Nýr forstjóri Norðurorku

Ágúst Torfi Hauksson hefur tekið við starfi forstjóra Norðurorku af Franz Árnasyni, sem áfram mun þó starfa að sérstökum verkefnum hjá fyrirtækinu um skeið. Ágúst er 37 ára gamall vélaverkfræðingur og hefur m.a. stundað rannsóknir í varmafræðum við University of British Columbia og unnið hjá verkfræðistofu VGK m.a. við verkefni  tengd orkuvinnslu og nýtingu. Frá árinu 2005 var Ágúst framkvæmdastjóri hjá Brim hf. Sjá nánar á vefsíðu Norðurorku.

Umsögn Samorku um tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun

Í umsögn sinni um tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun ítrekar Samorka ánægju með að þetta ferli sé að þokast og senn dragi því úr óvissu í rekstrarumhverfi orkufyrirtækja. Samtökin benda á að mikil og um margt góð vinna hefur verið unnin í verkefnisstjórn um rammaáætlun, þótt samtökin hafi vissulega bent á ýmislegt sem þar hefði betur mátt fara. Því kemur það óvart að í tillögunni er í all nokkrum tilvikum vikið verulega frá röðun verkefnisstjórnar.

Sátt um vinnu verkefnisstjórnar
Stærð einstakra flokka og röðun í þá er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis. Að mati Samorku væri hins vegar vænlegast að styðjast við röðun verkefnisstjórnar, sú leið ætti að mati samtakanna að geta stuðlað að nokkuð víðtækri sátt um rammaáætlun, þótt sú mikla og ágæta vinna sem unnin var af verkefnisstjórn undanfarin ár sé auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni fremur en önnur mannanna verk.

Að hámarki um 700 MW sem mögulegt er að ráðstafa á næstu tveimur árum
Skv. tillögunni fara 25,6% áætlaðrar orkuvinnslugetu í nýtingarflokk, eða 11.900 GWh, sem samsvarar tæpum 1.500 MW í áætluðu uppsettu afli. Virkjanakostirnir í nýtingarflokki eru mjög mislangt komnir í undirbúningi og mati á umhverfisáhrifum og því breytilegt hvenær þeir geta komið til framkvæmda. Einnig er yfirleitt nauðsynlegt að nýta jarðhitasvæði í áföngum og óvissan um orkugetu þeirra ávallt mikil þar til búið er að rannsaka svæðin með borunum.

Víða í samfélaginu er rætt um mikil áform um uppbyggingu iðnaðaðar í náinni framtíð, verkefni sem samtals gætu þurft á allri þeirri orku að halda sem skv. tillögunum er ætluð í nýtingarflokk (að því gefnu auðvitað að samkomulag náist um orkuverð og fleira). Samorka vekur athygli á því að af þeim orkukostum sem standa að baki þessum tæplega 1.500 MW í nýtingarflokki, skv. tillögunni, eru nú að hámarki um 700 MW á því stigi að hægt væri að gera samninga um sölu á orkunni innan 2 ára (án mjög mikilla fyrirvara um orkugetu jarðhitasvæða), miðað við hugsanlega afhendingu innan 4-6 ára. Er þá horft til virkjana við neðri hluta Þjórsár, í Hverahlíð, til stækkaðrar Reykjanesvirkjunar, Þeistareykja (m.v. 90 MW að sinni a.m.k.) og Bjarnarflags, auk e.t.v. Eldvarpa og Sveifluháls, sem þó eru mun styttra komnar á undirbúningsstigi en hinar framantöldu hér. Nokkrir stórir og hagkvæmir virkjanakostir eru þarna settir í verndarflokk, m.a. kostir sem hafa þegar verið rannsakaðir nokkuð ítarlega, svo sem Bitra og Norðlingaölduveita. Einhverjir slíkir eru jafnframt settir þarna í biðflokk, svo sem Trölladyngja, Hólmsárvirkjun og Búlandsvirkjun.

