Sydkraft í Svíþjóð býður breiðbandið í haust

Sydkraft er ekki lengur orkufyrirtæki sem býður rafmagn, gas og hitaveitu. Með því að setja á stofn dótturfyrirtækið Sydkraft Bredband ætlar fyrirtækið að hasla sér völl fjarskiptamarkaðinum og bjóða internetáskrift með PLC tækni „Power Line Communication“ og það nú þegar í haust. Og fleiri fylgja fast á eftir. Stærsta rafmagnsveita Þýskalands, RWE AG hefur gefið út að þeir reikni með að 20 þúsund raforkunotendur þeirra muni verða tengdir við internetið fyrir árslok, Energie Baden Würtemberg AG gerir ráð fyrir 7500 viðskiptavinum í ár og MVV Energie AB reiknar með að byrja í Mannheim og markmiðið er að 30 þúsund verði tengdir þar á þremur árum. (MJG/heimild: Ingeniören/net 22.6.2001)

Norræn vatnsveituráðstefna í Gautaborg á næsta ári

Norræn vatnsveitusamtöku hafa með sér óformlegt samstarf. Fundað var hér á landi 1. júní sl. Samtökin hafa m.a. haft samstarf um tvær norrænar vatnsveituráðstefnur. Sú síðasta í Helsingör í Danmörku í fyrra. Félagar í Samorku tóku þar virkan þátt. Byrjað er að undirbúa ráðstefnu í Gautaborg á næsta ári. Meðal efnis þar verður viðbrögð við vá, tilskipanir EB og skipulag í vatnsveitugeiranum. Í framhaldi af ráðstefnunni verður „VA-messan“ í Gautaborg. Annað efni sem rætt var um á fundinum 1. júní sl. var ný tilskipun EB um verndun vatns. Þessi tilskipun var samþykkt í Brussel 22. des.2000 og verða löndin að hafa tekið hana upp 22. des. 2003. Í þessari tilskipun er sagt að hvert land þurfi að skipta landinu upp í vatnsstjórnar-svæði, skilgreina síðan vatnasvæðin og ástand þeirra. Einnig þarf að skrá verndarsvæði og neysluvatnssvæði, gera áætlun um verndaraðgerðir og vögtunaráætlun. Norsku samtökin NORVAR hafa unnið skýrslu þar sem reynt er að rýna í framtíðina fyrir vatnsveitugeirann og þá er horft til ársins 2010. Gert er ráð fyrir að þróun mál geti verið á fjóra vegu; að áhrif opinberra aðila haldist mikil í vatnsveitum, að vatnsveitur verði í einkaeigu, gerðar verði miklar umhverfiskröfur til veitna og að vatnsveitur verði í fjárhagssvelti þ.e.engin uppbygging eigi sér stað. Út frá þessum fjórum leiðum og samblandi af þeim er gerð áætlum um hvernig bregðast skuli við. Danska sambandið DVF hefur yfirfært þessa skýrslu yfir á danskar aðstæður. Öll norrænu vatnsveitusamtökin, nema þau íslensku eru sjálfstæð samtök sem hafa innan sinna vébanda vatnsveitur og fráveitur. DVF flutti í nýtt hús 1. maí sl. í Skanderborg á Jótlandi. Þau hafa keypt stórt hús sem nefnt er Vandhuset. Þar verða stöðugt sýningar af ýmsu tagi sem tengjast vatni. Dönsku samtökin verða 75 ára á þessu ári og sænsku samtökin verða 40 ára á næsta ári. Mikil starfsemi er á fráveitusviði og hafa m.a. sjö sinnum verið norræn þing um fráveituhreinsun, það síðasta í janúar sl. Þar mættu 245 manns. Á alþjóðavettvangi s.s. í EUREAU og IWA hafa norrænu fulltrúarnir með sér gott samstarf og hafa þannig meiri áhrif. Voru þátttakendur sammála um mikilvægi norræns samstarfs.

