Rafbílar ódýrari í rekstri – Ísland sýni djörfung í orkuskiptum

Rafbílar eru mun orkunýtnari en olíudrifnir bílar og nota innan við þriðjung þeirrar orku sem núverandi bílafloti landsmanna notar. Þeir eru mun ódýrari í rekstri og væru hagkvæmari fyrir heimilin þrátt fyrir að allir sömu skattar væru lagðir á akstur þeirra og lagðir eru á bensín og díselolíu í dag. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á ársfundi Samorku.

Til að halda sömu skatttekjum þyrfti að leggja á um 6 króna gjald á hvern ekinn kílómetra. Sparnaður venjulegs heimilis næmi engu að síður um einni milljón króna á tíu ára tímabili, þar sem rafbílar eru mun ódýrari í rekstri. Rafbíllinn skilur vissulega eftir sig kolefnisspor vegna framleiðslu á rafhlöðum fyrir þá. En samt sem áður er kolefnissporið miklu minna og útblástursfrí keyrsla bætir það upp.  Hann segir ævintýrið byrjað og að rafbílar gætu orðið eitt þúsund talsins á götunum í ár. Rafhlöðurnar lækka hratt í verði og drægnin fer hratt vaxandi. Sigurður segir að þarna skipti framlag smáþjóðar máli, enda öll raforka hérlendis unnin með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hann spyr hver í ósköpunum eigi að sýna djörfung í innleiðingu orkuskipta, ef ekki Ísland? Íslendingar búa við hreina endurnýjanlega orku og eiga nóg af henni, við erum borgríki og tæknivædd – Íslendingar hafi hreinlega enga afsökun.

Hér má sjá glærur frá fyrirlestri Sigurðar Inga, Orkuskipti.