Sjá nánar í umsögn Samorku.

 

 

 

 

 

Verndarflokkur stærstur – 23% orkugetu í nýtingarflokk

Miðað við áætlaða orkuvinnslugetu orkukosta sem fjallað er um í 2. áfanga rammaáætlunar gera drög að þingsályktun sem kynnt voru á dögunum ráð fyrir að orkuvinnslugeta sem nemur um 11.900 gígavatt stundum (GWh) á ári verði sett í nýtingarflokk, 11.000 GWh í biðflokk og 13.900 GWh í verndarflokk. Loks myndu um 15.100 GWh lenda utan flokkunar þar sem umræddir orkukostir eru á svæðum sem hlotið hafa friðlýsingu, en skv. lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun falla þeir kostir utan flokkunar þótt til skoðunar hafi verið allt ferlið við gerð rammaáætlunar. Því má segja að um 23% orkuvinnslugetunnar sem til umfjöllunar var í vinnu verkefnisstjórnar fari í nýtingarflokk, verði þetta niðurstaðan við afgreiðslu Alþingis.

Þess ber að geta að þar sem sumir orkukostir í vatnsafli útiloka aðra er heildarsumma áætlaðrar orkuvinnslugetu þó ekki samtala framangreindra (um 52.000 GWh) heldur um 47.300 GWh. Heildarraforkuvinnsla á Íslandi árið 2009 var um 16.900 GWh.

Drög að þingsályktun um rammaáætlun

Kynnt hafa verið drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Drögin fara nú í tólf vikna opið umsagnarferli áður en þingskjal verður lagt fram á Alþingi. Samorka hefur fagnað þeim áföngum sem orðið hafa í þessu ferli, þótt samtökin hafi bent á ákveðin atriði sem betur hefðu mátt fara í vinnu verkefnisstjórnar og í lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Samtökin hafa engu að síður talið að vinna verkefnisstjórnar ætti að geta orðið grundvöllur að sátt um málaflokkinn.

Athygli vekur nú að sumir virkjanakostir sem voru fremur ofarlega í röðun verkefnisstjórnar lenda í biðflokki, jafnvel í verndarflokki, í drögum að tillögu til þingsályktunar. Á þetta t.d. við um Austurengjar, Trölladyngju og Grændal. Ekki eru dæmi um hið gagnstæða, þ.e. að orkukostir sem voru neðarlega í röðun verkefnisstjórnar séu flokkaðir í nýtingarflokk í drögum að tillögu til þingsályktunar. Samtökin munu nú fjalla um drögin á sínum vettvangi.

 

Rammaáætlun: Skýrslu verkefnisstjórnar skilað

Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar um gerð 2. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma, hefur skilað skýrslu verkefnisstjórnar til iðnaðar- og umhverfisráðherra. Svanfríður mun ásamt með formönnum faghópa verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar og starfsfólki iðnaðar- og umhverfisráðuneyta vinna drög að þingsályktun um röðun orkukosta í nýtingar-, bið- og verndarflokka, sem lögð verður fram á Alþingi í haust. Nánari upplýsingar og skýrsluna sjálfa má m.a. nálgast hér á vef iðnaðarráðuneytis.

Fulltrúi Samorku í verkefnisstjórninni, Agnar Olsen verkfræðingur, setur í skýrslunni fram nokkrar ábendingar (kafli 9.3.5) almennt um rammaáætlun og um lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ábendingar Agnars fara hér á eftir:

Fulltrúi Samorku fagnar því að vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar er lokið með röðun virkjunarhugmynda.

Nýlega samþykkti Alþingi lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun en með þeim fær rammaáætlun lögformlega stöðu. Í 1. mgr. 3.gr. laganna segir : „Iðnaðarráðherra leggur í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.“ Nú tekur því við vinna undir forustu iðnaðarráðuneytisins að gerð þingsályktunartillögu um flokkun virkjunarhugmynda í verndar-, orkunýtingar- og biðflokk, sem væntanlega verður lögð fyrir Alþingi haustið 2011.

Rétt er að hnykkja á nokkrum atriðum sem æskilegt er að skoða betur í framhaldinu og snerta orkugeirann sérstaklega:

• Af 84 virkjunarhugmyndum voru 66 teknar til umfjöllunar af öllum faghópum en þar af eru 14 sem farið hafa í gegnum mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum, 5 vatnsaflsvirkjanir og 9 jarðvarmavirkjanir.

• Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna taka þau ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við 50 gr. laga um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Ekki er alveg ljóst hvaða virkjunarhugmyndir, sem eru til umfjöllunar í 2. áfanga rammaáætlunar (landsvæði), falla undir þetta ákvæði en gera má ráð fyrir að það geti náð yfir um þriðjung þess háhita sem hugsanlegt væri að nýta til raforkuvinnslu.

• Röðun virkjunarhugmynda með AHP greiningu þarf að vera gagnsærri. AHP greining faghóps um náttúru og menningarminjar byggist á; 1) mati á áhrifum orkunýtingar, 2) verðmæti svæðis í náttúru og menningarminjum, 3) sérstöku mikilvægi og 4) óvissu og áhættu sem faghópurinn taldi framkvæmdinni samfara. Faghópur um útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi beitir sömu aðferð. Það er einkum vægi tveggja síðastnefndu þáttanna sem þarf að skoða.

• Þegar meta á áhrif virkjunarhugmynda á ferðaþjónustu, útivist, landbúnað og hlunnindi er nauðsynlegt að horfa til reynslu af núverandi virkjunum. Fjölsóttasti ferðamannastaður landsins er t.d. tengdur virkjun og á annað hundrað þúsund manns heimsækir virkjanir árlega.

• Þar sem mótvægisaðgerðum er lýst fyrir einstaka virkjunarhugmyndir á að taka þær með í mati á áhrifum virkjunar. Slíkar aðgerðir eru veigamikill hluti undirbúnings og mats á umhverfisáhrifum. Þær eru einnig snar þáttur í rannsóknum, byggingu og rekstri virkjana og gerðar í samráði og samvinnu virkjunaraðila, sveitarfélaga og landeigenda, eins og dæmin sanna.

• Loks vekur það athygli að faghópar sem fjalla um náttúru og menningarminjar og útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi flokka tvö stór en lítt röskuð svæði sem tvo orkukosti, en áður höfðu þau verið skilgreind sem annars vegar 4 og hins vegar 7 orkukostir. Á sama tíma eru orkukostir m.a. í nágrenni við virkjanir áfram flokkaðir sérstaklega. Fulltrúi Samorku hefur frá upphafi gert athugasemdir við þessa nálgun.

Starfslok Oddnýjar Ögmundsdóttur

Oddný Ögmundsdóttir hefur látið af störfum á skrifstofu Samorku, eftir á þriðja áratug í starfi hjá samtökunum og annars forvera þeirra (SÍR), en Oddný verður 67 ára nú í júní. Samorka þakkar Oddnýju kærlega fyrir samstarfið öll þessi ár og óska samtökin henni gæfu og farsældar í framtíðinni.

Orkunýting og hagsmunir almennings

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Orkunýting og hagsmunir almennings

Umhverfisráðherra gagnrýndi á dögunum skrif undirritaðs um ýmis lagafrumvörp, í grein hér í Fréttablaðinu. Ekki er ætlunin að fjalla frekar um umrædd frumvörp hér. Hins vegar talar ráðherrann í nafni hagsmuna almennings og nefnir m.a.s. til sögunnar hugtakið sérhagsmuni, að því er virðist yfir málflutning Samorku fyrir hönd orkufyrirtækjanna. Vandséð er hvernig hagsmunir orkufyrirtækja landsmanna geta talist til sérhagsmuna, en það hugtak er jú gjarnan notað í samhengi þröngra hagsmuna afmarkaðs hóps og þá jafnvel á kostnað fjöldans eða til skerðingar á réttindum hans. En hugum aðeins að orkunýtingu og hagsmunum almennings, fer þetta ekki saman?

