Stór erlend fjárfesting í óvissu vegna takmarkana í flutningskerfinu

Raforkuþörf Eyjafjarðar er um 100 megavött (MW) í dag og fer vaxandi. Framleidd eru 8 MW á svæðinu og nauðsyn flutnings raforku á svæðið er æpandi, sagði Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, á aðalfundi Samorku. Bjarni greindi m.a. frá erlendum aðila sem óskar eftir 10 MW í atvinnuskapandi fjárfestingu í Dalvíkurbyggð, sem skapa myndi um 120 ný störf og umtalsverðar tekjur fyrir sveitarfélagið og þjóðfélagið í heild. Óvissa er um verkefnið vegna takmarkana í flutningskerfi raforku. 

Værukærir stjórnmálamenn sofa á verðinum
Bjarni sagði öfgahópa ekki mega stöðva uppbyggingu flutningskerfis raforku. Værukærir stjórnmálamenn, sveitarstjórnarfólk og hagsmunaaðilar væru sofandi á verðinum. Eyfirðingar og nærsveitafólk, sveitarstjórnarfólk, alþingismenn, embættisfólk, hagsmunaaðilar og landeigendur yrðu að leysa þetta mál sem þyldi enga bið.

Sjá erindi Bjarna Th.

Gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum í Fjarðabyggð gert að búa við eitt lakasta afhendingaröryggi raforku á landinu

Stórum orkunotendum og gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum í Fjarðarbyggð er gert að búa við eitt lakasta afhendingaröryggi raforku í landinu. Þetta kom fram í erindi Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar í erindi hans á aðalfundi Samorku. 

Auk þess kom fram í máli Páls að mögulega sé stefnt í uppnám þeirri uppbyggingu og atvinnuþróun sem vænta mátti á Austurlandi, samfara uppbyggingu stóriðju. Einnig sé framþróun í sjávarútvegi, m.a með rafvæðingu, ógnað.

Sjá nánar í erindi Páls.

 

Takmörk flutningskerfisins torvelda orkusölu Landsvirkjunar

Uppbygging flutningskerfis raforku hefur ekki verið í takt við uppbyggingu virkjana og er uppsett afl nú af annarri stærðargráðu en flutningsgeta milli landshluta. Frekari uppbygging virkjanakerfisins mun gera þessa stöðu enn viðkvæmari. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Óla Grétars Blöndal Sveinssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Landsvirkjunar, á aðalfundi Samorku.

Samningar um orkusölu ekki náð fram að ganga

Óli Grétar sagði að dæmi væru um að samningar um orkusölu hefðu ekki náð fram að ganga vegna takmarkana í flutningskerfinu. Afhending 10 megavatta (MW) eða meiri orku er nú einungis möguleg í tveimur landshlutum, þ.e. Suðvestanlands og á hluta af Norðurlandi vestra. Þessar takmarkanir gera nýja samninga um orkusölu erfiða, að sögn Óla Grétars. Þá væru þegar virkjaðar auðlindir ekki nýttar til fulls vegna takmarkana í flutningskerfinu, en að sögn Óla Grétars takmarkar flutningskerfið vinnslugetu Landsvirkjunar um sem nemur um 100 gígavattstundum (GWh) á ári. Loks torveldar þessi staða þróun nýrra virkjunarkosta, enda óvissa um flutning orkunnar frá virkjunum.

Sjá nánar í erindi Óla Grétars.

„Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna“

Raforkunotendur utan Suðvesturlands búa við minni gæði rafmagns og meiri líkur á truflunum og skerðingum í raforkuafhendingu en notendur Suðvestanlands. Þetta kom fram í erindi Ragnars Guðmannssonar, yfirmanns stjórnstöðvar Landsnets, á aðalfundi Samorku, þar sem hann fjallaði einkum um flutning raforku inn á Norður- og Austurland. Ragnar greindi m.a. frá því að við aðstæður eins og í dag, loðnuvertíð og lágt útihitastig, á sér stað mikill flutningur raforku til Austurlands og því fylgdi  mikil hætta á truflunum, jafnvel skerðingum. Kerfið er svo veikt, að farið er að tala um að Íslendingar (Landsnet) séu orðnir Evrópumeistarar í notkun kerfisvarna og í álagsstýringum flutningskerfis. Slík álagsstýring felst í skerðingum á orkuafhendingu og tilflutningi á álagi á milli svæða. Þá myndast  svokallaður „eyjarekstur“ í raforkukerfinu, sem er afar áhættusamur og ótryggur. Þessi vandi sem upp er kominn verður ekki lagfærður, nema með verulegu átaki í gerð öflugra flutningslína.

