Hitaveitur spara 272 þús á hvern íbúa landsins árlega

Sparnaður Íslendinga vegna jarðhita til húshitunar í stað olíu nam 89 milljörðum fyrir árið 2014, eða 272 þúsundum á hvert mannsbarn. Sparnaðurinn er í hreinum gjaldeyri, þar sem olía er flutt inn til landsins. 89 milljarðar eru 8,3% af heildar gjaldeyristekjum Íslands árið 2014.

Hitaveitur Íslendinga spara þar að auki mikla losun gróðurhúsalofttegunda því jarðvarmi er græn, endurnýjanleg orka sem hægt er að virkja með sjálfbærum hætti en svo er ekki með olíu og kol.

Nánari upplýsingar og fleiri tölur má sjá á vef Orkustofnunar, meðal annars sparnaðinn í sögulegu samhengi allt frá því að stigin voru fyrstu skrefin í nýtingu jarðvarma til húshitunar árið 1914.

Nýting og verndun vatns á morgunfundi

Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin bjóða til morgunverðarfundar á Veðurstofu Íslands, Bústaðavegi 7, fimmtudaginn 31. mars. Fjallað verður um vatn af tilefni alþjóðlegum Degi vatnsins sem haldinn var hátíðlegur 22. mars.

Dagskrá fundarins:

Án vatns er enginn vinnandi vegur Sveinn Agnarsson, Háskóla Íslands

Að veita vatni Hólmfríður Sigurðardóttir, Orkuveitu Reykjavíkur

Verndun og nýting vatns: Siðferðislegar spurningar Skúli Skúlason, Háskólanum á Hólum

Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8 en dagskrá fundarins hefst 8.30. Áætluð fundarlok eru kl. 10. Fundargestir eru beðnir um að senda staðfestingu um þátttöku á netfangið skraning@vedur.is fyrir kl. 12 þann 30. mars.

Kynningarfundir um tillögur um flokkun virkjunarkosta

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar mun ganga frá drögum að tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta á miðvikudaginn, 30. mars. Til að auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum að kynna sér drögin efnir verkefnisstjórn til kynningarfunda, sem hér segir:

31.3. – Reykjavík, Kaldalón í Hörpu, kl. 14-16
6.4. – Grindavík, Gjáin, kl. 20-22
7.4. – Kirkjubæjarklaustur, fundarstaður ekki ákveðinn, kl. 16:30-18:30
7.4. – Selfoss, Hótel Selfoss, kl. 20:30-22:30
11.4. – Stórutjarnir, Stórutjarnaskóli, kl. 20-22
12.4. – Akureyri, Hamrar í Hofi, kl. 12-14
12.4. – Varmahlíð, Miðgarður, kl. 20-22
13.4. – Nauteyri við Ísafjarðardjúp, Steinshús, kl. 20-22
Á fundunum mun verkefnisstjórn kynna tillögudrögin og sitja fyrir svörum að kynningu lokinni. Boðið verður upp á kaffiveitingar (léttan hádegisverð á fundinum á Akureyri). Fundirnir eru öllum opnir og ekki er þörf á að skrá sig.

Á vef um rammaáætlun má finna upplýsingar um allt sem við henni kemur, meðal annars skilgreiningu á rammaáætlun og lög sem um hana gilda.

Vatn og vinna á alþjóðlegum Degi vatnsins

Í dag, 22. mars, er alþjóðlegur Dagur vatnsins. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert til að minna okkur á að gott aðgengi að þessari mikilvægu auðlind er ekki sjálfgefið og til að kynna ýmis baráttumál tengd vatni svo fólk geti látið þau sig varða.

UN Water samtökin standa fyrir þessum árlega alþjóðlega Degi vatnsins og þema ársins 2016 er vatn og vinna. Milljónir manna vinna störf sem beint eða óbeint tengjast vatni og að koma því til skila til neytandans á öruggan hátt. Svo má segja að langflest störf séu bókstaflega háð vatni, þar sem aðgengi að hreinu vatni og fráveitu gjörbreytir aðstæðum á vinnustöðum og lífsgæðum vinnandi fólks á allan hátt.

Veitur ohf, aðildarfélagi í Samorku, birtir á heimasíðu sinni umfjöllun um vatn og dýrmæt vatnsból Íslendinga.

