Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

 Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Af virkjunum og hagsmunum komandi kynslóða

Oft heyrum við áréttað mikilvægi þess að staðinn sé vörður um hagsmuni komandi kynslóða, ekki síst þegar færð eru rök gegn framkvæmdum við virkjun vatnsafls eða jarðhita. En hvaða hugsun er þarna að baki?

Ef ég byggi hús á tiltekinni lóð, er ég þá að hafa af komandi kynslóðum tækifærið til að reisa öðru vísi hús á þeirri sömu lóð? Tæplega, enda væntanlega hægur vandi að rífa húsið og byggja nýtt. Hvað með orkuna, verð ég búinn að klára hana fyrir komandi kynslóðum ef ég reisi virkjun í dag? Augljóslega ekki, við erum að tala um sjálfbæra nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Komandi kynslóðir munu hins vegar njóta ávaxtanna af því ef fyrri kynslóðir hafa reist slíkar virkjanir, sem enn skapa verðmæti mörgum áratugum eftir að upphafleg fjárfesting hefur verið afskrifuð líkt og dæmin sanna. Óvirkjað vatnsafl eða jarðhiti skila á hinn bóginn engum tekjum í skilningi orkusölu.

Hér er því væntanlega horft til beinna efnahagsáhrifa af sjálfum virkjanaframkvæmdunum og tengdum framkvæmdum í uppbyggingu atvinnulífs (sem skilja eftir verðmætaskapandi atvinnustarfsemi til frambúðar), eða til sjónarmiða um náttúruvernd.

Öruggast að gera ekki neitt?
Auðvitað eru það skiljanleg sjónarmið að við sem lifum hér í dag eigum ekki að taka ákvarðanir um röskun á tilteknum orkuríkum náttúrusvæðum og hafa þannig ákvörðunarvald af komandi kynslóðum í þeim efnum. Á meðan skila umrædd svæði hins vegar engum verðmætum í skilningi orkusölu og tengdrar atvinnustarfsemi. En hvenær má þá taka ákvarðanir um orkunýtingu? Verða ekki alltaf einhverjar komandi kynslóðir? Og hvað með aðrar framkvæmdir en orkunýtingu? Fangelsi á Hólmsheiði? Stórt og áberandi verslunarhúsnæði í fallegri hlíð eða hrauni?

Þetta þykja sumum ef til vill minniháttar ákvarðanir í samanburði við nýjar virkjanir, en vitum við hvað komandi kynslóðum mun þykja um það? Ekki hef ég neitt umboð til að tjá mig í nafni komandi kynslóða. Veit ekki hvaðan ýmsir aðrir telja sig hafa slíkt umboð. Öruggast væri ef til vill að gera aldrei neitt, en þá taka komandi kynslóðir kannski ekki við sérlega spennandi búi.