Íslandi. Um er að ræða langstærsta viðburðinn í jarðhitaheiminum og einn stærsta ráðstefnuviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi. Það var Iceland Geothermal klasasamstarfið sem leiddi vinnu við umsóknarferlið fyrir Íslands hönd og Samorka og jarðhitasamfélagið allt á Íslandi studdu við umsóknina. Forseti Íslands, ríkisstjórn og Reykjavíkurborg studdu einnig við umsóknina. Dr.Bjarni Pálsson, fyrrv. formaður Jarðhitafélags Íslands og Rósbjörg Jónsdóttir frá Iceland Geothermal kynntu og fylgdu umsókn Íslands eftir á stjórnarfundi Alþjóða jarðhitasambandsins í mars síðastliðnum. Það er mikill viðurkenning og árangur að Ísland skuli hafa orðið fyrir valinu, í samkeppni við lönd eins og t.d Þýskaland, Bandaríkin og Chile. Stjórn IGA kaus um hvaða land fengi að halda heimsþingið og var kosið með útsláttarfyrirkomulagi, þar sem Ísland var valið fram yfir Þýskaland í lokaumferðinni. Samorka óskar Iceland Geothermal og jarðhitasamfélaginu öllu á Íslandi til hamingju með þennan tímamótaáfanga.
18. september 2014 Vísindaferð VAFRÍ til að fræðast um vatns- og fráveitumálefni á Suðurlandi Vatns- og Fráveitufélags Íslands (VAFRÍ) heldur vísindaferð til Suðurlands fimmtudaginn 25. september kl 12:30-18. Markmið ferðarinnar er að fræðast um vatns- og fráveitumálefni á svæðinu. Heimsótt verða helstu mannvirki og hlýtt á fræðslufyrirlestra frá fulltrúum veitna, fráveitna, verkfræðistofu og stofnanna (Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og MAST). Dagskrá ferðarinnar má sjá hér. Allir eru velkomnir! Þátttökugjald er 1000 kr, ókeypis fyrir félagsmenn VAFRÍ. Áhugasamir geta skráð sig í ferðina á https://ugla.hi.is/K2/eydublad.php?sid=135&fid=6639
10. september 2014 Mikill vöxtur í endurnýjanlegri orkuframleiðslu Raforkuframleiðsla með endurnýjanlegum orkugjöfum jókst mikið á heimsvísu árið 2013 og nemur nú um 22% af allri raforkuframleiðslu veraldar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Ef einungis er horft til evrópskra aðildarríkja OECD nam aukningin árið 2013 6% og nemur endurnýjanleg orka nú 30% allrar raforkuframleiðslu landanna. IEA spáir því að árið 2020 muni endurnýjanleg orka nema 26% af allri raforkuframleiðslu veraldar. Lesa má um skýrsluna hér á vef IEA, en þess má geta að á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum.
10. september 2014 Nátturugæði í 100 ár – Ráðstefna í tilefni af 100 ára afmæli vatnsveitu á Akureyri – HOFI fimmtudaginn 18. september n.k. Í tilefni af 100 ára afmæli vatnsveitu á Akureyri heldur Norðurorka ráðstefnuna Vatn – Náttúrugæði í 100 ár í Hofi fimmtudaginn 18. september n.k. Nánar um ráðstefnuna, dagskrá og skráningu, má sjá á heimasíðu Norðurorku.
5. september 2014 Fundur um arðsemi orkuútflutnings VÍB, Eignastýring Íslandsbanka, boðar til fundar um arðsemi orkuútflutnings. Þar mun Ola Borten Moe, fyrrverandi orkumálaráðherra Noregs, m.a. tala um reynslu Norðmanna af alþjóðlegum orkumarkaði. Fundurinn verður haldinn í Hörpu þriðjudaginn 9. september og hefst kl. 17:00. Sjá nánar á vef VÍB.
4. september 2014 Afhendingaröryggi raforku bætt á Vestfjörðum Landsnet og Orkubú Vestfjarða hafa tekið í notkun nýtt tengivirki á Ísafirði. Þá hafa styrkingar farið fram á Tálknafjarðarlínu og vinna við varaaflsstöð í Bolungarvík er langt komin og á hún að vera tilbúin til notkunar fyrir árslok. Er þessum framkvæmdum ætlað að efla afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, sem ekki hefur verið ásættanlegt undanfarin ár. Sjá nánar á vef Landsnets.