Haustfundur Jarðhitafélagsins 6. desember – Sérstaða jarðhitanýtingar á Íslandi

Jarðhitafélag Íslands heldur haustfund sinn þriðjudaginn 6. desember, í Orkugarði að Grensásvegi, og hefst fundurinn kl. 13:00. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Sérstaða jarðhitanýtingar á Íslandi, og verður m.a. fjallað um stofnkostnað jarðvarmavirkjana, boranir, rannsóknir, klasasamstarf og aðkomu Íslendinga að jarðhitaverkefnum erlendis. Sjá dagskrá fundarins á vef Jarðhitafélagsins.

Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
 

Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður
 
Nokkur umræða hefur verið um það undanfarið að leggja beri flutningslínur raforku í jörð. Mikil þróun hefur orðið í þeim efnum undanfarna áratugi hvað dreifikerfið varðar og nú er svo komið að við sjáum hvergi loftlínur til dreifingar á raforku í þéttbýli. Öll slík dreifikerfi hafa verið grafin í jörðu, hérlendis. Þá hafa loftlínur víðast hvar vikið fyrir jarðstrengjum í dreifikerfum á landsbyggðinni. Fyrir flutningsminni mannvirki er kostnaður strengja oftast nær sambærilegur við loftlínur, sé horft til síðustu tveggja áratuga eða svo. Orkufyrirtækin hafa nýtt sér þetta við uppbyggingu og endurnýjun kerfanna og valið jarðstrengi í stað loftlína. Þessi þróun mun halda áfram og hlutfall strengja enn vaxa í framtíðinni.

Aukin umhverfisáhrif
Hins vegar er kostnaður við flutningsmeiri jarðstrengi ennþá mikill. Á hærri flutningsspennum (220 kV) er kostnaður við jarðstrengi 5-7 faldur kostnaður við sambærilega loftlínu. Meginskýringin felst í tæknilegum mun á jarðstrengjum og loftlínum, mun sem vex með aukinni flutningsþörf og hærri spennu. Umhverfisáhrif jarðstrengja á lægri spennustigum eru til þess að gera lítil en aukast með hækkandi spennustigi. Sjónræn áhrif loftlína eru almennt meiri en mun auðveldara er að skila landi í sambærilegu ástandi eftir notkun þeirra en jarðstrengja. Sem dæmi má nefna hrauni þakin svæði, þar sem margra metra breiðir skurðir eru augljóslega meira og varanlegra inngrip í náttúruna en möstrin. Hvergi í heiminum hefur enda verið farið út á þá braut að leggja flutningskerfi raforku alfarið í jörð. Víða um land er hins vegar þörf á eflingu flutningskerfisins og ljóst að efling kerfisins hlýtur að vera forgangsatriði, umfram margfalt dýrari framkvæmdir við færslu á loftlínum í jörð.

Hærri raforkukostnaður
Almennt myndar flutningur raforku (sem Landsnet annast fyrir allt landið) nú rúm 10% af endanlegum raforkukostnaði neytenda. Dreifing myndar tæp 45%, en hvoru tveggja telst til sérleyfisstarfsemi sem lítur ströngum reglum og eftirliti Orkustofnunar varðandi tekjumörk, gjaldskrár og arðsemi (framleiðsla og sala á raforku eru hins vegar samkeppnissvið og mynda hvor um sig rúm 40% og tæp 5% af endanlegum raforkukostnaði). Ljóst er, að ef tekin yrði um það pólitísk ákvörðun að hefjast handa við að færa flutningslínur Landsnets í jörðu myndi það valda gríðarlegum kostnaðarauka fyrir fyrirtækið. Ef allt flutningskerfið yrði endurbyggt með jarðstrengjum yrði umframkostnaðurinn á bilinu 400-500 milljarðar króna. Afleiðingarnar af því yrðu augljóslega veruleg hækkun raforkukostnaðar um land allt og væntanlega miklar seinkanir á eflingu flutningskerfisins þar sem þess er helst þörf.

Hitaveitur spöruðu landsmönnum 2.420 milljarða – Óhagkvæmt að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn

Ef jarðvarma til húshitunar á Íslandi nyti ekki við er líklegt að olía væri nýtt í staðinn. Að mati Orkustofnunar nemur uppsafnaður sparnaður Íslendinga af því að nota jarðvarma í stað olíu á árunum 1970-2010 um 2.420 milljörðum kr. á verðlagi í júní 2010 og er þá miðað við 5% raunvexti. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um nýtingu vatns á Íslandi. Í skýrslunni er fjallað um vatnsveitur, hitaveitur, raforkuframleiðslu, fráveitur o.fl.

