29. júní 2016 Styrkir til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla Orkusjóður auglýsir styrki til uppbyggingar á innviðum fyrir rafbíla á vef sínum. Umsóknarfrestur er til 1. október 2016. Sjá nánar á vef Orkusjóðs.
8. júní 2016 Hátt hlutfall útblásturs í Evrópu vegna raforku- og varmaframleiðslu Ísland er með lægsta hlutfall útblásturs gróðurhúsalofttegunda (CO2) vegna bruna jarðefnaeldsneytis við raforku- og varmaframleiðslu í Evrópu, eða 0%. Eistland stendur verst af Evrópulöndunum, en þar er tæplega 80% af öllum útblæstri tilkominn vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Alþjóðabankanum (World Bank). Í fjölmörgum löndum eru yfir 50% af heildarútblæstri vegna raforku- og varmaframleiðslu, meðal annars í Finnlandi og Póllandi, og verður verðugt verkefni að minnka það hlutfall verulega. Í Danmörku er hlutfallið 49%. Mikill munur er á þeim löndum sem lægsta hlutfallið hafa. Ísland og Lúxemborg skera sig úr, með 0% og 8% útblásturs vegna raforku- og varmaframleiðslu. Þar næst kemur Frakkland með 17%, Svíþjóð hefur hefur fjórða lægsta hlutfallið, eða 25% og í Belgíu er hlutfallið 27%. Á Íslandi er notað jarðefnaeldsneyti við raforku- og varmaframleiðslu í undantekningartilfellum, en magnið er það lítið að það mælist ekki í úttekt Alþjóðabankans.
7. júní 2016 Erlendir ferðamenn jákvæðir í garð endurnýjanlegrar orkuvinnslu á Íslandi 75% ferðamanna segja vinnslu endurnýjanlegrar orku hafa haft jákvæð áhrif á upplifun sína af íslenskri náttúru og 93% segjast hafa tekið eftir orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum í heimsókn sinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Gallup vann fyrir Landsvirkjun.
2. júní 2016 Ályktað um raforkumarkaðinn án skoðunar á tölulegum gögnum Skýrsla Lars Christensen um íslenska orkumarkaðinn var til umfjöllunar á fundi Samtaka iðnaðarins í dag. Í skýrslunni er bryddað uppá umræðu um ýmis áhugaverð atriði um íslenskan orkumarkað og mikilvægi orkugeirans fyrir íslenskt efnahagslíf tíundað. Samorka fagnar slíkri umræðu, sem er bæði nauðsynleg og þörf í tengslum við síbreytilegan og kvikan orkumarkað, en samtökin vilja gjarnan vekja athygli á nokkrum atriðum varðandi skýrsluna. Fræðileg nálgun Í skýrslunni fjallar höfundur á fræðilegan hátt um möguleikann á að Landsvirkjun geti beitt sterkri stöðu sinni á markaði til að hafa áhrif til hækkunar á raforkuverðum hérlendis, umfram eðlilega þróun verðlags á markaði. Með sama hætti er á fræðilegan hátt velt vöngum yfir mögulegum kostnaðaráhrifum fyrir flutning raforku ef Landsnet tryggir ekki með nægilega skýrum hætti kostnaðaraðhald í sínum rekstri. Þó kom fram að Landsnet er, líkt og önnur slík flutningsfyrirtæki í Evrópu, undir ströngu eftirliti Orkustofnunar sem setur fyrirtækinu tekjumörk og skilgreinir hagræðingarkröfu. Ályktanir ekki studdar tölulegum gögnum Út frá þessum fræðilegu vangaveltum eru síðan settar fram hugmyndir í formi eins konar ályktana. En þessar fræðilegu vangaveltur eru ekki studdar neinum gögnum í skýrslunni. Þannig er einfalt að nálgast evrópskan samanburð um verð á raforku, a.m.k. til heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, hjá t.d. evrópsku hagstofunni Eurostat. Hið sama má segja um kostnað við raforkuflutning, t.d. hjá Evrópusamtökum flutningsfyrirtækja, ENTSO-E. Hvorugt er gert í skýrslunni. Raforkukostnaður lægstur hér, flutningskostnaður vel undir evrópsku meðaltali Samorka hefur nýlega vakið athygli á nýjum tölum þessara stofnana sem sýna