Rammaáætlun: Skýrslu verkefnisstjórnar skilað

Svanfríður Jónasdóttir, formaður verkefnisstjórnar um gerð 2. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma, hefur skilað skýrslu verkefnisstjórnar til iðnaðar- og umhverfisráðherra. Svanfríður mun ásamt með formönnum faghópa verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar og starfsfólki iðnaðar- og umhverfisráðuneyta vinna drög að þingsályktun um röðun orkukosta í nýtingar-, bið- og verndarflokka, sem lögð verður fram á Alþingi í haust. Nánari upplýsingar og skýrsluna sjálfa má m.a. nálgast hér á vef iðnaðarráðuneytis.

Fulltrúi Samorku í verkefnisstjórninni, Agnar Olsen verkfræðingur, setur í skýrslunni fram nokkrar ábendingar (kafli 9.3.5) almennt um rammaáætlun og um lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ábendingar Agnars fara hér á eftir:

Fulltrúi Samorku fagnar því að vinnu við 2. áfanga rammaáætlunar er lokið með röðun virkjunarhugmynda.

Nýlega samþykkti Alþingi lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun en með þeim fær rammaáætlun lögformlega stöðu. Í 1. mgr. 3.gr. laganna segir : „Iðnaðarráðherra leggur í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.“ Nú tekur því við vinna undir forustu iðnaðarráðuneytisins að gerð þingsályktunartillögu um flokkun virkjunarhugmynda í verndar-, orkunýtingar- og biðflokk, sem væntanlega verður lögð fyrir Alþingi haustið 2011.

Rétt er að hnykkja á nokkrum atriðum sem æskilegt er að skoða betur í framhaldinu og snerta orkugeirann sérstaklega:

• Af 84 virkjunarhugmyndum voru 66 teknar til umfjöllunar af öllum faghópum en þar af eru 14 sem farið hafa í gegnum mat á umhverfisáhrifum samkvæmt gildandi lögum, 5 vatnsaflsvirkjanir og 9 jarðvarmavirkjanir.

• Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna taka þau ekki til landsvæða sem njóta friðlýsingar í samræmi við 50 gr. laga um náttúruvernd nema tiltekið sé í friðlýsingarskilmálum að virkjunarframkvæmdir séu heimilar á viðkomandi svæði. Ekki er alveg ljóst hvaða virkjunarhugmyndir, sem eru til umfjöllunar í 2. áfanga rammaáætlunar (landsvæði), falla undir þetta ákvæði en gera má ráð fyrir að það geti náð yfir um þriðjung þess háhita sem hugsanlegt væri að nýta til raforkuvinnslu.

• Röðun virkjunarhugmynda með AHP greiningu þarf að vera gagnsærri. AHP greining faghóps um náttúru og menningarminjar byggist á; 1) mati á áhrifum orkunýtingar, 2) verðmæti svæðis í náttúru og menningarminjum, 3) sérstöku mikilvægi og 4) óvissu og áhættu sem faghópurinn taldi framkvæmdinni samfara. Faghópur um útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi beitir sömu aðferð. Það er einkum vægi tveggja síðastnefndu þáttanna sem þarf að skoða.

• Þegar meta á áhrif virkjunarhugmynda á ferðaþjónustu, útivist, landbúnað og hlunnindi er nauðsynlegt að horfa til reynslu af núverandi virkjunum. Fjölsóttasti ferðamannastaður landsins er t.d. tengdur virkjun og á annað hundrað þúsund manns heimsækir virkjanir árlega.

• Þar sem mótvægisaðgerðum er lýst fyrir einstaka virkjunarhugmyndir á að taka þær með í mati á áhrifum virkjunar. Slíkar aðgerðir eru veigamikill hluti undirbúnings og mats á umhverfisáhrifum. Þær eru einnig snar þáttur í rannsóknum, byggingu og rekstri virkjana og gerðar í samráði og samvinnu virkjunaraðila, sveitarfélaga og landeigenda, eins og dæmin sanna.

• Loks vekur það athygli að faghópar sem fjalla um náttúru og menningarminjar og útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi flokka tvö stór en lítt röskuð svæði sem tvo orkukosti, en áður höfðu þau verið skilgreind sem annars vegar 4 og hins vegar 7 orkukostir. Á sama tíma eru orkukostir m.a. í nágrenni við virkjanir áfram flokkaðir sérstaklega. Fulltrúi Samorku hefur frá upphafi gert athugasemdir við þessa nálgun.