Nýr stöðvarstjóri í Blönduvirkjun

Rán Jónsdóttir, rafmagnsverkfræðingur, hefur verið ráðin stöðvarstjóri í Blöndustöð. Hún tekur við af Guðmundi Hagalín sem farinn er til starfa í Búrfelli. Rán hefur starfað um 6 ára skeið hjá Landsvirkjun, fyrst í kerfisáætlunardeild en hún er nú í markaðsdeild orkusviðs. Með ráðningu Ránar er brotið blað hjá Landsvirkjun því kona hefur ekki áður unnið við tæknistörf í aflstöðvum Landvirkjunar. Til hamingju Rán.

Orkubú Vestfjarða hf stofnað 1. júní 2001

Á Ísafirði var haldinn stofnfundur Orkubús Vestfjarða hf hinn 1.6.01 en það er annað hlutafélagið í orkuveiturekstri á Íslandi. Það var hátíðleg stund þegar lýst var yfir stofnuninni. Í ræðu stjórnarformanns Orkubús Vestfjarða lét hann í ljósi væntingar til að hlutafélagið yrði grunnurinn að landshlutaveitu Norðvestlendinga. Að hlutafélagið verði sóknarfæri Vesfirðinga í orkumálum í komandi breytingum í raforkugeiranum. Það er þó ljóst að verulegur hluti skýringarinnar á stofnun hlutafélagsins er kauptilboð ríkisins í hlut ákveðinna sveitarfélaga. Að neðan er mynd frá undirritun stofnssamnings Orkubús Vestfjarða hf

Frábær fagfundur á Ísafirði

Raforkulagafrumvarpið var kynnt á fagfundi Samorku á Ísafirði og um það var fjallað frá ýmsum hliðum. Í setningarræðu formanns stjórnar Samorku kom fram að þótt hagsmunir raforkufyrirtækja fari ekki alltaf saman verður unnið að sameiginlegum hagsmunamálum við frumvarpsgerðina innan Samorku. Á fundinn sem haldinn var í Tónlistarskólanum á Ísafirði mættu 112 manns. Alls voru flutt 24 erindi á fundinum sem skiptist í umfjöllun um raforkulagafrumvarpið og afleiðingar þess fyrri daginn og Tæknimál, Fjármál og stjórnsýslu síðari daginn. Kynnt var starfssemi ýmissa sprotafyrirtæka raforkufyrirtækjanna sem og þau viðskiptakerfi sem stærri raforkufyrirtækin hafa verið að þróa og aðlaga að sér. Hjálmar Árnason formaður iðnaðarnefndar Alþingis ávarpaði fundinn og fór yfir þau verkefni sem löggjafinn, sérstaklega iðnaðarnefnd, raforkufyrirtækin og aðrir hagsmunaaðilar eiga fyrir höndum við að koma saman raforkulagafrumvarpinu. Ennfremur taldi hann víst að iðnaðarnefnd muni vinna að málinu í sumar. Hann boðaði að fjölmargir yrðu kallaðar til og að iðnaðarnefnd standi fyrir seminar 19. september n.k. um raforkulagafrumvarpið. Fagfundur á Ísafirði var sérlega vel heppnaður fundur. Skipulag hans gekk upp að öllu leyti þótt stundum væri naumt skammtaður tíminn. Mesta nýjungin á fundinum var framsetning fundargagnanna. En Guðmundur Valsson hannaði fundargögnin svo hægt væri að fá yfirsýn yfir erindin áður en þau hefjist, hægt væri að skrifa glósur án þess að vera við borð, þau geymist í hillu eins og árbækur Samorku og tölvuglærur og skifleg erindi fylgi glósum sem geisladiskur þótt prentun væri í lágmarki. Þetta heppnaðist ágætlega og var gerður góður rómur að framsetningunni. Það setti mark sitt á fundinn að hvorki skrifstofustjóri né ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins mættu til að flytja erindi. Þess í stað tók Kristín Haraldsdóttir heldur lengri tíma í sína ágætu yfirferð yfir raforkulagafrumvarpið. En í pallborð í lok fundardags sat Jón Vilhjálmsson til að aðstoða Kristínu við að svara spurningum. Það erindi sem mest kom á óvart var án efa erindi sem Auðbjörg Friðgeirsdóttir framkvæmdastjóri innra eftirlits hjá Baugi hélt en hún hljóp í skarðið fyrir Jón Scheving Thorsteinsson framkvæmdastjóra þróunarsviðs Baugs. Hjá henni kom m.a. fram að stórir viðskiptavinir orkufyrirtækjanna sækjast eftir því að geta keypt bæði hita og rafmagn af sama aðila. Ennfremur að leggja þeir upp úr því að geta samið um sín orkumál við faglega hæfa aðila. Þá nefndi Auðbjörg hugtök sem tengjast verðbréfaviðskiptum s.s. stöðutöku en þá hváði salurinn. Eiríkur Bogason sleit fundinum. Hann sagðist margs vísari og ljóst að Samorku biði mikið starf við gerð reglugerða smíði sameiginlegra athugasemda við raforkulagafrumvarpið.

