10. apríl 2001 Ný neysluvatnsreglugerð að verða tilbúin í drögum Í árslok 1998 var sett EB tilskipun um neysluvatn sem átti að samræmast reglugerðum aðildarlandanna um síðustu áramót. Einhver seinkun hefur orðið á vinnu við reglugerðina en við erum þar ekki ein á báti því hin Norðurlöndin eru enn að vinna að sínum reglugerðum og eru þar á svipuðum slóðum og við. Hin nýja neysluvatnsreglugerð, sem er í smíðum hjá Hollustuvernd ríkisins, mun brátt verða tilbúin í drögum til umsagnar. Samorka hefur tekið þátt í samráðshópi við gerð reglugerðarinnar. Ákvæði reglugerðarinnar á að uppfylla fyrir 5.desember 2003. Skv. drögum sem fyrirliggja mun reglugerðin gilda um allar vatnsveitur en Heilbrigðiseftirliti verður ekki skylt að hafa eftirlit með einkavatnsveitum sem þjóna færri en 50 íbúum eða 20 heimilum eða sumarhúsum. Ef teknin eru saman þéttbýli sem hafa 50 íbúa eða fleiri eru þau 77 talsins og vatnsveitur á þeim stöðum þjóna um 94% landsmanna. En vatnsveitur með fleiri en 50 manns eru í raun mikið fleiri þar sem margar sveitavatnsveitur og sumarhúsaveitur hafa fleiri notendur en 50 talsins. Þetta ákvæði ætti því að tryggja stórum hluta þjóðarinnar eftirliti með gæðum vatnsins. Tvenns konar sýnataka verður. Annarsvegar reglubundið eftirlit og hinsvegar heildarúttektir á ýmsum efna- og eðlisfræðilegum þáttum. Fjöldi sýna fer eftir íbúafjölda. En skv. lauslegri samantekt fyrir þessar 77 vatnsveitur eru þetta 370 sýnatökur í reglubundnu eftirliti á ári og um 60 í heildarúttektum. Möguleiki er á að fækka þáttum sem á að mæla ef sýnt er fram á að þau finnast ekki þar. Hinar Norðurlandaþjóðirnar eru í óða önn að setja nýjar neysluvatnsreglugerðir í samræmi við tilskipunina og hafa sent þær út til umsagnar. Í þeim eins og okkar er gert ráð fyrir að upplýsa notendur um gæði vatnsins. Árlega skal skila skýrslu til yfirvalda um niðurstöður af sýnatöku á neysluvatninu sem á að koma þeim á framfæri við neytendur.