Kostnaður allt að 2,5 milljarðar við að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn
Fram kemur að Íslendingar nýta um tvöfalt meira af ferskvatni en flestar nágrannaþjóðir okkar, eða um 269 rúmmetra hver á ári á tímabilinu 2005-2007. Samkvæmt vatnatilskipun ESB ber aðildarríkjum að stefna að því að verðlagning vatns hvetji notendur til að nýta auðlindina á hagkvæman hátt, en greiðsla fyrir nýtingu í samræmi við magn skapar slíkan hvata. Hagfræðistofnun bendir á að þar sem kalt vatn er almennt ekki selt um rennslismæla til heimila hérlendis – heldur er gjaldtakan víðast hvar áætluð út frá fasteignamati – þá uppfyllum við ekki þessi ákvæði tilskipunarinnar. Stofnunin bendir hins vegar á að það mundi skv. lauslegu mati kosta allt að 2,5 milljarða króna að setja upp rennslismæla í öll íbúðarhús. „Vegna þess hve Ísland er auðugt af vatni er óvíst hvort ávinningur af skilvirkari nýtingu vatns sé kostnaðarins virði og hvort hagkvæmara sé fyrir Ísland að halda í núverandi fyrirkomulag þótt það samræmist ekki vatnatilskipuninni,“ segir í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Skýrslu Hagfræðistofnunar má nálgast hér á vef Umhverfisstofnunar.

Öflug nýsköpun í íslenskum orkuiðnaði

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, segir umtalsverða nýsköpun eiga sér stað í orkuiðnaði og á Íslandi sé mikil þörf fyrir vel menntaða sérfræðinga af ýmsu tagi. „Sem dæmi vil ég nefna að í orkuverum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi hafa verið framkvæmd fjölmörg flókin verk og tæknimál leyst, á máta sem aldrei hefur verið gert áður, hvergi í veröldinni." Þetta kom m.a. fram á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins (SA) um atvinnu- og efnahagsmál, þar sem kynnt var ný skýrsla SA, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Sjá nánar á vef SA

Námskeið fyrir hita-og vatnsveitur

Hér má skoða dagskrá námskeiðsins og fyrirlestraglærur:

Dagskrá,  Dælur;  Viðhaldskerfi;  Málmsuða;  Bilanaleit;  Viðhald;  Vatnsborðsmælingar;  Djúpvatnsdælur;  Lagnaskipulag.

Meðal gagna sem lögð voru frami á námskeiðinu má nefna heftið "Smíðamálmar" eftir Pétur Sigurðsson, sem hélt erindið um málmsuðu. Bókin er til sölu hjá höfundi og er hægt að panta hana með því að senda tölvupóst á : petur@vps.is

Eftirfarandi veitur og fyrirtæki lögðu til sérfræðinga til flutnings á erindum á námskeiðinu og kann Samorka þeim miklar þakkir:

Sjá einnig myndir frá námskeiðinu, neðar á síðu.

 

 

 

 

 

 

 

Orkunýting og búmennska

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Orkunýting og búmennska

Í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 28. október segir Steinunn Stefánsdóttir að umgengni Íslendinga við auðlindir hafi fram til þessa borið meiri svip af veiðimennsku en búskap, og á þar við umgengni um orkuauðlindir. Vandséð er hvernig aðstoðarritstjórinn kemst að þessari niðurstöðu. Eða þekkir Steinunn einhver dæmi um að gengið hafi verið of nærri íslenskum orkuauðlindum? Ef átt er við að einhverjar virkjanir hafi haft óæskileg áhrif á náttúruna þá verða vissulega ávallt uppi mismunandi sjónarmið í þeim efnum, en við Íslendingar erum þó Evrópumeistarar í verndun landsvæða og mikil áform eru uppi um að ganga enn lengra í þeim efnum.

Steinunn fer mikinn og talar meðal annars um rétt þeirra sem ófædd eru, en munu þau ekki einmitt njóta ávaxtanna af því að reistar hafi verið hér virkjanir og jafnvel þegar afskrifaðar, þótt þær skapi þjóðinni áfram verðmæti? Hún kallar það mýtu að með nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda hérlendis séum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum til umhverfismála á alþjóðavísu, þar sem fyrir vikið sé minni þörf á notkun mengandi orkugjafa annars staðar. Ástæðan sé sú að í alheimssamhengi sé framleiðanleg orka á Íslandi ekki svo mikil. Samkvæmt þessari röksemdafærslu getum við þá t.d. látið það eiga sig að sinna þróunaraðstoð, þar sem okkar framlag telur varla mikið slíku í alheimssamhengi. Formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna kom þó hingað um árið og hvatti Íslendinga til að halda áfram að nýta hér endurnýjanlegar orkuauðlindir, í þágu baráttunnar gegn áhrifum svonefndra gróðurhúsalofttegunda.