Vel heppnað samsetninganámskeið á Selfossi

Þátttakendur og leiðbeinendur, frá vinstri: Elías Örn Einarsson SET, Gísli Þór Guðmundsson Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Eyþór Björnsson Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Frímann Helgason Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Davíð Frank Jensson Orkuveitu Reykjavíkur, Gunnar Ísberg Hannesson Orkuveitu Reykjavíkur, Örn Geir Jensson leiðbeinandi, Kristján Ö. Jónsson leiðbeinandi, Ægir Jónsson Guðmundi Skúlasyni ehf., Hjálmar Rögnvaldsson Dagana 10. og 11. maí fór fram námskeið á vegum Iðntæknistofnunar og Samorku í frágangi samskeyta á hitaveiturörum. Fyrri dagurinn fór í bóklega kennslu en sá síðari var verklegur. Námskeiðið var haldið í SET á Selfossi og sóttu það þrettán manns víðsvegar að af landinu. Leiðbeinendur voru sem fyrr þeir Kristján Ö. Jónsson og Örn Geir Jensson frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Sænska hitaveitusambandið áfram sem sér samband

Á auka aðalfundi sænska hitaveitusambandsins 7. maí sl. var tillaga um að leggja niður sambandið og stofna nýtt með rafveitusambandinu felld. Til að leysa upp sambandið þurfti 75% atkvæða, en tillagan fékk 63,4 atkvæða en 36,6% voru á móti. Fyrir nokkru fóru rafveitusambandið og samtök raforkuframleiðenda í eina sæng og stofnuðu Svensk energi. Á síðustu mánuðum hefur stjórn hitaveitusambandsins verið í viðræðum um að koma inn líka og fundað vítt og breitt um landið með sínum félögum um málið. Boðað var til auka aðalfundar um málið þar sem tillagan um að leggja niður sambandið og ganga í hin nýju samtök var lögð fram en hún var eins og áður sagði felld. MJG

