Jón og Jóhannes heiðursfélagar Jarðhitafélagins

Fyrsti aðalfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn 23. apríl sl. Formaður félagsins, Guðmundur Pálmason, gerði grein fyrir störfum félagsins á fyrsta starfsári þess. Þar kom fram að félagið hefur staðið fyrir tveimur ráðstefnum. Annarri um stöðu jarðhita í heiminum og hina um útrás jarðhitaþekkingar. Félagar eru nú 97 talsins og þar af 17 fyrirtæki og samtök. Fjárhagsstaða félagsins er góð. Tekjur umfram gjöld á síðasta ári voru um 300 þús.kr. Stjórn skipa nú Guðmundur Pálmason, formaður, Einar Tjörvi Elíasson, Ingvar Birgir Friðleifsson, María J. Gunnarsdóttir, Oddur Björnsson, Stefán Arnórsson og Valgarður Stefánsson. Einar, Oddur og Valgarður voru í kjöri nú og voru endurkjörnir til tveggja ára. Skoðunarmenn reikninga voru kosnir Gestur Gíslason, Gunnar Ingi Gunnarson og Benedikt Steingrímsson til vara. Jón Jónsson, jarðfræðingur og Jóhannes Zoëga fyrrv. hitaveitustjóri voru kosnir fyrstu heiðursfélagar Jarðhitafélagsins fyrir löng og farsæl störf að jarðhitamálum hér á landi. Félagar í JHFÍ eru sjálfkrafa félagar í IGA- alþjóða jarðhitasamtökunum og fá sent fréttablað þess fjóru sinnum á ári. Einar Gunnlaugsson situr í stjórn IGA og Ólafur Flóvenz er í kjöri. Félagar eru hvattir til að kjósa sem fyrst. Meðal helstu verkefni félagsins framundan eru skipulag á einni „session´“ á Orkuþingi í haust um heit lághitasvæði og nýtingu þeirra. Einnig er fyrirhugað að setja upp heimasíðu fyrir félagið og hefur heitið jardhitafelag.is verið tekið frá fyrir félagið. Stjórnin hefur ákveðið að stefna að alþjóða jarðhitaráðstefnu um fjölnýtingu jarðhita árið 2003.