Viðurkenning fyrir framlag til umhverfismála

Viðurkenning fyrir framlag til umhverfismála Ísland hlaut viðurkenningu bandarísku umhverfissamtakanna Global Green USA fyrir stefnu landsins í orkumálum. Davíð Oddsson forsætisráðherra veitti verðlaununum viðtöku í New York 25. apríl s.l. Ísland er meðal fimm aðila sem hlutu viðurkenningu að þessu sinni. Í viðurkenningarskjali Íslands óska Mikhail Gorbachev og Global Green USA ríkisstjórn Íslands til hamingju með stefnu sína í orkumálum þar sem byggt er á endurnýjanlegum orkugjöfum. Ísland hafi umdir forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra lagt grunn að því að auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum og þar með tekið stórt skref til að hindra loftslagsbreytingar. Davíð sagði í viðtali við Mbl. að sér þætti vænt um þessa viðurkenningu, sem væri viðurkenning áratuga starfs Íslenslendinga í orkumálum og um leið viðurkenning á þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið. Íslensk orkufyrirtæki gleðjast að sjálfsögðu yfir viðurkenningu af þessu tagi. Uppbygginga hitaveitna sem nýta jarhita hefur verið einstök hér á landi og gefur okkur umtalsvert forskot á aðrar þjóðir hvað varðar nýtingu endurnýjanlegrar orku. Þá hefur virkjun fallvatna til raforkuframleiðslu til heimilis- og iðnaðarnota einnig algera sérstöðu og erum við nú með hæsta hlutfall á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda í heiminum. Um 70% orkunotkunar okkar er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hlutfall þetta hækkar í 90% ef ekki er tekið tillit til orkunotkunar í samgöngum og fiskveiðum. Nokkru umræða hefur verið um að auka verulega hlut endurnýjanlegrar orku og er ekki ólíklegt að við eigum eftir að sjá verulega aukningu á næstu árum. Um leið og Íslensk orkufyrirtæki fagna viðurkenningunni, sem vissulega er viðurkenninga á starfsemi þeirra í áratugi, munu þau heilshugar taka þátt í áframhaldandi nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Eiríkur Bogason

Jón og Jóhannes heiðursfélagar Jarðhitafélagins

Fyrsti aðalfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn 23. apríl sl. Formaður félagsins, Guðmundur Pálmason, gerði grein fyrir störfum félagsins á fyrsta starfsári þess. Þar kom fram að félagið hefur staðið fyrir tveimur ráðstefnum. Annarri um stöðu jarðhita í heiminum og hina um útrás jarðhitaþekkingar. Félagar eru nú 97 talsins og þar af 17 fyrirtæki og samtök. Fjárhagsstaða félagsins er góð. Tekjur umfram gjöld á síðasta ári voru um 300 þús.kr. Stjórn skipa nú Guðmundur Pálmason, formaður, Einar Tjörvi Elíasson, Ingvar Birgir Friðleifsson, María J. Gunnarsdóttir, Oddur Björnsson, Stefán Arnórsson og Valgarður Stefánsson. Einar, Oddur og Valgarður voru í kjöri nú og voru endurkjörnir til tveggja ára. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Gestur Gíslason, Gunnar Ingi Gunnarson og Benedikt Steingrímsson til vara. Jón Jónsson, jarðfræðingur og Jóhannes Zoëga fyrrv. hitaveitustjóri voru kosnir fyrstu heiðursfélagar Jarðhitafélagsins fyrir löng og farsæl störf að jarðhitamálum hér á landi. Félagar í JHFÍ eru sjálfkrafa félagar í IGA- alþjóða jarðhitasamtökunum og fá sent fréttablað þess fjóru sinnum á ári. Einar Gunnlaugsson situr í stjórn IGA og Ólafur Flóvenz er í kjöri. Félagar eru hvattir til að kjósa sem fyrst. Meðal helstu verkefni félagsins framundan eru skipulag á einni „session´“ á Orkuþingi í haust um heit lághitasvæði og nýtingu þeirra. Einnig er fyrirhugað að setja upp heimasíðu fyrir félagið og hefur heitið jardhitafelag.is verið tekið frá fyrir félagið. Stjórnin hefur ákveðið að stefna að alþjóða jarðhitaráðstefnu um fjölnýtingu jarðhita árið 2003.

