Frábær fagfundur á Ísafirði

Raforkulagafrumvarpið var kynnt á fagfundi Samorku á Ísafirði og um það var fjallað frá ýmsum hliðum. Í setningarræðu formanns stjórnar Samorku kom fram að þótt hagsmunir raforkufyrirtækja fari ekki alltaf saman verður unnið að sameiginlegum hagsmunamálum við frumvarpsgerðina innan Samorku. Á fundinn sem haldinn var í Tónlistarskólanum á Ísafirði mættu 112 manns. Alls voru flutt 24 erindi á fundinum sem skiptist í umfjöllun um raforkulagafrumvarpið og afleiðingar þess fyrri daginn og Tæknimál, Fjármál og stjórnsýslu síðari daginn. Kynnt var starfssemi ýmissa sprotafyrirtæka raforkufyrirtækjanna sem og þau viðskiptakerfi sem stærri raforkufyrirtækin hafa verið að þróa og aðlaga að sér. Hjálmar Árnason formaður iðnaðarnefndar Alþingis ávarpaði fundinn og fór yfir þau verkefni sem löggjafinn, sérstaklega iðnaðarnefnd, raforkufyrirtækin og aðrir hagsmunaaðilar eiga fyrir höndum við að koma saman raforkulagafrumvarpinu. Ennfremur taldi hann víst að iðnaðarnefnd muni vinna að málinu í sumar. Hann boðaði að fjölmargir yrðu kallaðar til og að iðnaðarnefnd standi fyrir seminar 19. september n.k. um raforkulagafrumvarpið. Fagfundur á Ísafirði var sérlega vel heppnaður fundur. Skipulag hans gekk upp að öllu leyti þótt stundum væri naumt skammtaður tíminn. Mesta nýjungin á fundinum var framsetning fundargagnanna. En Guðmundur Valsson hannaði fundargögnin svo hægt væri að fá yfirsýn yfir erindin áður en þau hefjist, hægt væri að skrifa glósur án þess að vera við borð, þau geymist í hillu eins og árbækur Samorku og tölvuglærur og skifleg erindi fylgi glósum sem geisladiskur þótt prentun væri í lágmarki. Þetta heppnaðist ágætlega og var gerður góður rómur að framsetningunni. Það setti mark sitt á fundinn að hvorki skrifstofustjóri né ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins mættu til að flytja erindi. Þess í stað tók Kristín Haraldsdóttir heldur lengri tíma í sína ágætu yfirferð yfir raforkulagafrumvarpið. En í pallborð í lok fundardags sat Jón Vilhjálmsson til að aðstoða Kristínu við að svara spurningum. Það erindi sem mest kom á óvart var án efa erindi sem Auðbjörg Friðgeirsdóttir framkvæmdastjóri innra eftirlits hjá Baugi hélt en hún hljóp í skarðið fyrir Jón Scheving Thorsteinsson framkvæmdastjóra þróunarsviðs Baugs. Hjá henni kom m.a. fram að stórir viðskiptavinir orkufyrirtækjanna sækjast eftir því að geta keypt bæði hita og rafmagn af sama aðila. Ennfremur að leggja þeir upp úr því að geta samið um sín orkumál við faglega hæfa aðila. Þá nefndi Auðbjörg hugtök sem tengjast verðbréfaviðskiptum s.s. stöðutöku en þá hváði salurinn. Eiríkur Bogason sleit fundinum. Hann sagðist margs vísari og ljóst að Samorku biði mikið starf við gerð reglugerða smíði sameiginlegra athugasemda við raforkulagafrumvarpið.