Raforkulagafrumvarp lagt fram á alþingi

Raforkulagafrumvarp kynnt á fundi RVFÍ Á aðalfundi Rafmagnsverkfræðideildar Verkfræðingafélags Íslands 2. maí sl. kynnti Kristín Haraldsdóttir lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu fundarmönnum frumvarp til raforkulaga. Jón Vilhjálmsson verkfræðingur sem starfað hefur við frumvarpsgerðinni til að aðstoða við svör spurninga. Í inngangi áréttaði Kristín það að frumvarpinu væri ætlað að skapa forsendur fyrir samkeppni. Það væri hins vegar annað verkefni að framkvæma einhverjar þær aðgerðir sem festa samkeppnina í sessi. Dreifiveitum gæti fækkað Í frumvarpinu kom fram að sama gjaldskrá raforkudreifingar skal gilda innan hvers dreifiveitusvæðis. Núverandi dreifiveitur halda réttindum sínum til dreifiveitusvæðis. En ráðherra ákveði dreifiveitusvæðin. Þó er ekki lokað fyrir það að ein dreifiveita stundi dreifingu á fleiri en einu svæði. Aðspurð taldi Kristín að heldur væri hallað að því í frumvarpinu að dreifiveitum fækki frekar en fjölgi. Orkustofnun mun þurfa að samþykkja gjaldskrár dreifingarfyrirtækja. Ennfremur eru í frumvarpinu sett mörk á arðsemi fyrirtækjanna. Aðspurð sagði Kristín að hagnaði dreifingarfyrirtækis umfram tvöfalda ávöxtun ríkisskuldabréfa myndi þurfa að skila viðskiptavinum við næstu gjaldskrárákvörðun. Nefnd er að störfum til að meta hver verðjöfnun raforkudreifingar hefur verið síðustu ár. Unnið er út frá því að heildarumfang verðjöfnunar verði svipað og verið hefur. Ekki er búið að ákveða hvort jöfnunin verður fjármögnuð með almennum sköttum eða orkuskatti. Fram kom að í drögum að endurskoðaðari tilskipum um innri raforkumarkað er þess getið að leysa megi “mjög litlar dreifiveitur” með minna en 100.000 viðskiptavini undan skyldu þess að aðgreina sölu og dreifingu. undir þetta heyra allar íslenskar dreifiveitur. Mikil stýring á flutningsfyrirtæki Í frumvarpinu eru settar fram miklar kröfur til flutningsfyrirtækisins sem einnig á að sjá um kerfisstjórn. M.a. má flutningsfyrirtækið ekki stunda neina aðra starfssemi en þá sem getið er um í frumvarpinu. Aðspurð taldi Kristín að fyrirtækinu verði óheimilt að flytja gögn um kerfi sitt og yrði jafnframt óheimilt að eiga raforkudreifingu. Hins vegar mega dreifingarfyrirtækin eiga flutningsmannvirki en verði skyldug til að leigja þau flutningsfyrirtækinu. Ennfremur mælir ekkert gegn því að flutningsfyrirtækið verði eignalaust, þ.e. eigi engin flutningsmannvirki heldur leigi þau af örðum. Slíkt er einvörðungu útfærsluatriði. Stofnuð verður kærunefnd til úrskurðar í ágreinismálum vegna eftirlits Löggildingarstofu og Orkustofnunar með flutnings- og dreifingarfyrirtækjunum. Raforkusala gefin frjáls í áföngum Miðað er við að 1.7.2002 geti viðskiptavinir með yfir 5 GWh orkukaup geti valið um raforkusala. 1.1.2004 eiga allir viðskiptavinir að geta valið af hverjum þeir kaupa raforku og 1.1.2005 fellur niður bæði heimild og skylda raforkudreifingaraðila að selja raforku. Orkusala skal framvegis gerð með skriflegum samningum. Þannig verður hægt að tryggja að kerfisstjórinn fái nægar upplýsingar til að meta hvaða álags megi vænta. Raforkuvinnsla opnuð fleirum Samkvæmt frumvarpinu flyst heimild til að veita virkjunarleyfi frá alþingi til ráðherra en ráðherra eru sett tæmandi talin skilyrði fyrir veitingu virkjunarleyfa. Þar skal m.a. tekið tillit til samanburðar á nýtingu sama landsvæðis til raforkuframleiðslu eða annarrar nýtingar. Annars hefur umfjöllun um virkjana og rannsóknaleyfi að mestu verið fellt út úr frumvarpinu en verður tekið með í endurskoðaðari auðlindalöggjöf. Í frumvarpinu eru ákvæði um að virkjunarleyfi verði veitt til 50 ára en með möguleika á framlengingu. Fram kom í svari Jóns Vilhjálmssonar við fyrirspurn að sá vandræðagangur sem núverandi skipulag raforkumála ollu hafi aukið vilja til skipulagsbreytinganna. Dæmi um vandræðaganginn taldi hann síðustu veitingar virkjanaleyfa fyrir nýja raforkuframleiðendur og það að minni rafveitur geti ekki keypt raforku beint af Landsvirkjun. Í niðurlagi erindisins áréttaði Kristín það að við reglugerðasmíð á grundvelli laganna myndu Samorka og aðrir hagsmunaaðilar verða kvaddir til. Aðrar spurningar og skoðanir fundarmanna Fram kom hjá einum fundarmanni að honum þætti kerfið sem kynnt var snyrtilegra en það sem er fyrir. En af hverju er skrefið ekki stigið til fulls og flutningur og dreifing sett í eitt fyrirtæki. Þannig má spara eftirlits- og stjórnunarkostnað. Aðspurð kvaðst Kristín ekki vita til þess að búið væri að ákveða hvernig meta eigi árangur af breytingunum. Fram kom óánægja með að ekki hafi verið leitað til erlendra ráðgjafa við útfærslu kerfisins. Viðbúið er að gerð verður hærri arðsemiskrafa til þess fjár sem bundið er í raforkuvirkjum en nú er og því hugsanlegt að raforkuverð hækki. Fram komu efasemdir hjá fundarmönnum um að ráðamenn yrðu viðbúnir þeirri niðurstöðu að raforkuverð hækki og arðsemi fyrirtækjanna líka. Guðmundur Valsson