Ný neysluvatnsreglugerð að verða tilbúin í drögum

Í árslok 1998 var sett EB tilskipun um neysluvatn sem átti að samræmast reglugerðum aðildarlandanna um síðustu áramót. Einhver seinkun hefur orðið á vinnu við reglugerðina en við erum þar ekki ein á báti því hin Norðurlöndin eru enn að vinna að sínum reglugerðum og eru þar á svipuðum slóðum og við. Hin nýja neysluvatnsreglugerð, sem er í smíðum hjá Hollustuvernd ríkisins, mun brátt verða tilbúin í drögum til umsagnar. Samorka hefur tekið þátt í samráðshópi við gerð reglugerðarinnar. Ákvæði reglugerðarinnar á að uppfylla fyrir 5.desember 2003. Skv. drögum sem fyrirliggja mun reglugerðin gilda um allar vatnsveitur en Heilbrigðiseftirliti verður ekki skylt að hafa eftirlit með einkavatnsveitum sem þjóna færri en 50 íbúum eða 20 heimilum eða sumarhúsum. Ef teknin eru saman þéttbýli sem hafa 50 íbúa eða fleiri eru þau 77 talsins og vatnsveitur á þeim stöðum þjóna um 94% landsmanna. En vatnsveitur með fleiri en 50 manns eru í raun mikið fleiri þar sem margar sveitavatnsveitur og sumarhúsaveitur hafa fleiri notendur en 50 talsins. Þetta ákvæði ætti því að tryggja stórum hluta þjóðarinnar eftirliti með gæðum vatnsins. Tvenns konar sýnataka verður. Annarsvegar reglubundið eftirlit og hinsvegar heildarúttektir á ýmsum efna- og eðlisfræðilegum þáttum. Fjöldi sýna fer eftir íbúafjölda. En skv. lauslegri samantekt fyrir þessar 77 vatnsveitur eru þetta 370 sýnatökur í reglubundnu eftirliti á ári og um 60 í heildarúttektum. Möguleiki er á að fækka þáttum sem á að mæla ef sýnt er fram á að þau finnast ekki þar. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru í óða önn að setja nýjar neysluvatnsreglugerðir í samræmi við tilskipunina og hafa sent þær út til umsagnar. Í þeim eins og okkar er gert ráð fyrir að upplýsa notendur um gæði vatnsins. Árlega skal skila skýrslu til yfirvalda um niðurstöður af sýnatöku á neysluvatninu sem á að koma þeim á framfæri við neytendur.

Hitaveita Hveragerðis til sölu

Á Fréttavef Suðurlands er sagt frá því að bæjarstjórn Hveragerðis hafi ákveðið að láta kanna með sölu á Hitaveitu Hveragerðis, sjá www.sudurland.net. Ákvörðun um þetta var tekin á fundi bæjarstjórnar nú nýverið. Aldís Hafsteinsdóttir forseti bæjarstjórnar sagði að það gilti það sama um hitaveituna eins og um mörg önnur fyrirtæki að það er flest til sölu fáist fyrir það rétt verð. Bæjarfélagið standi í umfangsmiklum framkvæmdum s.s. á fráveitunni, viðbyggingum vegna einsetningu grunnskóla, byggingu leikskóla og gatnagerð. Peningum bæjarbúa sé betur varið í framkvæmdir sem skila bæjarbúum betra bæjarfélagi strax heldur en að binda þá í fyrirtæki eins og hitaveitunni til lands tíma.

