15. nóvember 2011 Hitaveitur spöruðu landsmönnum 2.420 milljarða – Óhagkvæmt að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn Ef jarðvarma til húshitunar á Íslandi nyti ekki við er líklegt að olía væri nýtt í staðinn. Að mati Orkustofnunar nemur uppsafnaður sparnaður Íslendinga af því að nota jarðvarma í stað olíu á árunum 1970-2010 um 2.420 milljörðum kr. á verðlagi í júní 2010 og er þá miðað við 5% raunvexti. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um nýtingu vatns á Íslandi. Í skýrslunni er fjallað um vatnsveitur, hitaveitur, raforkuframleiðslu, fráveitur o.fl. Kostnaður allt að 2,5 milljarðar við að setja upp rennslismæla fyrir kalt vatn Fram kemur að Íslendingar nýta um tvöfalt meira af ferskvatni en flestar nágrannaþjóðir okkar, eða um 269 rúmmetra hver á ári á tímabilinu 2005-2007. Samkvæmt vatnatilskipun ESB ber aðildarríkjum að stefna að því að verðlagning vatns hvetji notendur til að nýta auðlindina á hagkvæman hátt, en greiðsla fyrir nýtingu í samræmi við magn skapar slíkan hvata. Hagfræðistofnun bendir á að þar sem kalt vatn er almennt ekki selt um rennslismæla til heimila hérlendis – heldur er gjaldtakan víðast hvar áætluð út frá fasteignamati – þá uppfyllum við ekki þessi ákvæði tilskipunarinnar. Stofnunin bendir hins vegar á að það mundi skv. lauslegu mati kosta allt að 2,5 milljarða króna að setja upp rennslismæla í öll íbúðarhús. „Vegna þess hve Ísland er auðugt af vatni er óvíst hvort ávinningur af skilvirkari nýtingu vatns sé kostnaðarins virði og hvort hagkvæmara sé fyrir Ísland að halda í núverandi fyrirkomulag þótt það samræmist ekki vatnatilskipuninni,“ segir í skýrslu Hagfræðistofnunar. Skýrslu Hagfræðistofnunar má nálgast hér á vef Umhverfisstofnunar.