Jarðlagnanámskeið Samorku 2014

Jarðlagnanámskeið Samorku var haldið mánudaginn 17. febrúar síðastliðinn. Námskeiðið var vel sótt, yfir 60 manns tóku þátt, og komust mun færri að en vildu.

Samorka vill koma á framfæri þökkum, bæði til þátttakenda, og til leiðbeinenda fyrir framúrskarandi fyrirlestra. Ennfremur þakkar Samorka Orkuveitu Reykjavíkur fyrir góða samvinnu við að halda námskeiðið.

Vegna mikillar eftirspurnar er nú til skoðunar að halda námskeiðið aftur á næstunni og er frekari fregna að vænta af því.

Fyrir hönd Samorku

Sigurjón N. Kjærnested – Framkvæmdastjóri veitusviðs

Aðalfundur Samorku á föstudag

Aðalfundur Samorku verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 21. febrúar. Venjuleg aðalfundarstörf hefjast kl. 11:00, en skráning kl. 10:30.

13:30 Opin dagskrá aðalfundar Samorku

Setning:    Tryggvi Þór Haraldsson, formaður Samorku

Ávarp:       Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
            
Erindi:       Orkugeirinn, veitufyrirtæki og tækniþekking á Íslandi
                   Guðrún A. Sævarsdóttir, forseti tækni- og verkfræðideildar     
                   Háskólans í Reykjavík

Erindi:       Raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar
                   Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna, Eflu verkfræðistofu

15:00        Kaffiveitingar í fundarlok

Ljósastauraútboð Samorku

Föstudaginn 14. febrúar voru opnuð tilboð í ljósastaura sem Samorka stóð að fyrir hönd dreifiveitna rafmagns. Sjö boð bárust og voru upphæðirnar frá kr. 88 milljónum til 120 milljóna. Unnið er að yfirferð og samanburði á tilboðunum og verður fljótlega gengið til samninga við þann bjóðanda sem best kemur út úr þeirri skoðun.

Landsnet og PCC semja um orkuflutning fyrir kísilver á Bakka

Landsent hefur undirritað samkomulag um raforkuflutninga við PCC BakkiSilicon hf., dótturfyrirtæki þýska félagsins PCC SE, sem hyggst byggja kísilver á Bakka við Húsavík. Þetta er fyrsti samningurinn sem Landsnet gerir vegna fyrirhugaðrar iðnaðaruppbyggingar á Bakka. Áætluð aflþörf fyrsta áfanga verksmiðunnar er 52 megavött (MW) og miðast samkomulagið við að starfsemin hefjist árið 2017. Sjá nánar á vef Landsnets.

Menntafyrirtæki ársins?

Samtök atvinnulífsins (SA), Samorka og önnur aðildarfélög SA efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 12.30-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra. Á Menntadeginum munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá könnun um viðhorf framhaldsskólanema til bóknáms og verknáms og erlendar fyrirmyndir skoðaðar.

Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki til að vera tilnefnt annað hvort til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins eða Menntasproti ársins. Þrjú fyrirtæki verða tilnefnd í hvorum hópi.

Menntafyrirtæki ársins:
Fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins þurfa að leggja áherslu á mikilvægi menntunar. Í fyrirtækinu verður að vera til staðar skýr mennta- og fræðslustefna og henni fylgt eftir. Við mat á tilnefningum verða gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækisins og jafnframt aukið  samkeppnisforskot þess.

Menntasproti árins:
Verkefni eða fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntasproti ársins þurfa að hafa aukið áherslu á fræðslu- og menntamál innan fyrirtækisins. Við mat á tilnefningum verður skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækisins og hver aukningin er í þátttöku starfsmanna.

Gerð verða stutt kynningarmyndbönd um fyrirtækin sex sem verða tilnefnd til Menntaverðlauna atvinnulífsins. Þar verður sérstaða þeirra dregin fram og fyrirmyndarstarf þeirra kynnt í aðdraganda Menntadagsins og á deginum sjálfum. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna um sigurvegara á Menntadeginum og afhenda verðlaun í hvorum flokki fyrir sig.

Vinsamlegast sendið tilnefningar í tölvupósti á sa@sa.is ekki síðar en 26. janúar 2014, merkt Menntadagur – tilnefning.

Orka náttúrunnar tekur til starfa

Um áramót tók Orka náttúrunnar við rekstri virkjana Orkuveitu Reykjavíkur og allri raforkusölu. Fyrirtækið er opinbert hlutafélag alfarið í eigu Orkuveitunnar og er sett á fót til að uppfylla ákvæði raforkulaga um aðskilnað sérleyfis- og samkeppnistarfsemi. Viðskiptavinir Orku náttúrunnar eru um 75.000 talsins og eru viðskiptin misjafnlega umfangsmikil, allt frá heimilum til álvers. Framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar er Páll Erland. Sjá nánar á vef ON.

Norðurorka tekur yfir fráveitu Akureyrarbæjar

Norðurorka hf. hefur tekið yfir rekstur á fráveitu Akureyrarbæjar. Sameining veitna á Akureyri hefur gerst í nokkrum áföngum. Árið 1993 voru Vatnsveita Akureyrar og Hitaveita Akureyrar sameinaðar og árið 2000 bættist Rafveita Akureyrar við og til varð sameinað veitufyrirtæki Akureyringa, Norðurorka. Síðan þá hafa veitur í nágrannasveitarfélögum sameinast Norðurorku hf. og verulegur árangur náðst með bættri nýtingu allra forða fyrirtækisins og framlegð aukist verulega á tímabilinu. Sjá nánar á vef Norðurorku.