22. mars 2015 Dagur vatnsins 2015 – Vatn og sjálfbær þróun Þann 22. mars er Dagur vatnsins haldinn hátíðlegur um allan heim. Dagur vatnsins er árlega tilefni til þess að fagna vatnsauðlindinni, hvetja til góðrar umgengni um hana og sérstaklega hérna á Íslandi, vera þakklát fyrir hversu vel við búum. Þema dagsins í ár er vatn og sjálfbær þróun og vill Samorka að því tilefni koma á framfæri hvatningu til góðrar umgengni um vatnsauðlindina og skynsamlegrar nýtingar á henni. Frekari umfjöllun um Dag vatnsins má finna á heimasíðu samtakanna sem árlega skipuleggja Dag vatnsins: United Nations Water. Við vekjum einnig athygli á áhugaverðum fróðleik um kalda vatnið hér á heimasíðu Samorku og á heimasíðu Orkuveitu Reykjavikur þar sem verður á næstu dögum sérstaklega beint sjónum að kalda vatninu.
20. mars 2015 Erindi af vorfundi Jarðhitafélags Íslands Vorfundur Jarðhitafélags Íslands var haldinn þann 19. mars síðastliðinn í húsakynnum Landsvirkjunar. Fundurinn, sem var haldinn í beinu framhaldi af aðalfundi félagsins, var vel sóttur en þegar mest var voru yfir 50 manns á fundinum. Þema fundarins var: „Erindi Íslendinga á WGC 2015“. Erindi fyrirlesara má finna á heimasíðu JHFÍ.
18. mars 2015 Vindmyllur með mjög góða nýtingu Nýting vindmyllanna fyrir ofan Búrfell var afar góð á fyrsta heila rekstrarári þeirra, raunar með því allra hæsta í heiminum, eða 44%. Á heimsvísu er meðaltalið um 28%.Tvö svæði hafa verið til frekari skoðunar af hálfu Landsvirkjunar fyrir mögulega framtíðaruppbyggingu á sviði vindorku: Þjórsár- og Tungnaársvæðið og einnig virkjanasvæði Blöndustöðvar. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
17. mars 2015 Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar 20. mars Árlegur Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar verður haldinn föstudaginn 20. mars næstkomandi. Í ár hefst vísindadagurinn á sólmyrkva! Ráðstefnugestum verður boðið út á svalir á höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls og boðið að rýna í gegnum til þess gerð gleraugu á sólmyrkvann áður en gengið verður til dagskrár. Þar verður boðið upp á kynningu á 14 vísindaverkefnum, sem unnin hafa verið af fyrirtækjunum tveimur eða í samstarfi við þau. Skráningar er óskað og stendur hún yfir á vef Orkuveitu Reykjavíkur.
9. mars 2015 Dagskrá aðal- og vorfunda JHFÍ Fimmtudaginn 19. mars næstkomandi heldur Jarðhitafélag Íslands aðalfund sinn. Fundurinn hefst kl. 14:00 og er haldinn í húsakynnum Landsvirkjunar, Háaleitisbraut 68. Vorfundur félagsins verður haldinn í beinu framhaldi af aðalfundinum og hefst á sama stað kl. 15:00. Meginþema fundarins er „Verkefni Íslendinga á World Geothermal Congress 2015 í Ástralíu“. Sjá má dagskrá fundanna á heimasíðu JHFÍ.
4. mars 2015 Foreldrar og 10. bekkingar kynni sér kosti starfsnáms Samtök fyrirtækja í atvinnulífinu hvetja þessa daga foreldra og forráðamenn unglinga í 10. bekk til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskólanna. Í bréfi samtakanna til foreldra og forráðamanna er sérstaklega bent á kosti starfsnáms, sem veitir ungu fólki möguleika á að starfa sjálfstætt og afla sér góðra tekna í framtíðinni. Sjá nánar hér á vef Samtaka atvinnulífsins.
27. febrúar 2015 ESB eykur kröfur um samtengingar raforkukerfa, m.a. með sæstrengjum Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett fram tilmæli til aðildarríkja sambandsins þess efnis að þau efli samtenginar flutningskerfa raforku, m.a. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Árið 2020 er hverju aðildarríki ætlað að búa að flutningsgetu til annarra ríkja á sem svarar a.m.k. 10% allrar raforku sem framleidd er í landinu. Þessari stefnu er m.a. ætlað að efla orkuöryggi og bæta nýtingu raforkukerfa, og minnka þar með þörfina á að auka vinnslugetu raforku með virkjunum eða öðrum raforkuverum. Tólf núverandi aðildarríkja ESB uppfylla ekki þessar kröfur í dag, m.a. Bretland og Írland. Ætla má að þessar kröfur, auk kröfunnar um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa og aukið orkuöryggi, skýri þann áhuga sem bresk stjórnvöld hafa sýnt á tengingu um sæstreng við Ísland o.fl. ríki. Sjá má umfjöllun framkvæmdastjórnar ESB hér á vef hennar.
27. febrúar 2015 Opinn fundur Landsvirkjunar um loftslagsmál Landsvirkjun býður til opins fundar um loftslagsmàl og ábyrgð fyrirtækja, í Gamla bíó miðvikudaginn 4. mars kl 14-17. Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.
20. febrúar 2015 Stór erlend fjárfesting í óvissu vegna takmarkana í flutningskerfinu Raforkuþörf Eyjafjarðar er um 100 megavött (MW) í dag og fer vaxandi. Framleidd eru 8 MW á svæðinu og nauðsyn flutnings raforku á svæðið er æpandi, sagði Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð, á aðalfundi Samorku. Bjarni greindi m.a. frá erlendum aðila sem óskar eftir 10 MW í atvinnuskapandi fjárfestingu í Dalvíkurbyggð, sem skapa myndi um 120 ný störf og umtalsverðar tekjur fyrir sveitarfélagið og þjóðfélagið í heild. Óvissa er um verkefnið vegna takmarkana í flutningskerfi raforku. Værukærir stjórnmálamenn sofa á verðinum Bjarni sagði öfgahópa ekki mega stöðva uppbyggingu flutningskerfis raforku. Værukærir stjórnmálamenn, sveitarstjórnarfólk og hagsmunaaðilar væru sofandi á verðinum. Eyfirðingar og nærsveitafólk, sveitarstjórnarfólk, alþingismenn, embættisfólk, hagsmunaaðilar og landeigendur yrðu að leysa þetta mál sem þyldi enga bið. Sjá erindi Bjarna Th.
20. febrúar 2015 Gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum í Fjarðabyggð gert að búa við eitt lakasta afhendingaröryggi raforku á landinu Stórum orkunotendum og gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum í Fjarðarbyggð er gert að búa við eitt lakasta afhendingaröryggi raforku í landinu. Þetta kom fram í erindi Páls Björgvins Guðmundssonar, bæjarstjóra Fjarðabyggðar í erindi hans á aðalfundi Samorku. Auk þess kom fram í máli Páls að mögulega sé stefnt í uppnám þeirri uppbyggingu og atvinnuþróun sem vænta mátti á Austurlandi, samfara uppbyggingu stóriðju. Einnig sé framþróun í sjávarútvegi, m.a með rafvæðingu, ógnað. Sjá nánar í erindi Páls.