Hagkvæmnisrök styðja langa leigusamninga orkuauðlinda

Sterk hagfræðileg rök hníga að löngum leigusamningum orkuauðlinda og mikilvægt er að viðurkenna að stytting leigutíma er kostnaðarsöm. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Daða Más Kristóferssonar, dósents í auðlindahagfræði við Háskóla Íslands, á aðalfundi Samorku. Daði fjallaði um gjaldtöku, leigutíma og arðsemi orkunýtingar. Daði segir of stuttan leigutíma hindra arðbærar framkvæmdir auk þess sem langur leigutími vinni gegn svokölluðum leigjendavanda, þar sem skammtímahagsmunir leigutaka séu aðrir en langtímahagsmunir leigusala.

Daði fjallaði um kosti og galla mismunandi aðferða við gjaldtöku en lýsti efasemdum um hvort forsendur væru fyrir sérstakri skattlagningu á nýtingu orkuauðlina, m.a. þar sem ekki væri sýnilegur umframhagnaður hjá orkufyrirtækjum. Þá gæti skattur vegna umhverfisáhrifa verið réttlætanlegur en þó ekki flatur skattur þar sem slik áhrif væru jú mjög breytileg. Daði fjallaði m.a. um lágt raforkuverð á Íslandi og sagði auðlindarentuna því í raun renna til viðskiptavina, sem á Íslandi eru í flestum tilvikum einmitt eigendur fyrirtækjanna, þ.e. almenningur.

Sjá erindi Daða Más Kristóferssonar.