Eurelectric hvetja til áframhaldandi uppbyggingar vatnsaflsvirkjana

Eurelectric, Evrópusamtök rafiðnaðarins, fjalla um hlutverk og stöðu vatnsaflins í nýrri áfangaskýrslu. Fram kemur í skýrslunni að umræðan um mikilvægi aukins hlutfalls endurnýjanlegra orkugjafa snúist gjarnan um vind- eða sólarorku. Engu að síður sé vatnsaflið að baki 70% allrar raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum í Evrópu. Næst kemur vindorkan með 15%, lífmassi með 7%, sorp með 4%, lífrænt gas með 3% og loks sólarorka og jarðhiti með 1% hvor.

Eurelectric benda á að þegar hafi einungis um helmingur tæknilega nýtanlegs vatnsafls í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins verið virkjað, og einungis um þriðjungur í ýmsum öðrum Evrópuríkjum. Alls séu þannig sem nemur um 650 teravatt stundum af raforku á ári ennþá óvirkjuð í vatnsafli innan álfunnar. Eftirspurnin er mikil eftir aukinni orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og kostir vatnsaflsins eru margir, ekki síst í ljósi áreiðanleika þess og sveigjanleika, sem auðvelda frekari uppbyggingu á t.d. vind- og sólarorku sem eru mun háðari sveiflum í orkugetu. Þá eru  loftslagsáhrif vatnsaflsvirkjana hverfandi og því hvetja Eurelectric til áframhaldandi uppbyggingar á vatnsaflsvirkjunum í Evrópu.

Skýrsluna, og umfjöllun um hana, má nálgast hér á vef Eurelectric.