Leyfisveitingar stjórnvalda
Í fyrsta lagi má nálgast spurninguna út frá leyfisveitingaferlinu. Orkufyrirtæki virkja engar auðlindir án ýmissa leyfisveitinga frá hvoru tveggja ráðherra og viðkomandi sveitarstjórnum. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar – fulltrúar almennings – veita þannig virkjunarleyfi, framkvæmdaleyfi, breyta skipulagi o.s.frv. Varla fara þeir gegn hagsmunum almennings.

Fyrirtæki í almannaeigu
Í öðru lagi eru orkufyrirtækin flest í eigu ríkis eða sveitarfélaga og stjórnir þeirra því skipaðar af lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings, í ríkisstjórn eða viðkomandi sveitarstjórnum. Varla fara þessar stjórnir gegn hagsmunum almennings.

Vilji heimamanna
Í þriðja lagi er iðulega mjög mikill stuðningur meðal almennings og sveitarstjórna á tilteknum svæðum við nýjar virkjanir, sem oft eru um leið forsenda mikillar atvinnuuppbyggingar á umræddum svæðum. Um þetta eru þekkt dæmi í dag á fleiri en einum stað á landinu. Andstaða við framkvæmdirnar á samt auðvitað fullan rétt á sér, en slík barátta verður ekki sjálfkrafa flokkuð sem hagsmunir almennings.

Efnahagsáhrifin
Loks eru það svo efnahagsáhrifin. Á dögunum talaði forsætisráðherra um sex til sjö þúsund ársverk á næstu árum við uppbyggingu virkjana og tengdra fjárfestinga í iðnaði. Landsvirkjun kynnti nýlega framtíðarsýn þar sem arð- og skattgreiðslur fyrirtækisins til ríkissjóðs munu innan fimmtán ára nema 4-8% af landsframleiðslu. Allar slíkar tölur eru auðvitað háðar tilteknum forsendum en engum dylst að frekari uppbygging virkjana og tengds iðnaðar getur skilað gríðarlegum efnahagsávinningi fyrir íslenskt samfélag. Einhverjir munu þó eflaust harma einhverjar umræddra framkvæmda út frá sjónarhorni náttúruverndar, þótt útfærsla virkjana taki ávalt mið af slíkum sjónarmiðum. En því verður varla haldið fram að slík uppbygging, að fengnum öllum nauðsynlegum leyfum frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings, gangi gegn hagsmunum almennings.

Nýting orkuauðlindanna og hagsmunir almennings fara þannig afar vel saman.

6. Vorfundi Samorku lokið – erindin á vefinn eftir helgina

Sjötta Vorfundi Samorku á Akureyri er lokið og Samorka þakkar þátttakendum öllum, sýnendum, starfsfólki Hofs, Ferðaskrifstofu Akureyrar og öðrum þeim sem að fundinum komu kærlega fyrir þeirra þátt í afar vel heppnaðri dagskrá. Þátttakendur voru á þriðja hundrað en alls tóku um 350 manns þátt í dagskránni að mökum og sýnendum meðtöldum. Erindi fundarins eru birt hér á vef Samorku.

Opnun ljósaperuútboðs Samorku

Þriðjudaginn 19. apríl s.l. voru opnuð tilboð í sameiginleg innkaup dreifiveitna á ljósaperum. Alls bárust átta verðtilboð frá sex bjóðendum. Fyrst og fremst er hér um  að ræða götuljósaperur, en einnig aðrar perugerðir sem veiturnar nota í sínum rekstri , alls um 21700 stk. á ári í þrjú ár. Verðtilboð voru á bilinu 18,9 til 33,2 Mkr. Lægsta tilboð átti Jóhann Ólafsson & Co, umboðsaðili fyrir OSRAM perur.