Hvatt til aukins samráðs

Í ræðu sinni á samráðsfundi Landsvirkjunar minntist ráðherra á samráðsvettvang sem nokkur orkufyrirtæki og stofnanir stóðu að fyrir nokkrum árum. Á þessum vettvangi voru rædd málefni orkugeirans í víðasta skilningi. Hvatti hún eindregið til þess að samstarfið yrði endurvakið. Samorka fagnar þessum hugmyndum, sem eru vel í anda þeirrar meginhugsunar sem lá að baki sjónarmiðum samtakanna við gerð nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum. Samorka hefur einnig lagt áherslu á samráð og samstarf í sem flestum málum og talið það vænlegustu leiðina til þess að eyða tortryggni og um leið auka skilvirkni stefnumótunar. Hugmyndin er að stofna hóp sem skipaður verði aðilum frá ráðuneyti, Orkustofnun, Samorku, orkufyrirtækjum, náttúruvernd, skipulagsstofnun o.fl. aðilum. Ætlunin er að hópurinn hittist reglulega og ræði þau málefni orkumála sem efst eru á baugi þá stundina.

OR sigurvegari á námstefnu

Námstefna rafiðnaðarmanna veitufyrirtækja var haldin á Hótel Örk í Hveragerði 29.-30. mars sl. Á námstefnunni voru kynnt vinnubrögð veitna, götulýsing, breytingar í skipulagi raforkugeirans ásamt efniskynningum. Á síðustu þremur námstefnum hefur verið keppt í fagvinnu rafiðnaðarmanna, loftlínuklifur 1999, tenging götuskáps 2000 og nú samtenging 240 mm2, 1 kV jarðstrengs. Keppt var í tveggja manna liðum þar sem velja mátti um hvaða verkfæri og efni menn notuðu. Það voru Johan Rönning og Reykjafell sem lögðu til tengiefni og verðlaun auk Ískrafts sem lagði til 3. verðlaun. Keppt var bæði í tíma og fagmennsku þar sem allir námstefnugestir dæmdu fagmennsku auk dómara Péturs Jónssonar verkstjóra í tengingum hjá OR sem er einn reyndasti tengingamaður landsins. Alls tóku 16 manns þátt í keppninni og úrslit voru eftirfarandi: 1. sæti Gestur Bjarnason og Magnús Gunnlaugsson OR með tímann 15:48 2. sæti Sævar Sigursteinsson Selfossveitur og Þorsteinn Þorsteinsson Bæjarveitur Vestmannaeyja á tímanum 19:22 3. sæti Heiðar Sverrisson Rafveitu Hafnarfjarðar og Birgir Guðnason Akranesveitu á tímanum 18:51 4. sæti Ómar Baldursson og Þorvaldur Þorvaldsson Selfossveitum á tímanum 17:52 5. sæti Kristján Einarsson og Gestur Kristinsson Orkubúi Vestfjarða með tímann 21:06 6. sæti Páll Valdimarsson og Bjarni Snorrason á tímanum 20:59 7. sæti Eiríkur Kristvinsson og Ragnar Bárðarson Norðuráli á tímanum 22:38 8. sæti Guðni Elíasson Rönning og Eiríkur Kristvinsson Norðuráli Ljóst var að smekkur manna á faglegum vinnubrögðum var mjög áþekkur en Ómar Baldursson og Þorvaldur Þorvaldsson frá Selfossveitum höfðu aðra nálgun á frágangi tengingarinnar og fengu í staðinn ekki verðlaunasæti þrátt fyrir góðan tíma. Helsti munurinn var að þeir halda loftbili milli fasanna þegar ytra krumpuslangan er herpt og telja með því sé tengingin sveigjanlegri og betur einangruð vegna loftbilsins. Á námstefnunni voru flutt áhugaverð erindi. Kristinn Jóhannsson frá Rönning fjallaði um nýjungar í götulýsingu m.a. um nýjan ljósgjafa s.k. Ceramic Metal Halide sem gefur kaldara ljós en natríum ljósgjafarnir en með miklu betri litarendurgjöf. Ottó Guðjónsson Reykjafelli fjallaði um umhverfisvænt tengiefni og Jóhann Bjarnason innkaupastjóri Rarik fjallaði um stöðlunarvinnu sem hefur verið í gangi hjá Rarik. Rönning, Reykjafell og Ískraft voru með kynningar á tengiefni. Undirritaður ræddi um fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfi raforkufyrirtækja. Ásbjörn Blöndal Ólason námstefnustjóri og veitustjóri Selfossveitna kynnti helstu grunnþætti og nýjungar við nýtingu vindorku. Garðar Lárusson tæknifræðingur á kynnti Línu.net og ræddi um hönnun rafveitukerfa. Starfsmenn Löggildingarstofu fóru yfir Slys og tjón árið 2000, helstu athugasemdir í skoðunum í kerfum raforkufyrirtækja, eftirlitskerfi með neysluveitum og nýjar áherslur í eftirliti neysluveitna í rekstri. Guðmundur Valsson

