Hagkvæmnisrök styðja langa leigusamninga orkuauðlinda

Sterk hagfræðileg rök hníga að löngum leigusamningum orkuauðlinda og mikilvægt er að viðurkenna að stytting leigutíma er kostnaðarsöm. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Daða Más Kristóferssonar, dósents í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, á aðalfundi Samorku. Daði fjallaði um gjaldtöku, leigutíma og arðsemi orkunýtingar. Daði segir of stuttan leigutíma hindra arðbærar framkvæmdir auk þess sem langur leigutími vinni gegn svokölluðum leigjendavanda, þar sem skammtímahagsmunir leigutaka séu aðrir en langtímahagsmunir leigusala.

Daði fjallaði um kosti og galla mismunandi aðferða við gjaldtöku en lýsti efasemdum um hvort forsendur væru fyrir sérstakri skattlagningu á nýtingu orkuauðlina, m.a. þar sem ekki væri sýnilegur umframhagnaður hjá orkufyrirtækjum. Þá gæti skattur vegna umhverfisáhrifa verið réttlætanlegur en þó ekki flatur skattur þar sem slik áhrif væru jú mjög breytileg. Daði fjallaði m.a. um lágt raforkuverð á Íslandi og sagði auðlindarentuna því í raun renna til viðskiptavina, sem á Íslandi eru í flestum tilvikum einmitt eigendur fyrirtækjanna, þ.e. almenningur.

Sjá erindi Daða Más Kristóferssonar.
 

Iðnaðarráðherra: Rétt að fjölga hér orkukaupendum

Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ávarpaði opna dagskrá aðalfundar Samorku. Í ávarpi sínu fjallaði Oddný m.a. um orkuskipti í samgöngum, mótun heildstæðrar orkustefnu og vinnu við gerð rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu náttúrusvæða. Oddný sagði áliðnaðinn hafa myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem byggja mætti á, en sagðist telja okkur farnast best ef okkur tækist að fjölga hér orkukaupendum og ef að flóra þeirra yrði sem fjölbreyttust.

Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, ávarpaði opna dagskrá aðalfundar Samorku. Í ávarpi sínu fjallaði Oddný m.a. um orkuskipti í samgöngum, mótun heildstæðrar orkustefnu og vinnu við gerð rammaáætlunar um verndun og orkunýtingu náttúrusvæða. Oddný sagði áliðnaðinn hafa myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem byggja mætti á, en sagðist telja okkur farnast best ef okkur tækist að fjölga hér orkukaupendum og ef að flóra þeirra yrði sem fjölbreyttust. Hún sagði stjórnvöld og Samorku eiga sameiginlega hagsmuni í þróun hvata til orkuskipta í samgöngum og í að byggja þar upp innviði. Loks þakkaði ráðherra Samorku fyrir gott samstarf á liðnum árum, fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins, og vonaðist eftir gefandi samstarfi á komandi árum.

Ávarp Oddnýjar má nálgast hér á vef iðnaðarráðuneytisins.

 

Aðalfundur Samorku: Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Ályktun aðalfundar Samorku, 17. febrúar 2012:

 

Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Aðalfundur Samorku lýsir yfir vonbrigðum með stöðuna og ferlið við gerð þingsályktunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða – rammaáætlun. Samorka gagnrýndi á sínum tíma ýmsar breytingar sem urðu á forsendum verkefnisstjórnar, þar sem fjöldi orkukosta var útilokaður frá nýtingarflokki. Samtökin fögnuðu þó faglegum niðurstöðum af áralöngu starfi verkefnisstjórnar í júní 2011. Í því faglega ferli höfðu sjónarmið um náttúruvernd mikið vægi og almenningur fékk ítrekuð tækifæri til að setja fram sjónarmið, sem í kjölfarið voru metin á faglegan hátt í vinnu verkefnisstjórnar. Var það von Samorku að þessi ágæta vinna gæti orðið grundvöllur fyrir aukinni sátt um orkunýtingu og verndun. Miklar tafir hafa nú orðið á þessu ferli, með tilheyrandi óvissu. Í drögum að tillögu til þingsályktunar sem kynnt voru í ágúst hafði verið vikið frá faglegri forgangsröðun verkefnisstjórnar og niðurstöður hennar eru nú staddar öðru sinni í ógegnsæju samningaferli á vettvangi stjórnvalda.

Stærð einstakra flokka og röðun í þá er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis. Að mati Samorku væri hins vegar vænlegast að styðjast einfaldlega við faglega röðun verkefnisstjórnar frá því í júní 2011. Sú leið ætti að mati samtakanna að geta stuðlað að nokkuð víðtækri sátt um rammaáætlun. Fundurinn minnir jafnframt á að Íslendingar hafa nú þegar stigið mjög stór skref til verndar náttúru landsins og t.d. gengið mun lengra en hin Norðurlöndin í þeim efnum.

