Rafmagn – einn mikilvægasti þáttur daglegs lífs

Morgunblaðsgrein Eiríks Hjálmarssonar, formanns kynningarhóps Samorku:

Rafmagnið er á meðal mikilvægustu þátta daglegs lífs. Við á norðlægum slóðum kunnum hvað best að meta það á dimmum og köldum vetrum. Í dag, 23. janúar, er á Norðurlöndum og raunar víðar í Evrópu haldið upp á árlegan rafmagnsdag þegar sjónum er beint að því sem rafmagnið, þessi ósýnilega nauðsynjavara, hefur gert okkur mögulegt.

Við upphaf 20. aldar tóku húsverkin hjá hverri fjölskyldu um 54 klukkutíma á viku. Nærri allur vökutími fólks fór í að elda, þrífa og kynda og þetta er náttúrlega fyrir utan vinnutíma fólks. Undir lok aldarinnar tóku þessi störf 15 klukkutíma á viku, þökk sé heimilistækjunum öllum, sem knúin eru rafmagni. Rafmagnið hefur þannig fært okkur einfaldara, öruggara og ylríkara líf þar sem ljóss nýtur á dimmustu vetrardögum.

Það sem meira máli skiptir, þá hefur rafmagnið fært okkur betri heilsu og meira langlífi. Það þarf ekki annað en að líta til þeirra rafknúnu lækningatækja, sem bjargað hafa mörgu mannslífinu; öndunartækja, hjartastuðtækja og fjölbreyttra mælitækja sem gera læknum og hjúkrunarfólki starfið léttara og skilvirkara. Við sjálf getum líka fylgst betur með eigin heilsu með hjálp rafknúinna blóðþrýstingsmæla og hjartsláttarteljara.

Norðurlandabúar hafa notið rafmagns frá því um 1870 og Íslendingar frá því við upphaf 20. aldar. Í fyrstunni lýsti það upp vinnustaði, heimili og götur en nú knýr það upplýsingakerfin okkar, iðnaðinn, heimilistækin og í auknum mæli farartækin. Samfélag dagsins reiðir sig algjörlega á rafmagn og ekki bara til að létta störfin heldur ekki síður til afþreyingar og samskipta.

Orkufyrirtækin á Norðurlöndum leika lykilhlutverk í efnahag hvers lands. Hvert ár er milljörðum varið til fjárfestinga í framleiðslu rafmagns, flutningsvirki og dreifikerfin. Það í sjálfu sér skapar störf auk þess að gera aðgang fólks að rafmagni á viðráðanlegu verði greiðari.

Í síauknum mæli er rafmagnið sem framleitt er á Norðurlöndum grænt og frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Nú þegar teljast 2/3 hlutar raforkuframleiðslunnar á Norðurlöndum endurnýjanlegir og 88% er hlutfall kolefnishlutlausrar framleiðslu. Á Íslandi er þetta 100%. Þarna eru Norðurlönd í fararbroddi.

 

Mikil fjárfesting í nýsköpun í orkutengdum iðnaði

Áhugaverðar upplýsingar koma fram á vefnum The Nordic Web, sem sérhæfir sig í umfjöllun um nýsköpunarfyrirtæki á Norðurlöndum. Þar kemur fram að mikil aukning var í fjárfestingu í þessum flokki hérlendis árið 2015 og nam hún alls um 194 milljónum Bandaríkjadala, eða ríflega 25 milljörðum króna. Ísland er þar á svipuðum slóðum og Finnland (sem er með 198 milljónir dala) en talsvert langt á undan Noregi sem var með 85 milljónir USD. Svíþjóð trónir á toppnum með 1,1 milljarð dala og Danmörk fylgir á eftir með 275 milljónir.

Orkutengdur iðnaður í lykilhlutverki
Þrjár fjárfestingar skipta sköpum varðandi þessa miklu fjárfestingu í nýsköpun hér á landi og þar af eru þær tvær stærstu i orkutengdum iðnaði. Þetta eru Verne Global með 98 milljón dala fjárfestingu og Carbon Recycling International með 46 milljón dali, auk síðan CCP með 30 milljón dali. Mikil tækifæri virðast því liggja í nýsköpun í orkutengdum iðnaði hérlendis.

Metár í heitavatnsnokun

Árið 2015 var metár í vatnsnotkun hjá hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarnotkunin jókst um 10% frá árinu áður og er aukningin milli ára sú mesta sem hefur sést frá aldamótum. Vatnsnoktunin árið 2015 var tæplega 83 milljónir rúmmetra.

Guðfinnur og Lovísa ráðin til Samorku

Guðfinnur Þór Newman og Lovísa Árnadóttir hafa verið ráðin í ný störf hjá Samorku.

Guðfinnur var ráðinn í nýtt starf sérfræðings í greiningu hjá Samorku. Guðfinnur, sem er viðskiptafræðingur að mennt og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun, hefur áður m.a. starfað hjá Bandalagi háskólamanna, á skrifstofu borgarhagfræðings hjá Reykjavíkurborg og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Guðfinnur hóf störf hjá Samorku í desember.

Lovísa var ráðin í nýtt starf upplýsingafulltrúa Samorku. Hún er með B.A. gráðu í bókmenntafræði og M.A. gráðu í blaða- og fréttamennsku. Lovísa hefur áður m.a. starfað sem markaðsráðgjafi hjá Birtingahúsinu og hjá RÚV ohf. sem fréttamaður, dagskrárgerðarmaður, íþróttafréttamaður o.fl. Lovísa hóf störf hjá Samorku í janúar.

Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda

Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust.

Sjá nánar á vef Landsnets.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.