25. nóvember 2014 Fjöldi fróðlegra erinda á haustfundi Landsvirkjunar Á haustfundi Landsvirkjunar komu m.a. fram áhugaverðar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins, eftirspurn eftir raforku frá áliðnaði, kísiliðnaði og gagnaverum, um áhrif hærra raforkuverðs, krefjandi markaðsumhverfi, sæstreng, rammaáætlun og um virkjunarkosti til athugunar á sviði vatnsafls, jarðhita og vindorku. Glærur fundarins má nálgast hér á vef Landsvirkjunar.
19. nóvember 2014 Alþjóðlegur dagur salerna – 19. nóvember Árið 2013 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna að 19. nóvember yrði skilgreindur sem alþjóðlegur dagur salerna. Samkvæmt nýjustu tölum frá UN water þá skortir yfir 2,5 milljarð einstaklinga fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Heilbrigðisvandamálin vegna þessa eru eins og gefur að skilja gríðarleg. Samorka vill í tilefni dagsins vekja athygli á herferð UN Water til að taka á þessu máli og hvetja alla áhugasama til að taka þátt og hjálpa til. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu UN Water:
13. nóvember 2014 Skráning á World Geothermal Congress 2015 Skráning á World Geothermal Congress (WGC) 2015, heimsþing Alþjóða jarðhitasambandins (IGA), er í fullum gangi. Heimsþingið fer fram í Ástralíu dagana 19.-24. apríl 2015. Frekari upplýsingar um skráningu má finna á heimasíðu WGC 2015.
6. nóvember 2014 Rammaáætlun: Sex orkukostir fari aftur í nýtingarflokk Samorka styður í umsögn sinni tillögu til þingsályktunar þess efnis að orkukosturinn Hvammsvirkjun verði færður úr biðflokki rammaáætlunar aftur í nýtingarflokk, þar sem hann var áður flokkaður fyrir afgreiðslu Alþingis í janúar 2013. Samorka beinir því jafnframt til Alþingis að ályktað verði um að snúa aftur til faglegrar niðurstöðu fyrri verkefnisstjórnar og færa alla þá sex orkukosti sem Alþingi færði úr nýtingarflokki í biðflokk, þvert á faglegar niðurstöður verkefnisstjórnar, til baka í nýtingarflokk. Jafnframt verði ályktað þess efnis að núverandi verkefnisstjórn ljúki því verkefni sem henni var falið í skipunarbréfi, að forgangsraða vinnu við þá tvo aðra kosti sem jafnframt var fjallað um sérstaklega í nefndaráliti þáverandi meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við afgreiðslu málsins í janúar 2013. Til vara gerir Samorka tillögu um að Alþingi beini því til verkefnisstjórnar að ljúka hið fyrsta umfjöllun um alla framangreinda átta kosti, sbr. fyrrnefnt nefndarálit og skipunarbréf ráðherra. Loks gerir Samorka tillögu um að í framhaldinu verði vinnu verkefnisstjórnar forgangsraðað þannig að fjallað verði um þá kosti sem best hafa verið rannsakaðir og lengst eru komnir í undirbúningi, í ljósi þess tímahraks sem vinnan er komin í. Sjá nánar í umsögn Samorku um þingsályktunartillöguna.
30. október 2014 Landsnet hefur mat á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu Landsnet hefur ákveðið að hefja undirbúning mats á umhverfisáhrifum Sprengisandslínu, 220 kV háspennulínu milli Suður- og Norðurlands. Því er ætlað að kanna nánar umhverfisáhrif línunnar og leggja mat á kosti um leiðarval og útfærslur. Þegar er gert ráð fyrir háspennulínu og vegi um þetta svæði í aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga og einnig er gert ráð fyrir háspennulínu og vegi yfir Sprengisand í gildandi svæðisskipulagi Miðhálendis Íslands til 2015. Sjá nánar á vef Landsnets.
