Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:
 

Flutningslínur í jörð – hærri raforkukostnaður
 
Nokkur umræða hefur verið um það undanfarið að leggja beri flutningslínur raforku í jörð. Mikil þróun hefur orðið í þeim efnum undanfarna áratugi hvað dreifikerfið varðar og nú er svo komið að við sjáum hvergi loftlínur til dreifingar á raforku í þéttbýli. Öll slík dreifikerfi hafa verið grafin í jörðu, hérlendis. Þá hafa loftlínur víðast hvar vikið fyrir jarðstrengjum í dreifikerfum á landsbyggðinni. Fyrir flutningsminni mannvirki er kostnaður strengja oftast nær sambærilegur við loftlínur, sé horft til síðustu tveggja áratuga eða svo. Orkufyrirtækin hafa nýtt sér þetta við uppbyggingu og endurnýjun kerfanna og valið jarðstrengi í stað loftlína. Þessi þróun mun halda áfram og hlutfall strengja enn vaxa í framtíðinni.

Aukin umhverfisáhrif
Hins vegar er kostnaður við flutningsmeiri jarðstrengi ennþá mikill. Á hærri flutningsspennum (220 kV) er kostnaður við jarðstrengi 5-7 faldur kostnaður við sambærilega loftlínu. Meginskýringin felst í tæknilegum mun á jarðstrengjum og loftlínum, mun sem vex með aukinni flutningsþörf og hærri spennu. Umhverfisáhrif jarðstrengja á lægri spennustigum eru til þess að gera lítil en aukast með hækkandi spennustigi. Sjónræn áhrif loftlína eru almennt meiri en mun auðveldara er að skila landi í sambærilegu ástandi eftir notkun þeirra en jarðstrengja. Sem dæmi má nefna hrauni þakin svæði, þar sem margra metra breiðir skurðir eru augljóslega meira og varanlegra inngrip í náttúruna en möstrin. Hvergi í heiminum hefur enda verið farið út á þá braut að leggja flutningskerfi raforku alfarið í jörð. Víða um land er hins vegar þörf á eflingu flutningskerfisins og ljóst að efling kerfisins hlýtur að vera forgangsatriði, umfram margfalt dýrari framkvæmdir við færslu á loftlínum í jörð.

Hærri raforkukostnaður
Almennt myndar flutningur raforku (sem Landsnet annast fyrir allt landið) nú rúm 10% af endanlegum raforkukostnaði neytenda. Dreifing myndar tæp 45%, en hvoru tveggja telst til sérleyfisstarfsemi sem lítur ströngum reglum og eftirliti Orkustofnunar varðandi tekjumörk, gjaldskrár og arðsemi (framleiðsla og sala á raforku eru hins vegar samkeppnissvið og mynda hvor um sig rúm 40% og tæp 5% af endanlegum raforkukostnaði). Ljóst er, að ef tekin yrði um það pólitísk ákvörðun að hefjast handa við að færa flutningslínur Landsnets í jörðu myndi það valda gríðarlegum kostnaðarauka fyrir fyrirtækið. Ef allt flutningskerfið yrði endurbyggt með jarðstrengjum yrði umframkostnaðurinn á bilinu 400-500 milljarðar króna. Afleiðingarnar af því yrðu augljóslega veruleg hækkun raforkukostnaðar um land allt og væntanlega miklar seinkanir á eflingu flutningskerfisins þar sem þess er helst þörf.