Drög að dagskrá komin fyrir Orkuþing 2001

Drög að dagskrá Orkuþings liggur nú fyrir, með fyrirvara um breytingar. Mikill fjöldi tillagna um erindi barst og verður að hluta til fundað í fjórum og jafnvel fimm sölum á Grand Hótel um ýmsar hliðar orkumála. Flutt verða um 120 erindi þessa þrjá daga. Smelltu á hana Jóku hér til hliðar til að fá nánari upplýsingar. Hún Jóka er tröllkona. Hún tilheyrir Gjótufólkinu sem voru frumbyggjar Íslands. Á myndinni er hún að baða sig í heitri laug. Með henni á myndinni er hverafugl af kyni hrafns. Myndin er máluð af Elínu G. Jóhannsdóttur myndlistarkonu, en hún hefur málað margar myndir af Gjótufólkinu.

Tvö hitaveitunámskeið og eitt vatnsveitunámskeið í byrjun maí

Námskeið Samorku í maí Í maí verða haldin tvö námskeið fyrir hitaveitumenn. 3.-4. maí verður haldið námskeið um endurvirkjun og viðhald borhola. Og 10. og 11. maí verður haldið hið árlega námskeið um samsetningu hitaveituröra í samvinnu við Iðntæknistofnun. 11. maí verður haldið plastsuðunámskeið fyrir vatnsveitur. hjá Reykjalundi í Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar um námskeiðin er hér til hægri á síðunni.

Vel viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun

Viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun Margar leiðir eru færar til þess að draga úr mengun vegna gróðurhúsalofttegunda, án þess að því fylgi óyfirstíganlegur kostnaður. Þetta kemur fram í niðurstöðu nýlegrar skýrslu milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar sem Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu sagði frá á hádegisfundi Landverndar 29.mars. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar IPCC hefur nú nýverið sent frá sér skýrslu um veðurfarsbreytingar af mannavöldum, afleiðingar þeirra og möguleg viðbrögð. Gert er ráð fyrir að hlýnun til næstu aldamóta geti orðið 1,4 til 5,8°C en líklegasta hlýnun er talin vera nálægt 2°C. Gert er ráð fyrir að sjávarborð hækki um 9 til 88 cm, að hafstraumar veikist á norðurhveli og ekki er reiknað með meiriháttar röskun á þeim. Einnig er gert ráð fyrir meiri úrkomu til pólanna og þurrki yfir meginlöndum. Margar leiðir eru færar til að bregðast við en engin ein leið leysir allan vanda. Ekki er reiknað með að kostnaður við að draga úr losun sé verulegur og margt af því sem hægt sé að grípa til sé einnig hægt að gera án kostnaðar, þ.e. nettó hagnaður yrði af aðgerðunum. Kostnaður af afganginum er áætlaður 2.410 kr á tonn CO2. Þrjár leiðir eru nefndar í kolefnishringrásinni; það er að vernda kolefndisforða í skógi og jarðvegi, að auka bindingu kolefnis í skógi og jarðvegi og að nota lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.