Orkan er ekki ál
Loks skal hér nefnt að í leiðaranum er kvartað undan tilvísunum í störfin við álframleiðsluna sem við taki að loknum virkjanaframkvæmdum. Nú er það vissulega svo að þrjú öflug álfyrirtæki eru lang stærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja. Sú staða segir hins vegar ekkert til um framhaldið og engin ástæða til að tengja virkjanir framtíðarinnar endilega við framleiðslu á áli.

Við Íslendingar búum við þá algeru sérstöðu að hér er svo gott sem öll raforka unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og sama gildir um húshitun. Við hljótum að geta sameinast um að vera stolt af þessari einstöku stöðu. Svo mikið er víst að margur kola- og olíubrennandi nágranninn lítur hingað öfundaraugum.

Um 600 afleidd tæknistörf í ráðgjafarfyrirtækjum

Orkuiðnaðurinn skapar samfélaginu ekki eingöngu tekjur vegna orkusölu heldur einnig vegna fjölda afleiddra starfa. Þannig eru um 600 afleidd störf í tæknilegum ráðgjafarfyrirtækjum að mati Sigurðar Arnalds, framkvæmdastjóra verkfræðistofunnar Mannvits. Þetta kemur fram í samantekt í blaðinu Orka & Atvinnulíf, fylgiriti Viðskiptablaðsins.

Í úttektinni segir Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar EFLU, að hagýting orkuauðlinda á Íslandi og samhliða uppbygging iðnaðar skapi kjölfestu í starfsemi fyrirtækisins. Góður helmingur starfsmanna þess tengist orku- og iðnaðarverkefnum beint, eða um 90 sérfræðingar. Sigurður Arnalds segir um þrjá fjórðu hluta starfsemi Mannvits helgaða orkugeiranum eða orkufrekum iðnaði, eða um 300 störf. Ennfremur kemur fram að vinna þessara fyrirtækja fyrir íslensk orkufyrirtæki og stóriðju hérlendis skapar grunn að sókn þeirra í verkefni erlendis, sem t.d. mynda um 10-15% af starfsemi Mannvits. Greinina er að finna í blaðinu Orka & Atvinnulíf sem nálgast má (áskrifendur þ.e.) á vef Viðskiptablaðsins.

Hellisheiðarvirkjun nú alls 303 megavött í rafafli

Tekinn hefur verið í notkun síðasti áfangi raforkuframleiðslu í Hellisheiðarvirkjun með formlegri ræsingu tveggja 45 megavatta (MW) aflvéla. Með þessari viðbót er Hellisheiðarvirkjun orðin næst aflmesta virkjun landsins, alls 303 MW rafafls. Auk þess eru framleidd þar 133 MW varmaafls, en fyrsti áfangi heitavatnsframleiðslu á Hellisheiði var tekinn í notkun fyrir tæpu ári. Gert er ráð fyrir tveimur síðari áföngum heitavatnsframleiðslu og verður ráðist í þá eftir því sem þörf krefur. Heildarafl fullbyggðrar virkjunar verður þá 303 MW rafafls og 400 MW varmaafls. Sjá nánar á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Eurelectric hvetja til áframhaldandi uppbyggingar vatnsaflsvirkjana

Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, fjalla um hlutverk og stöðu vatnsaflins í nýrri áfangaskýrslu. Fram kemur í skýrslunni að umræðan um mikilvægi aukins hlutfalls endurnýjanlegra orkugjafa snúist gjarnan um vind- eða sólarorku. Engu að síður sé vatnsaflið að baki 70% allrar raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum í Evrópu. Næst kemur vindorkan með 15%, lífmassi með 7%, sorp með 4%, lífrænt gas með 3% og loks sólarorka og jarðhiti með 1% hvor.

Eurelectric benda á að þegar hafi einungis um helmingur tæknilega nýtanlegs vatnsafls í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins verið virkjað, og einungis um þriðjungur í ýmsum öðrum Evrópuríkjum. Alls séu þannig sem nemur um 650 teravatt stundum af raforku á ári ennþá óvirkjuð í vatnsafli innan álfunnar. Eftirspurnin er mikil eftir aukinni orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og kostir vatnsaflsins eru margir, ekki síst í ljósi áreiðanleika þess og sveigjanleika, sem auðvelda frekari uppbyggingu á t.d. vind- og sólarorku sem eru mun háðari sveiflum í orkugetu. Þá eru  loftslagsáhrif vatnsaflsvirkjana hverfandi og því hvetja Eurelectric til áframhaldandi uppbyggingar á vatnsaflsvirkjunum í Evrópu.

Skýrsluna, og umfjöllun um hana, má nálgast hér á vef Eurelectric.