að raforkukostnaður íslenskra heimila er sá lægsti í Vestur-Evrópu, og raforkan sjálf næst ódýrust í allri álfunni. Svipaða sögu má segja um lítil og meðalstór fyrirtæki. Upplýsingar um verð í langtímasamningum til stóriðju eru ekki aðgengilegar með sambærilegum hætti í evrópskum samanburði, en samanburður á kostnaði raforkuflutnings sýnir að þar er Ísland langt undir meðaltalskostnaði í Evrópu. Að mati Samorku hefði verið við hæfi að greining hagfræðingsins á íslenskum raforkumarkaði styddist við einhver slík gögn. Verðin eru mjög samkeppnishæf hérlendis, skv. þessum opinberu evrópsku samanburðartölum, þrátt fyrir að hér hafi eftirspurnin um talsverða hríð verið umfram framboð og allar horfur á að svo verði hér áfram, líkt og fjallað er um í nýlegri skýrslu iðnaðarráðherra um raforkumál. Þá gerir skýrsla Christensens enga tilraun að meta hvort og þá hversu mikið raforkuverð hérlendis séu umfram kostnaðarverð og ekkert er fjallað um raforkuöryggi sem er stærsta viðfangsefni íslensks raforkumarkaðar og raunar eitt stærsta viðfangsefni stjórnvalda víða í Evrópu. Ýmislegt fleira mætti tína hér til, en að mati Samorku er afar langsótt að draga miklar ályktanir um íslenskan raforkumarkað út frá slíkri nálgun, sem ekki styðst við nein töluleg gögn um markaðinn hérlendis.
1. júní 2016 Flutningsgjald raforku á Íslandi til stórnotenda undir meðaltali Flutningsgjald á raforku til stórnotenda á Íslandi er undir meðaltali í Evrópu, eða rúmar fimm evrur á megavattstund (MWst). Meðaltalið er rúmlega sjö evrur á megavattstund (MWst). Hæstu flutningsgjöldin eru á Kýpur, eða rúmar 16 evrur. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Evrópusamtaka flutningsfyrirtækja, ENTSOE-E. Að mati Samorku er þetta vel ásættanleg staða, sérstaklega í ljósi þess að landið er strjálbýlt og línuleiðir víða krefjandi. Eftirspurnin eftir raforku er meiri en framboðið hérlendis. Ísland er langt undir meðaltali þegar skoðað er hlutfall kerfisþjónustu af flutningsgjaldinu. Hér á landi eru hlutfallið tæplega 5% en meðaltalið í öllum samanburðarhópnum er rúmlega 30%. Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem innt er af hendi til að tryggja gæði raforku og öruggan rekstur flutnings- og dreifikerfis.
26. maí 2016 Þrengt að orkuöryggi úr öllum áttum Orkuöryggi var lykilhugtakið í ræðu Helga Jóhannessonar, formanns Samorku, við upphaf um 150 manna fagfundar samtakanna í Reykjavík í dag. Helgi vakti m.a. athygli á því að stöndug iðnfyrirtæki á Norðurlandi geti ekki stækkað starfsemi sína og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ekki skipt úr olíubræðslu í vistvæna raforku. Þá ræddi hann skerðingar í raforkuafhendingu, vaxandi eftirspurn eftir raforku en lítið framboð og sagði suma af hagkvæmustu virkjanakostunum hafna í verndarflokki rammaáætlunar. Helgi sagði óljóst hver ef nokkur bæri ábyrgð á að landsmenn fái ávallt nægt rafmagn til almennra heimilisnota, eða að þörfum atvinnulífsins væri sinnt: „Við upplifum mikla eftirspurn eftir raforku en lítið framboð sem enginn vaktar. Flutningskerfi í knýjandi uppbyggingarþörf sem erfitt er að fá heimildir til að mæta. Og ferli rammaáætlunar sem horfir ekki til hagkvæmnissjónarmiða og samfélagslegra áhrifa, eins og lögin kveða þó skýrt á um að þar beri að gera. Orkuöryggi er nauðsynleg grunnstoð hvers þjóðfélags. Hér á landi þrengir að því úr ýmsum áttum og við ræðum hugtakið orkuöryggi sjaldan eða aldrei eitt og sér á eigin forsendum. Því þarf að breyta“ sagði Helgi m.a.