Fjölsóttur fundur um skipulag raforkugeirans

Það voru starfsmenn í orkugeiranum og áhugasamir innan raða verkfræðinga og tæknifræðinga sem sóttu samlokufund VFÍ og TFÍ um breytingar á orkumarkaði með nýjum raforkulögum. Þetta var fyrsta opna kynningin á frumvarpinu sem beðið hefur verið með nokkurri óþreyju síðustu mánuði. Ásamt því að fara yfir helstu þætti sem snúa að orkumarkaðnum fór Bjarni yfir stöðu Landsvirkjunar í þessum breytingum. Bjarna sagði að taka þurfi fullt tillit til þess að stóriðjusamningar Landsvirkjunar hafa verið gerðir í núverandi skattlausa umhverfi. Ennfremur sagði Bjarni fundarmönnum að Landsvirkjun, sem hefði verið stofnað til að virkja fyrir stóriðju, væri bara dvergur innan um risa(fyrirtæki) sem keppast um að virkja fyrir orkufreka stóriðju. Landsvirkjun ætti því í öflugri erlendri samkeppni. Bjarni telur mikilvægt að mjög skýrt verði skilgreint á hvaða markaði raforkumarkaðarins verður samkeppni og hverjum ekki. Raforkumarkaðurinn utan stóriðju væri um 10 MW ár ári sem væri lítill vöxtur í markaði sem væri að nálgast 1000 MW í heild. Aðspurður taldi Bjarni sem síðast starfaði sem forstjóri Íslenska Járnblendifélagsins ólíklegt að umtalsverður hluti raforkusölu til stóriðju fari á markað. Í máli Bjarna kom einnig fram að hinn langi líftími virkjana mælti gegn því að hafa virkjunarleyfi tímabundin (50 ár) eins og miðað er við í frumvarpinu. Guðmundur Valsson

Borholunámskeið Samorku

Borholunámskeið Samorku var haldið 3. – 4. maí sl. Þátttakendur voru 13 talsins og leiðbeinendur voru Sverrir Þórhallsson og Árni Gunnarsson. Auk fyrirlestra og fræðslu um boranir, viðhald og endurvirkjun borhola var farið var í heimsóknir til Hitaveitu Seltjarnarness og til Orkuveitu Reykjavíkur að sjá dæluupptekt.