Á heimasíðu UN Water er fjallað ítarlega um daginn og ýmis verkefni honum tengd. Þar má finna fræðsluefni um vatn og fólk er hvatt til að tjá sig á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #WorldWaterDay. Einnig má sjá skemmtilegt video um þema ársins í ár á YouTube.

Landsnet býður til vorfundar

Landsnet býður til vorfundar á Hilton Reykjavík Nordica þriðjudaginn 5. apríl kl. 9-11. Fundurinn er öllum opinn en óskað er skráningar.

Dagskráin er eftirfarandi:

Ávarp – Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar – og viðskiptaráðherra.
Stöðugra umhverfi og styrkari stoðir – Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Landsnets.
Knýjandi þarfir samtímans í takt við þróun til framtíðar – Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Íslands þúsund ár: Náttúruvernd á tímum loftslagsbreytinga – Guðni Elísson, prófessor.
Forsendur tækifæra og sægrænnar uppbyggingar í sjávarútvegi – Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Fyrirspurnir og umræður

Áhugaverð erindi á Vísindadegi OR

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög halda árlegan Vísindadag þar sem kynnt verða áhugaverð rannsóknarverkefni sem unnin eru af starfsfólki fyrirtækjanna eða samstarfsaðilum.
Erindin snúast meðal annars um:
• loftslagsmál og heilsu
• kolefnisspor og rafbíla
• bætta auðlindanýtingu
• vatns- og fráveitu
• framtíðarsýn hitaveitu
• heildarsýn á nýtingu háhita

Vísindadagur OR verður haldinn í Ráðstefnusal OR að Bæjarhálsi 1.

Dagskrá hefst kl. 8:30 og stendur til kl. 16:00. Vísindadagurinn er öllum opinn en skráningar er óskað. Boðið verður upp á léttan morgunverð kl. 8:10 og hádegisverð.

Dagskrá Vísindadagsins 2016 (.pdf).

Óskað eftir tilnefningum til Kuðungsins

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári, er þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2015.

Kuðungurinn er viðurkenning á framlagi fyrirtækja og stofnana til umhverfsmála sem veitt er árlega. Árið 2004 hlaut Orkuveita Reykjavíkur umhverfisviðurkenningu Kuðungsins.

Tilnefningar skulu berast umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eigi síðar en 23. mars, nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu ráðuneytisins.

 

 

Ávinningur Íslendinga af orku- og veitufyrirtækjum gríðarlegur

Framlag orku- og veitufyrirtækja til íslensks samfélags, hvort sem um er að ræða fjárhagslegan ávinning eða minni losun gróðurhúsalofttegunda, er umtalsvert. Bjarni Bjarnason formaður Samorku fór yfir ávinning af orku- og veitustarfsemi á ársfundi samtakanna 2016.

Án endurnýjanlegrar orku væri CO2 losun Íslendinga töluvert meiri. Heildarlosun Íslands í dag er um 4,6 milljón tonn ár hvert og hefur verið á svipuðu róli allt frá árinu 1990. Ef hitaveitu nyti ekki við og við þyrftum að nota olíu til að hita húsin okkar, þá væri losunin tæp sex milljón tonn á ári. Ef rafmagn væri framleitt með öðrum hætti en með endurnýjanlegri orku, þá væri losunin um átta milljón tonn. Þar er stóriðja undanskilin.

Fjárhagslegur ávinningur fyrir heimilin í landinu er einnig umtalsverður. Mánaðarlegur orku- og veitureikningur fjölskyldu sem býr í Osló er meira en tvöfalt hærri en fjölskyldu í Reykjavík, miðað við algenga notkun í báðum borgum, og tæplega þrefalt hærri hjá fjölskyldu í Kaupmannahöfn.

Bjarni talaði einnig um skipulag og áherslur Samorku, en eftir stefnumótun á árinu 2015 var ákveðið að leggja meiri áherslu á ákveðna þætti í starfseminni, líkt og kynningarmál og almenna upplýsingagjöf til samfélagsins.  Þá fór hann yfir samsetningu fyrirtækjanna sem standa að Samorku og kynja- og aldursskiptingu starfsmanna innan þeirra, en Bjarni lagði mikla áherslu á að fjölga konum innan orkugeirans.

Glærur frá ávarpi Bjarna má sjá hér.