Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata!

Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarð er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi.

Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.

Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Fita, eldhúsbréf, blautþurrkur, bómullarvörur, eyrnapinnar – allt eru þetta algeng dæmi um rusl og efni sem berast hreinsistöðvum um fráveitukerfin og valda þar miklum kostnaði við hreinsun á dælum og förgun á rusli. Einnig má nefna dæmi um greiðslukort, síma og falskar tennur. Við getum lækkað samfélagslegan kostnað verulega með því að minnka magn óæskilegra efna/hluta sem við sendum í fráveituna. Klósettið er ekki ruslafata! Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði  á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

Samorka í Hús atvinnulífsins

Skrifstofa Samorku er flutt af Suðurlandsbrautinni og í Hús atvinnulífsins að Borgartúni 35. Við hlökkum til að eiga í framtíðinni meira og betra samstarf við Samtök atvinnulífsins og önnur aðildarfélög þeirra í Borgartúninu.

Bresk-íslenskur vinnuhópur um sæstreng

Á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, var ákveðið að setja á laggirnar vinnuhóp til að kanna mögulega tengingu landanna í gegnum sæstreng. Miðað er við að umræddur hópur skili niðurstöðu innan sex mánaða, en á vef forsætisráðuneytisins er haft eftir Sigmundi Davíð að forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni sé að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki hérlendis. Eðlilegt sé þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.

Landsvirkjun undirbýr rafmagnssamning við Thorsil

Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að samningi um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun senda drögin í undirbúningsferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA og bíða niðurstöðu áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn fyrirtækisins. Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði – fundur Landsvirkjunar

Landsvirkjun boðar til fundar um tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði fyrir íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Sérþekking á orkumálum hér á landi er nú með því mesta sem þekkist í heiminum og sífellt koma fram nýir aðilar sem byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem safnast hefur á liðnum áratugum. Fundurinn verður haldinn miðvikudagsmorguninn 21. október á Hótel Natura.

Sjá dagskrá og skráningu hér á vef Landsvirkjunar.

Nýr staðall um jarðbindingu háspennuvirkja

Samorka vill vekja athygli á því að Staðlaráð Íslands hefur gefið út í íslenskri þýðingu staðalinn ÍST EN 50522, Jarðbinding háspennuvirkja. Staðalinn kemur í stað ÍST 170 Háspennuvirki fyrir riðspennu yfir 1 kV, ásamt staðlinum ÍST EN 61936-1 Power installations exceeding 1 kV a.c. – Part 1: Common rules.

Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Staðlaráðs Íslands: Smellið hér

 

Áttin – sameiginleg gátt starfsmenntasjóða, morgunverðarfundur

Þriðjudaginn 20. október verður haldinn morgunverðarfundur í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, þar sem fjallað verður um sameiginlega gátt starfsmenntasjóða – Áttina. Um er að ræða hluta fundaraðar SA og aðildarfélaga um menntun og mannauð en á fundi þann 17. nóvember verður fjallað um mannauð og framleiðni.

Nánar á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.