Nauðsynlegt að styrkja kerfið
Í kerfisáætlun Landsnets er fjallað um mismunandi valkosti til að auka og tryggja orkuflutninginn. Helstu kostir eru hálendislína og öflug styrking byggðalínu. Til að ná fram ásættanlegu öryggi raforkuafhendingar á Norður- og Austurlandi verður að bregðast fljótt og vel við með línustyrkingum. Þannig styrkist atvinnulífið þar sem afhendingaröryggi raforku er núna óviðunandi.

Sjá erindi Ragnars.

Iðnaðarráðherra: Vonbrigði með rammaáætlun

Í ávarpi sínu á aðalfundi Samorku sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, brýnt að styrkja flutningskerfi raforku. Hún tók heils hugar undir ályktun aðalfundar Samorku í þeim efnum, þar sem vonir eru bundnar við frumvarp hennar um eflingu kerfisáætlunar og tillögu hennar til þingsályktunar um málefni loftlína og strengja. Sjálf sagðist ráðherrann binda vonir við að umrædd þingmál yrðu afgreidd á yfirstandandi vorþingi.

Jafnframt tók Ragnheiður Elín undir ályktun aðalfundar Samorku um stöðu rammaáætlunar og sagði að áfangaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga, þar sem lagt er til að (einungis) Hvammsvirkjun verði færð í nýtingarflokk hefði valdið sér töluverðum vonbrigðum. Lýsti hún stuðningi við fyrirliggjandi breytingartillögu meirihluta atvinnuveganefndar, þar sem lagt er til að fleiri kostir verði færðir í nýtingarflokk, enda yrði núverandi eftirspurn eftir orku ekki mætt án nýrra virkjana.

Ennfremur ræddi ráðherrann um jöfnunargjald á raforkudreifingu o.fl. Erindi ráðherra má nálgast hér á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Ályktun aðalfundar Samorku: Raforkukerfi í alvarlegum vanda, þrír nýir skattar, fleiri orkukosti í nýtingarflokk

Ályktun aðalfundar Samorku, 20. febrúar 2015:

Raforkukerfi í alvarlegum og vaxandi vanda

Aðalfundur Samorku fagnar frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem styrkir kerfisáætlun Landsnets, sem og tillögu til þingsályktunar um málefni loftlína og strengja. Íslenska raforkukerfið er í alvarlegum og sífellt vaxandi vanda vegna hindrana í vegi uppbyggingar og eðlilegs viðhalds á flutningskerfi raforku. Fjöldi fyrirtækja verður fyrir tjóni og uppbygging atvinnulífs heilla landshluta býr við takmarkanir af þessum sökum. Óskandi er að sterkari staða kerfisáætlunar og skýrari leiðsögn stjórnvalda hvað varðar loftlínur og strengi muni einfalda nauðsynlega uppbyggingu og viðhald og þannig tryggja betur afhendingaröryggi raforku sem verið hefur óviðunandi víða um land undanfarin ár.

