Gagnrýni á veikum grunni

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku:

Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 19. september fer formaður Landverndar mikinn í gagnrýni sinni á bæði forstjóra og kerfisáætlun Landsnets, í kjölfar viðtals við forstjórann í sama blaði. Ekki verður brugðist við öllum þeim ummælum hér. Rétt er þó að minna á að skv. 9. grein raforkulaga nr. 65/2003 er það skylda Landsnets að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Núverandi staða flutningskerfis raforku torveldar uppbyggingu atvinnulífs víða um land og þörf uppbyggingar og eflingar kerfisins er orðin knýjandi. Óskandi er að farsæl afgreiðsla kerfisáætlunar Landsnets geti markað upphaf þessarar nauðsynlegu uppbyggingar, sem til dæmis ýmis iðnfyrirtæki á Norðurlandi og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi hafa ítrekað kallað eftir.

Formaður Landverndar rifjar í grein sinni upp skýrslu sem kanadíska fyrirtækið Metsco vann fyrir Landvernd, um jarðstrengi og loftlínur til raforkuflutnings. Fjallar hann um niðurstöður skýrslu Metsco þess efnis að líftímakostnaður við 132 kV jarðstrengi sé sá sami og við 132 kV loftlínur og einungis 25% hærri við 220 kV strengi en við sambærilegar loftlínur.

Úttekt EFLU á skýrslu Metsco
Í kjölfar útgáfu umræddrar skýrslu Metsco tók EFLA verkfræðistofa saman all ítarlega greinargerð, í samstarfi við Friðrik Má Baldursson prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, þar sem skoðaðar voru forsendur og útreikningar skýrslunnar. Meðal annars er þar bent á mikilvægi þess að meta á raunhæfan hátt kostnað við raforkutöp í flutningskerfinu og kostnað við rekstur og viðhald flutningsmannvirkja. Þá er sagt afar mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig út frá aðstæðum á lagnaleið og því erfitt að draga ályktanir út frá einu dæmi. Munur út frá forsendum Metsco reyndist við útreikninga EFLU ýmist meiri eða minni en fram kemur í skýrslu Metsco. Loks skal hér nefnt úr greinargerð EFLU að aðstæður til strenglagningar eru nokkuð aðrar hér en í nágrannalöndum, varmaleiðni jarðvegs er minni hér og aðstæður víða erfiðar fyrir strenglagnir svo sem á hraunasvæðum.

Þessar niðurstöður EFLU fengu meðal annars kynningu á málþingi Verkfræðingafélags Íslands um loftlínur og jarðstrengi. Það kemur á óvart að formaður Landverndar skuli, í kjölfar greinargerðar EFLU, styðjast við umrædda skýrslu Metsco þegar hann gagnrýnir kerfisáætlun Landsnets og forstjórann sömuleiðis.