Orkunýting og ferðaþjónusta

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

  

Orkunýting og ferðaþjónusta

 „Víða getur ferðaþjónusta og orkuvinnsla farið vel saman.“ Svo segir m.a. í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um drög að þingsályktunartillögu um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða – rammaáætlun. Samtökin leggjast hins vegar gegn orkunýtingu á tilteknum svæðum. En hver eru tengsl orkunýtingar og ferðaþjónustu?

Græna orkan trekkir
Fyrst ber að nefna að í tengslum við landkynningu er gjarnan leitað til íslenskra orkufyrirtækja og þau fengin til að setja þar nýtingu endurnýjanlegrar orku í forgrunn. Þá heimsækir mikill fjöldi gesta íslenskar virkjanir og upplýsingamiðstöðvar orku- og veitufyrirtækja á ári hverju, alls vel á annað hundrað þúsund. Aukinn hlutur endurnýjanlegra orkugjafa hefur enda lengi verið eitt helsta viðfangsefni opinberrar stefnumótunar víða um heim en þar er Ísland í einstakri stöðu. Erlendir gestir vilja því gjarnan kynna sér nýtingu umhverfisvænnar orku hérlendis, þ.e. vatnsafls og ekki síður jarðhita (sem færri þekkja). Þá hafa sum orku- og veitufyrirtæki lagt verulega fjármuni í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Loks taka þessi fyrirtæki á móti fjölda gesta í sínum höfuðstöðvum. Oft er þar ekki um að ræða ferðamenn í hefðbundnum skilningi, heldur erlenda gesti úr heimum vísinda, viðskipta og stjórnmála – „verðmæta“ ferðamenn sem hingað koma ekki síst vegna grænu orkunnar.

Bláa lónið er afsprengi jarðhitavirkjunar. Lónið sækja um 400 þúsund manns á ári. Perlan er byggð á heitavatnstönkum. Um 600 þúsund manns koma í Perluna á ári hverju. Helstu leiðir ferðamanna inn á hálendi Íslands eru eftir vegum sem upphaflega tengjast framkvæmdum við virkjanir og línulagnir. Þannig mætti áfram telja. Eins og öll önnur fyrirtæki nýta loks orku- og veitufyrirtæki þjónustu flugfélaga, gistihúsa, bílaleiga, rútubíla, veitingaaðila o.s.frv., ekki síst á tímum virkjanaframkvæmda. Hagsmunir greinanna fara því vel saman.