8. júní 2001 Norræn vatnsveituráðstefna í Gautaborg á næsta ári Norræn vatnsveitusamtöku hafa með sér óformlegt samstarf. Fundað var hér á landi 1. júní sl. Samtökin hafa m.a. haft samstarf um tvær norrænar vatnsveituráðstefnur. Sú síðasta í Helsingör í Danmörku í fyrra. Félagar í Samorku tóku þar virkan þátt. Byrjað er að undirbúa ráðstefnu í Gautaborg á næsta ári. Meðal efnis þar verður viðbrögð við vá, tilskipanir EB og skipulag í vatnsveitugeiranum. Í framhaldi af ráðstefnunni verður „VA-messan“ í Gautaborg. Annað efni sem rætt var um á fundinum 1. júní sl. var ný tilskipun EB um verndun vatns. Þessi tilskipun var samþykkt í Brussel 22. des.2000 og verða löndin að hafa tekið hana upp 22. des. 2003. Í þessari tilskipun er sagt að hvert land þurfi að skipta landinu upp í vatnsstjórnar-svæði, skilgreina síðan vatnasvæðin og ástand þeirra. Einnig þarf að skrá verndarsvæði og neysluvatnssvæði, gera áætlun um verndaraðgerðir og vögtunaráætlun. Norsku samtökin NORVAR hafa unnið skýrslu þar sem reynt er að rýna í framtíðina fyrir vatnsveitugeirann og þá er horft til ársins 2010. Gert er ráð fyrir að þróun mál geti verið á fjóra vegu; að áhrif opinberra aðila haldist mikil í vatnsveitum, að vatnsveitur verði í einkaeigu, gerðar verði miklar umhverfiskröfur til veitna og að vatnsveitur verði í fjárhagssvelti þ.e.engin uppbygging eigi sér stað. Út frá þessum fjórum leiðum og samblandi af þeim er gerð áætlum um hvernig bregðast skuli við. Danska sambandið DVF hefur yfirfært þessa skýrslu yfir á danskar aðstæður. Öll norrænu vatnsveitusamtökin, nema þau íslensku eru sjálfstæð samtök sem hafa innan sinna vébanda vatnsveitur og fráveitur. DVF flutti í nýtt hús 1. maí sl. í Skanderborg á Jótlandi. Þau hafa keypt stórt hús sem nefnt er Vandhuset. Þar verða stöðugt sýningar af ýmsu tagi sem tengjast vatni. Dönsku samtökin verða 75 ára á þessu ári og sænsku samtökin verða 40 ára á næsta ári. Mikil starfsemi er á fráveitusviði og hafa m.a. sjö sinnum verið norræn þing um fráveituhreinsun, það síðasta í janúar sl. Þar mættu 245 manns. Á alþjóðavettvangi s.s. í EUREAU og IWA hafa norrænu fulltrúarnir með sér gott samstarf og hafa þannig meiri áhrif. Voru þátttakendur sammála um mikilvægi norræns samstarfs.