Orkunýting og búmennska

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Orkunýting og búmennska

Í leiðara Fréttablaðsins föstudaginn 28. október segir Steinunn Stefánsdóttir að umgengni Íslendinga við auðlindir hafi fram til þessa borið meiri svip af veiðimennsku en búskap, og á þar við umgengni um orkuauðlindir. Vandséð er hvernig aðstoðarritstjórinn kemst að þessari niðurstöðu. Eða þekkir Steinunn einhver dæmi um að gengið hafi verið of nærri íslenskum orkuauðlindum? Ef átt er við að einhverjar virkjanir hafi haft óæskileg áhrif á náttúruna þá verða vissulega ávallt uppi mismunandi sjónarmið í þeim efnum, en við Íslendingar erum þó Evrópumeistarar í verndun landsvæða og mikil áform eru uppi um að ganga enn lengra í þeim efnum.

Steinunn fer mikinn og talar meðal annars um rétt þeirra sem ófædd eru, en munu þau ekki einmitt njóta ávaxtanna af því að reistar hafi verið hér virkjanir og jafnvel þegar afskrifaðar, þótt þær skapi þjóðinni áfram verðmæti? Hún kallar það mýtu að með nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda hérlendis séum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum til umhverfismála á alþjóðavísu, þar sem fyrir vikið sé minni þörf á notkun mengandi orkugjafa annars staðar. Ástæðan sé sú að í alheimssamhengi sé framleiðanleg orka á Íslandi ekki svo mikil. Samkvæmt þessari röksemdafærslu getum við þá t.d. látið það eiga sig að sinna þróunaraðstoð, þar sem okkar framlag telur varla mikið slíku í alheimssamhengi. Formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna kom þó hingað um árið og hvatti Íslendinga til að halda áfram að nýta hér endurnýjanlegar orkuauðlindir, í þágu baráttunnar gegn áhrifum svonefndra gróðurhúsalofttegunda.

Orkan er ekki ál
Loks skal hér nefnt að í leiðaranum er kvartað undan tilvísunum í störfin við álframleiðsluna sem við taki að loknum virkjanaframkvæmdum. Nú er það vissulega svo að þrjú öflug álfyrirtæki eru lang stærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja. Sú staða segir hins vegar ekkert til um framhaldið og engin ástæða til að tengja virkjanir framtíðarinnar endilega við framleiðslu á áli.

Við Íslendingar búum við þá algeru sérstöðu að hér er svo gott sem öll raforka unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og sama gildir um húshitun. Við hljótum að geta sameinast um að vera stolt af þessari einstöku stöðu. Svo mikið er víst að margur kola- og olíubrennandi nágranninn lítur hingað öfundaraugum.