17. maí 2016 Rafmagnið ódýrast á Íslandi Rafmagnsreikningur íslenskra heimila er sá langlægsti í Vestur-Evrópu, eða um 6.200 krónur á mánuði sé miðað við dæmigert heimili. Til samanburðar má nefna að sambærilegt danskt heimili greiðir 14.800 krónur á mánuði. Sé miðað við lönd innan EES greiða heimili í Búlgaríu og Ungverjalandi lægri reikning en á Íslandi og í Litháen er hann jafnhár. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat fyrir árið 2015 og miðast við heildarreikning, þ.e. raforku, skatta, flutning og dreifingu. Sé rafmagnreikningurinn sundurliðaður má sjá að skattar á raforkunotkun eru með lægsta móti hérlendis. Athygli vekur að í Danmörku, þar sem skattar eru hæstir á raforkunotkun, er oft um að ræða skatta á brennslu jarðefnaeldsneyta. Þeir eru svo nýttir til niðurgreiðslu á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hér á landi eru engar slíkar niðurgreiðslur til staðar, enda öll raforkuvinnsla byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Kostnaður við flutning og dreifingu raforku á Íslandi er nálægt meðaltalskostnaði í Evrópu, þrátt fyrir strjálbýli og krefjandi línuleiðir víða. Dæmigert íslenskt heimili borgar 3.100 krónur á mánuði fyrir flutning og dreifingu raforku á meðan sambærilegt evrópskt heimili greiðir til þess 2.600 krónur. Norðmenn búa nú við ódýrustu raforkuna, sem er breyting frá því sem verið hefur og skýrist meðal annars af gengi norsku krónunnar, sem veiktist töluvert árið 2015. Íslendingar borga næstminnst fyrir raforku.
13. maí 2016 Landsvirkjun semur við Norðurál – raforkuverðið aftengt álverði Landsvirkjun og Norðurál hafa náð samkomulagi um að endurnýja raforkusamning fyrirtækjanna fyrir 161 MW. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember 2019 og er tengdur við markaðsverð á NordPool raforkumarkaðnum. Kemur sú tenging í stað álverðstengingar í gildandi samningi. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
11. maí 2016 Landsvirkjun og Thorsil gera rafmagnssamning Landsvirkjun og Thorsil hafa skrifað undir samning um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík í Reykjanesbæ. Um er að ræða allt að 55 megavött af afli eða sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Afhending hefst árið 2018 þegar ráðgert er að gangsetja kísilverið. Orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Sem kunnugt er hefur fyrirtækið nú tvær virkjanir í byggingu, stækkun Búrfellsvirkjunar og jarðvarmavirkjun að Þeistareykjum. Meira á síðu Landsvirkjunar.
31. mars 2016 Faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli eftir röðun í nýtingarflokk Ákvörðun um að raða tilteknum orkukosti í nýtingarflokk rammaáætlunar þarf alls ekki að þýða að umrædd virkjun eigi eftir að rísa. Að lokinni röðun í nýtingarflokk taka við vandað, faglegt og lýðræðislegt stjórnsýsluferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, skipulagsferli og ferli leyfisveitinga, kjósi eitthvert orkufyrirtæki að þróa umræddan orkukost áfram. Út úr þeim ferlum getur hæglega komið sú niðurstaða að ekkert verði af umræddum framkvæmdum, eða að á upphaflegum hugmyndum verði gerðar verulegar breytingar og kveðið á um að grípa þurfi til ýmiss konar mótvægisaðgerða. Hið sama á við um röðun í verndarflokk rammaáætlunar. Sú röðun hefur í för með sér að hefja skuli undirbúning friðlýsingar gagnvart orkunýtingu á grundvelli laga um náttúruvernd eða á grundvelli þjóðminjalaga. Einnig þar er um að ræða vandað og lýðræðislegt stjórnsýsluferli. Hér má sjá skema sem Samorka hefur fengið verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið Eflu til að taka saman, þar sem lýst er myndrænt umræddum stjórnsýsluferlum við virkjun jarðhita, en þeir eru nánast hinir sömu við virkjun vatnsafls. Líkt og sjá má geta slík ferli staðið yfir í fjölda ára, í kjölfar ákvörðunar um að þróa áfram tiltekinn orkukost. Tillögu að drögum verkefnastjórnar má sjá á heimasíðu áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.