27. október 2014 Erindi haustfundar Jarðhitafélags Íslands 2014 Haustfundur JHFÍ fór fram þann 23.10.2014 og var fundurinn ár tileinkaður störfum Sverris Þórhallssonar. Fundinn þótti vel heppnaður en hann sátu yfir 100 manns og var fullt út úr dyrum. Erindi sem flutt voru á fundinum má finna á heimasíðu Jarðhitafélagsins:
14. október 2014 Nýir sæstrengir sagðir munu auka verðmætasköpun í Noregi Norska orkumálaráðuneytið hefur gefið flutningsfyrirtækinu Statnett leyfi til að leggja tvo nýja sæstrengi til raforkuflutnings, annars vegar til Þýskalands og hins vegar til Bretlands. Um er að ræða strengi með 1.400 megavatta flutningsgetu og yrði strengurinn til Bretlands sá lengsti sinnar tegundar, um 800 km að lengd. Ráðgert er að hann verði tekinn í notkun árið 2020, en strengurinn til Þýskalands árið 2018. Að sögn Olufs Ulseth framkvæmdastjóra Energi Norge – samtaka norskra orkufyrirtækja – mun stóraukin flutningsgeta til annarra Evrópulanda hafa í för með sér aukna verðmætasköpun fyrir Noreg, þar sem hægt verði að flytja inn vind- og sólarorku þegar hennar nýtur við á lágum verðum í öðrum Evrópuríkjum, en nýta sveigjanleika vatnsaflsins til að flytja orkuna út þegar sólar eða vinds nýtur ekki við og verðin því hærri á umræddum mörkuðum. Þá muni þessar nýju tengingar auka orkuöryggi Noregs, þar sem raforkan gegnir m.a. lykilhlutverki í húshitun. Loks bendir hann á að aukin strengvæðing muni stuðla að auknum hlut grænna orkugjafa í orkunotkun Evrópulanda og þar með að minni brennslu jarðefnaeldsneyta á borð við olíu, gas og kol, og þannig draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þær þjóðir sem helst búi að vind- og sólarorku, auk brennslu jarðefnaeldsneyta, muni flytja inn raforku úr norsku vatnsafli þegar vinds eða sólar nýtur ekki við. Sjá nánar á vef Energi Norge.
7. október 2014 Öryggið fyrst og fremst – ráðstefna 16. október Fimmtudaginn 16. október stendur Dokkan fyrir ráðstefnu um öryggishegðun á vinnustöðum, í samvinnu við Samorku o.fl. Ráðstefnan verður haldin á Hótel Natura, en nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu má nálgast hér á vef Dokkunnar.
6. október 2014 Verkefnakynning Jarðhitaskólans 8. október Árlegir fyrirlestrar nemenda Jarðhitaskólans um verkefni sín verða haldnir í Víðgelmi, fyrirlestrarsal Orkugarðs, Grensásvegi 9, miðvikudaginn 8. október og hefjast kl. 09:00. Fyrirlestrarnir eru öllum opnir. Sjá nánar í meðfylgjandi dagskrá frá Jarðhitaskólanum.
23. september 2014 Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins 2020 haldið á Íslandi! Stjórn Alþjóða jarðhitasambandsins (IGA) hefur ákveðið að World Geothermal Congress 2020 – heimsþing sambandsins sem haldið er á 5 ára fresti – verði haldið á Íslandi. Um er að ræða langstærsta viðburðinn í jarðhitaheiminum og einn stærsta ráðstefnuviðburð sem haldinn hefur verið á Íslandi. Það var Iceland Geothermal klasasamstarfið sem leiddi vinnu við umsóknarferlið fyrir Íslands hönd og Samorka og jarðhitasamfélagið allt á Íslandi studdu við umsóknina. Forseti Íslands, ríkisstjórn og Reykjavíkurborg studdu einnig við umsóknina. Dr.Bjarni Pálsson, fyrrv. formaður Jarðhitafélags Íslands og Rósbjörg Jónsdóttir frá Iceland Geothermal kynntu og fylgdu umsókn Íslands eftir á stjórnarfundi Alþjóða jarðhitasambandsins í mars síðastliðnum. Það er mikill viðurkenning og árangur að Ísland skuli hafa orðið fyrir valinu, í samkeppni við lönd eins og t.d Þýskaland, Bandaríkin og Chile. Stjórn IGA kaus um hvaða land fengi að halda heimsþingið og var kosið með útsláttarfyrirkomulagi, þar sem Ísland var valið fram yfir Þýskaland í lokaumferðinni. Samorka óskar Iceland Geothermal og jarðhitasamfélaginu öllu á Íslandi til hamingju með þennan tímamótaáfanga.