29. mars 2001 Vel viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun Viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun Margar leiðir eru færar til þess að draga úr mengun vegna gróðurhúsalofttegunda, án þess að því fylgi óyfirstíganlegur kostnaður. Þetta kemur fram í niðurstöðu nýlegrar skýrslu milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar sem Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu sagði frá á hádegisfundi Landverndar 29.mars. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar IPCC hefur nú nýverið sent frá sér skýrslu um veðurfarsbreytingar af mannavöldum, afleiðingar þeirra og möguleg viðbrögð. Gert er ráð fyrir að hlýnun til næstu aldamóta geti orðið 1,4 til 5,8°C en líklegasta hlýnun er talin vera nálægt 2°C. Gert er ráð fyrir að sjávarborð hækki um 9 til 88 cm, að hafstraumar veikist á norðurhveli og ekki er reiknað með meiriháttar röskun á þeim. Einnig er gert ráð fyrir meiri úrkomu til pólanna og þurrki yfir meginlöndum. Margar leiðir eru færar til að bregðast við en engin ein leið leysir allan vanda. Ekki er reiknað með að kostnaður við að draga úr losun sé verulegur og margt af því sem hægt sé að grípa til sé einnig hægt að gera án kostnaðar, þ.e. nettó hagnaður yrði af aðgerðunum. Kostnaður af afganginum er áætlaður 2.410 kr á tonn CO2. Þrjár leiðir eru nefndar í kolefnishringrásinni; það er að vernda kolefndisforða í skógi og jarðvegi, að auka bindingu kolefnis í skógi og jarðvegi og að nota lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.