22. desember 2011 Rafmagnseftirlitsgjald tvöfaldað Alþingi samþykkti á dögunum (17. desember) frumvarp iðnaðarráðherra um tvöföldun á eftirlitsgjaldi með flutningsfyrirtæki og dreifiveitum raforku. Gjaldið skilaði á liðnu ári um 50 milljónum króna en mun því á næsta ári skila um 100 milljónum. Samorka benti í umsögn sinni um frumvarpið á að allur kostnaður sem lagður er á flutning og dreifingu raforku greiðist á endanum af kaupendum orkunnar. Þá hafi dreifi- og flutningsveitur verið reknar samkvæmt ítrustu kröfum laga og reglna og vel innan settra tekjumarka. Tvöföldun á umfangi eftirlitsins yrði því að teljast nokkuð rausnarlegt og án nægjanlegs tilefnis. Þess má loks geta að auk framgreinds eftirlitsgjalds greiða raforkufyrirtækin um 180 milljónir á ári til rafmagnseftirlits Mannvirkjastofnunar, sem raunar hefur undanfarin ár einungis að hluta til verið varið til eftirlitsins en afgangurinn orðið eftir í ríkissjóði (um 70 milljónir króna).