Ályktun aðalfundar 2016

 

Mikil tækifæri á sviði orkuskipta í samgöngum

Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er eitt af helstu viðfangsefnum mannkyns í dag. Víðast hvar snýst það verkefni öðru fremur um að draga úr brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við kol og olíu – sem stærstur hluti losunar er rakinn til á heimsvísu – og skipta yfir í notkun endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðhita og vindorku. Íslenskt orkukerfi er einstakt að því leyti til að hérlendis byggir nær öll raforkunotkun og húshitun á endurnýjanlegum orkugjöfum. Enn eru þó veruleg tækifæri til að gera betur í þessum efnum, einkum með orkuskiptum í samgöngum, en frá samgöngum innanlands stafa 19% allrar losunar hérlendis. Íslensk orku- og veitufyrirtæki binda miklar vonir við orkuskipti í samgöngum og munu leggja sitt af mörkum til þess að raunverulegur árangur geti náðst á þessu sviði, ekki síst á grunni öflugs framleiðslu- og flutningskerfi raforku.

Snjöll framtíð?

Snjallkerfi (e. smart systems) er yfirheiti yfir spennandi þróun sem nýtir stafræna tækni til þess meðal annars að auka við valkosti neytenda, bæta rekstur veitukerfa og bæta orkunýtingu. Veruleg tækifæri eru framundan í krafti þessarar þróunar en evrópskt regluverk kveður á um skoðun á innleiðingu svokallaðra snjallmæla. Kæmi til slíkrar innleiðingar gæti hún falið í sér allt að átta milljarða króna kostnað á Íslandi einu. Að mati Samorku er afar mikilvægt að vel sé fylgst með þessari þróun og tækifærin nýtt, en jafnframt að ekki sé stofnað til óþarfa kostnaðar, svo milljörðum skipti, án þess að ítarleg ábata- og kostnaðargreining hafi áður farið fram. Á vettvangi Samorku er unnið að slíkri greiningu.