Þrír nýir skattar
Aðalfundur Samorku lýsir áhyggjum af því sem virðist vera orðin ný stefna stjórnvalda, að fjármagna almennar aðgerðir eða breytingar í stjórnsýslu með nýjum álögum á orku- og veitufyrirtæki. Þrír nýir skattar á umrædd fyrirtæki eru nú í undibúningi innan stjórnarráðsins eða til afgreiðslu á Alþingi.* Í öllum tilvikum er um að ræða almennar aðgerðir stjórnvalda, sem sannarlega hafa ýmislegt til síns ágætis en ættu að mati Samorku einfaldlega að fjármagnast með almennu skattfé ríkissjóðs. Þjónusta orku- og veitufyrirtækja kemur vissulega við sögu á flestum sviðum atvinnulífs og daglegs lífs landsmanna. Það gerir rekstur þeirra ekki að almennum skattstofni fyrir öll þessi sömu svið atvinnu- og mannlífs í landinu. Það er enda ljóst að viðskiptavinirnir, heimilin og atvinnulífið í landinu, bera á endanum allan slíkan kostnað sem lagður er á orku- og veitufyrirtækin.

Vantar orkukosti í nýtingarflokk
Loks hvetur aðalfundur Samorku þingheim til að færa fleiri orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar og leiðrétta þannig þær breytingar sem gerðar voru af hálfu stjórnvalda að loknu faglegu ferli verkefnisstjórnar 2. áfanga. Vaxandi fjöldi fjárfesta óskar nú eftir samningum um raforkukaup í magni sem engin leið verður að mæta á komandi árum án fjölgunar vænlegra orkukosta í nýtingarflokki rammaáætlunar.

————————–
* Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um nýtt jöfnunargjald á dreifingu raforku (107. mál), en gjaldið leggst á dreifiveitur raforku. Einnig liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um stjórn vatnamála (511. mál), þar sem kynnt er til sögunnar ný gjaldtaka sem leggst á vatnsafls- og jarðhitavirkjanir, hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur. Loks mun í undirbúningi að taka upp nýtt netöryggisgjald á grundvelli laga um almannavarnir. Á gjaldið að leggjast á orku- og veitufyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki, fjármálafyrirtæki og rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu.

 

Bjarni Bjarnason nýr formaður Samorku

Á aðalfundi Samorku 2015 var Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, kjörinn nýr formaður samtakanna. Hann tekur við af Tryggva Þór Haraldssyni, forstjóra RARIK, sem gegnt hefur embætti formanns sl. fjögur ár, og var jafnframt kjörinn til áframhaldandi setu í stjórn Samorku. Þá var Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, kjörinn nýr í stjórn samtakanna.

Jafnframt voru endurkjörnir til stjórnarsetu þeir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Veitna.  Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar, og Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella voru kjörnir til áframhaldandi setu sem varamenn í stjórn. Áfram sitja jafnframt í stjórn, kjörin til tveggja ára á aðalfundi 2014, þau Guðrún Erla Jónsdóttir, forstjóri Orkuveitu Húsavíkur, og Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða. Ennfremur var á aðalfundi 2014 kjörinn til tveggja ára sem varamaður Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku. Þórður Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Landsnets, sagði sig frá stjórnarsetu um nýliðin áramót, þegar hann lét af störfum hjá Landsneti.

Stjórn Samorku skipa því, að loknum aðalfundi 20. febrúar 2015:

Aðalmenn:
Bjarni Bjarnason, Orkuveitu Reykjavíkur, formaður stjórnar
Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti
Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Húsavíkur
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Júlíus J. Jónsson, HS Veitum
Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða
Tryggvi Þór Haraldsson, RARIK

Varamenn:
Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, Hitaveitu Egilsstaða og Fella
Helgi Jóhannesson, Norðurorku

Raforkukerfi í vanda – opin dagskrá aðalfundar Samorku 20. febrúar

Yfirskrift opinnar dagskrár aðalfundar Samorku er Raforkukerfi í vanda. Erfið staða flutningskerfis raforku verður þar til umfjöllunar og þær hömlur sem sú staða hefur á þróun atvinnulífs víða um land. Um þessi mál munu fjalla yfirmaður stjórnstöðvar Landsnets, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Þá munu nýr formaður Samorku sem og iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpa fundinn, sem haldinn verður á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 20. febrúar. Opna dagskráin hefst kl. 13:30, en venjuleg aðalfundarstörf félaga að Samorku hefjast með skráningu kl. 10:00.

Smellið á myndina, eða hér, til að fá dagskrána í stærri útgáfu.