Drög að þingsályktun um rammaáætlun

Kynnt hafa verið drög að tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Drögin fara nú í tólf vikna opið umsagnarferli áður en þingskjal verður lagt fram á Alþingi. Samorka hefur fagnað þeim áföngum sem orðið hafa í þessu ferli, þótt samtökin hafi bent á ákveðin atriði sem betur hefðu mátt fara í vinnu verkefnisstjórnar og í lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Samtökin hafa engu að síður talið að vinna verkefnisstjórnar ætti að geta orðið grundvöllur að sátt um málaflokkinn.

Athygli vekur nú að sumir virkjanakostir sem voru fremur ofarlega í röðun verkefnisstjórnar lenda í biðflokki, jafnvel í verndarflokki, í drögum að tillögu til þingsályktunar. Á þetta t.d. við um Austurengjar, Trölladyngju og Grændal. Ekki eru dæmi um hið gagnstæða, þ.e. að orkukostir sem voru neðarlega í röðun verkefnisstjórnar séu flokkaðir í nýtingarflokk í drögum að tillögu til þingsályktunar. Samtökin munu nú fjalla um drögin á sínum vettvangi.