Auðlindamálin ekki til umhverfisráðuneytis
Þá ítrekar aðalfundur Samorku andstöðu samtakanna við hugmyndir um að færa auðlindarannsóknir og auðlindastýringu undir umhverfisráðuneytið. Það væri að mati Samorku óeðlileg stjórnsýsla að sama ráðuneyti gegndi lykilhlutverki varðandi rannsóknir og nýtingu annars vegar, og færi með umhverfismat og skipulagsmál hins vegar.

Guðrún Erla og Kristján ný í stjórn Samorku

Á aðalfundi Samorku voru tveir nýir fulltrúar kjörnir í stjórn samtakanna: Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, og Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða. Þá var Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, endurkjörinn til stjórnarsetu. Öll voru þau kjörin til tveggja ára. Guðrún Erla og Kristján taka sæti Franz Árnasonar, fyrrverandi forstjóra Norðurorku og Páls Pálssonar, veitustjóra Skagafjarðarveitna. Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Norðurorku, var kjörinn varamaður í stað Kristjáns Haraldssonar. Loks var Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella, endurkjörinn sem varamaður í stjórn.

Stjórn Samorku skipa því, að loknum aðalfundi 2012:
Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur
Júlíus J. Jónsson, forstjóri HS Orku
Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, formaður
Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets

Varamenn:
Ágúst Torfi Hauksson, forstjóri Norðurorku
Dagur Jónsson, vatnsveitustjóri Vatnsveitu Hafnarfjarðar
Guðmundur Davíðsson, framkvæmdastjóri Hitaveitu Egilsstaða og Fella

Tryggvi Þór var kjörinn formaður til tveggja ára á aðalfundi 2011, en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum á fyrsta fundi að loknum aðalfundi 2012.

Aðalfundur Samorku föstudaginn 17. febrúar

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 10:30 og hafa aðalfundarfulltrúar fengið senda dagskrá og önnur gögn.

13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku, Hvammi:

Setning:    Tryggvi Þór Haraldsson, formaður Samorku

Ávarp:       Oddný G. Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra

Erindi:       Gjaldtaka, leigutími og arðsemi orkunýtingar
                 Dr. Daði Már Kristófersson, dósent í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands

14:45  Kaffiveitingar í fundarlok

 

Orkunýting og ferðaþjónusta

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

  

Orkunýting og ferðaþjónusta

 „Víða getur ferðaþjónusta og orkuvinnsla farið vel saman.“ Svo segir m.a. í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða – rammaáætlun. Samtökin leggjast hins vegar gegn orkunýtingu á tilteknum svæðum. En hver eru tengsl orkunýtingar og ferðaþjónustu?

Græna orkan trekkir
Fyrst ber að nefna að í tengslum við landkynningu er gjarnan leitað til íslenskra orkufyrirtækja og þau fengin til að setja þar nýtingu endurnýjanlegrar orku í forgrunn. Þá heimsækir mikill fjöldi gesta íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja á ári hverju, alls vel á annað hundrað þúsund. Aukinn hlutur endurnýjanlegra orkugjafa hefur enda lengi verið eitt helsta viðfangsefni opinberrar stefnumótunar víða um heim en þar er Ísland í einstakri stöðu. Erlendir gestir vilja því gjarnan kynna sér nýtingu umhverfisvænnar orku hérlendis, þ.e. vatnsafls og ekki síður jarðhita (sem færri þekkja). Þá hafa sum orku- og veitufyrirtæki lagt verulega fjármuni í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Loks taka þessi fyrirtæki á móti fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Oft er þar ekki um að ræða ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlenda gesti úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála – „verðmæta“ ferðamenn sem hingað koma ekki síst vegna grænu orkunnar.

Bláa lónið er afsprengi jarðhitavirkjunar. Lónið sækja um 400 þúsund manns á ári. Perlan er byggð á heitavatnstönkum. Um 600 þúsund manns koma í Perluna á ári hverju. Helstu leiðir ferðamanna inn á hálendi Íslands eru eftir vegum sem upphaflega tengjast framkvæmdum við virkjanir og línulagnir. Þannig mætti áfram telja. Eins og öll önnur fyrirtæki nýta loks orku- og veitufyrirtæki þjónustu flugfélaga, gistihúsa, bílaleiga, rútubíla, veitingaaðila o.s.frv., ekki síst á tímum virkjanaframkvæmda. Hagsmunir greinanna fara því vel saman. 

Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

 Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

Oft heyrum við áréttað mikilvægi þess að staðinn sé vörður um hagsmuni komandi kynslóða, ekki síst þegar færð eru rök gegn framkvæmdum við virkjun vatnsafls eða jarðhita. En hvaða hugsun er þarna að baki?

Ef ég byggi hús á tiltekinni lóð, er ég þá að hafa af komandi kynslóðum tækifærið til að reisa öðru vísi hús á þeirri sömu lóð? Tæplega, enda væntanlega hægur vandi að rífa húsið og byggja nýtt. Hvað með orkuna, verð ég búinn að klára hana fyrir komandi kynslóðum ef ég reisi virkjun í dag? Augljóslega ekki, við erum að tala um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Komandi kynslóðir munu hins vegar njóta ávaxtanna af því ef fyrri kynslóðir hafa reist slíkar virkjanir, sem enn skapa verðmæti mörgum áratugum eftir að upphafleg fjárfesting hefur verið afskrifuð líkt og dæmin sanna. Óvirkjað vatnsafl eða jarðhiti skila á hinn bóginn engum tekjum í skilningi orkusölu.

Hér er því væntanlega horft til beinna efnahagsáhrifa af sjálfum virkjanaframkvæmdunum og tengdum framkvæmdum í uppbyggingu atvinnulífs (sem skilja eftir verðmætaskapandi atvinnustarfsemi til frambúðar), eða til sjónarmiða um náttúruvernd.

Öruggast að gera ekki neitt?
Auðvitað eru það skiljanleg sjónarmið að við sem lifum hér í dag eigum ekki að taka ákvarðanir um röskun á tilteknum orkuríkum náttúrusvæðum og hafa þannig ákvörðunarvald af komandi kynslóðum í þeim efnum. Á meðan skila umrædd svæði hins vegar engum verðmætum í skilningi orkusölu og tengdrar atvinnustarfsemi. En hvenær má þá taka ákvarðanir um orkunýtingu? Verða ekki alltaf einhverjar komandi kynslóðir? Og hvað með aðrar framkvæmdir en orkunýtingu? Fangelsi á Hólmsheiði? Stórt og áberandi verslunarhúsnæði í fallegri hlíð eða hrauni?

Þetta þykja sumum ef til vill minniháttar ákvarðanir í samanburði við nýjar virkjanir, en vitum við hvað komandi kynslóðum mun þykja um það? Ekki hef ég neitt umboð til að tjá mig í nafni komandi kynslóða. Veit ekki hvaðan ýmsir aðrir telja sig hafa slíkt umboð. Öruggast væri ef til vill að gera aldrei neitt, en þá taka komandi kynslóðir kannski ekki við sérlega spennandi búi.

 

Rafmagnseftirlitsgjald tvöfaldað

Alþingi samþykkti á dögunum (17. desember) frumvarp iðnaðarráðherra um tvöföldun á eftirlitsgjaldi með flutningsfyrirtæki og dreifiveitum raforku. Gjaldið skilaði á liðnu ári um 50 milljónum króna en mun því á næsta ári skila um 100 milljónum.

Samorka benti í umsögn sinni um frumvarpið á að allur kostnaður sem lagður er á flutning og dreifingu raforku greiðist á endanum af kaupendum orkunnar. Þá hafi dreifi- og flutningsveitur verið reknar samkvæmt ítrustu kröfum laga og reglna og vel innan settra tekjumarka. Tvöföldun á umfangi eftirlitsins yrði því að teljast nokkuð rausnarlegt og án nægjanlegs tilefnis.

Þess má loks geta að auk framgreinds eftirlitsgjalds greiða raforkufyrirtækin um 180 milljónir á ári til rafmagnseftirlits Mannvirkjastofnunar, sem raunar hefur undanfarin ár einungis að hluta til verið varið til eftirlitsins en afgangurinn orðið eftir í ríkissjóði (um 70 milljónir króna).

Erindi af veitustjórafundi

Fjölsóttur veitustjórafundur var haldinn fimmtudaginn 1. desember. Tryggvi Þór Haraldsson formaður opnaði fundinn og forstjóri Neytendastofu afhenti forstjóra Norðurorku vottun fyrir sölumæla. Þá voru flutt þrjú erindi, sem nálgast má hér að neðan.

Virkjunarframkvæmdir á Norðausturlandi
Pálmar Óli Magnússon, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar

Jarðskjálftavirkni við niðurdælingu jarðhitavökva
Ólafur G. Flóvenz, forstjóri ÍSOR

Ný sveitarstjórnarlög og veitufyrirtækin
Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga