Traustur rekstur og sterkari fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur

Hagræðing í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur og umfangsmiklar ráðstafanir, sem stjórn fyrirtækisins og eigendur þess (Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð), samþykktu á árinu 2011 hafa skilað mun meiri og skjótari árangri en gert var ráð fyrir þá. Rekstrarhagnaður ársins 2013 var 17,2 milljarðar króna, skuldir lækkuðu um tæpa 40 milljarða og eigið fé jókst um rúma 20 milljarða króna á árinu. Frekari upplýsingar um ársreikning Orkuveitu Reykjavíkur árið 2013 má finna á heimasíðu Orkuveitunnar.

Knýjandi þörf á stefnumótun stjórnvalda í jarðstrengjamálum

Á meðan niðurstaða fæst ekki í stefnumótun í jarðstrengjamálum er þess ekki að vænta að frekari uppbygging hefjist á næstunni í meginflutningskerfis raforku á Íslandi. Brýnt er því að stjórnvöld marki sem allra fyrst stefnu sem Landsnet getur haft að leiðarljósi í þessu mikilvæga máli, því rekstur raforkukerfisins er orðinn óviðunandi og aðgangur að öruggri raforku háður búsetu.

Þetta er meðal þess sem fram kom á almennum kynningarfundi sem fram fór samhliða aðalfundi Landsnets. Sjá nánar á heimasíðu Landsnets.

Vatn og orka – Dagur vatnsins 2014

Grein Sigurjóns N. Kjærnested í Bændablaðinu

Á laugardaginn næstkomandi, 22. mars, verður haldinn hátíðlegur alþjóðlegur dagur vatnsins, en haldið er upp á hann á hverju ári um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi vatnsauðlindarinnar og sjálfbærri nýtingu hennar.  Í ár er þema dagsins „ vatn og orka“,  með áherslu á mikilvægi vatns við flutning og framleiðslu á orku á sjálfbæran hátt. Af þessu tilefni er gagnlegt fyrir okkur Íslendinga að horfa yfir sviðið og meta hvar við stöndum í þessum málum, sérstaklega í ljósi þess að undanfarin ár hefur talsvert borið á gagnrýni á nýtingu orkuauðlinda hérlendis.  Öll málefnaleg gagnrýni á auðvitað rétt á sér og getur veitt hollt aðhald. En hvar stöndum við Íslendingar í þessu samhengi?

Þegar staðreyndirnar eru skoðaðar kemur fljótt og skýrt í ljós að þegar kemur að framleiðslu og flutningi orku á sjálfbæran hátt erum við á margan hátt í algerum sérflokki. Má þar t.d. skoða hitaveiturnar okkar. Á árinu 2012 var hlutfallsleg skipting húshitunar á Íslandi þannig að rúm 89% nýttrar orku var í formi jarðhita og 10% með rafmagni, þ.e. yfir 99% af orku nýttrar til húshitunar á Íslandi var í formi endurnýjanlegrar orku. Árið 1970 var þetta sama hlutfall um 53% með olíu, 5% með rafmagni og 42% með jarðhita.  Jákvæðar afleiðingar þessarar þróunar eru m.a. gríðarlegur gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðina, lægri kostnaður heimila vegna húshitunar og mun minni losun á gróðurhúsalofttegundum.

Það sem hefur verið umdeildara en nýting jarðvarmaorku til húshitunar er virkjun hennar og vatnsafls til rafmagnsframleiðslu. Þrátt fyrir að kannanir sýni að mikill meirihluti landsmanna sé fylgjandi nýtingu bæði vatnsaflsins og jarðvarmans, þá hefur gagnrýni á nýtingu þeirra á tíðum verið áberandi, sérlega í fjölmiðlum. Þess vegna er svo áhugavert að skoða hvernig haldið er upp á dag vatnsins á alþjóðavettvangi. Á þessu ári sameinast alþjóðlegar stofnanir, stjórnvöld, fyrirtæki og umhverfisverndarsamtök víða um heim í þeirri viðleitni að vekja athygli á og styðja við flutning og framleiðslu á orku með vatni, á sjálfbæran hátt. Sem er nákvæmlega það sem við gerum hér á landi og þar sem við stöndum svo framarlega.  Staðreyndirnar tala sýnu máli:

  • Við nánast alla rafmagnsframleiðslu hér á landi er notast við endurnýjanlegar orkuauðlindir. Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarframleiðslu rafmagns, sem Evrópuþjóðir berjast við að ná upp í 20%, er nánast 100% hjá okkur.
  • Yfir 85% frumorkunotkunar á Íslandi er endurnýjanleg orka – og þá er tekið tillit til allrar orkunotkunar í hvaða formi sem er. Þessi tala mun svo með tímanum breytast til batnaðar, með aukinni notkun raforku í samgöngum.
  • Íslensk orkufyrirtæki eru í fremstu röð í heiminum þegar kemur að sjálfbærri nýtingu vatnsaflsins. Má þar nefna sem dæmi nýlega úttekt á rekstri Blöndustöðvar Landsvirkjunar, sem unnin var af erlendum sérfræðingum samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Þar kom í ljós að m.t.t. sjálfbærrar nýtingar er Blönduvirkjun framúrskarandi – í raun með einn hæsta árangur í slíktri úttekt sem um getur.
  • Þegar kemur að því að nýta jarðvarmaorku á sjálfbæran hátt standa fáir – ef nokkrir – okkur framar. Við erum t.d. frumkvöðlar þegar kemur að líkanagerð, niðurdælingu og heildstæðri nálgun að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Einnig er vert að minnast á innlend rannsóknarverkefni sem eru einstök í heiminum, eins og t.d. SulFix verkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og HS Orku þar sem unnið er að því farga brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun með hagkvæmum, árangursríkum og umhverfisvænum hætti.

Í kynningu á degi vatnins 2014 á heimasíðu  UN Water, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sér um öll ferskvatns tengd verkefni þar, eru sýndar þrjár myndir og er ein af þeim frá Íslandi, af Nesjavallavirkjun. Væntanlega hafa sérfræðingarnir að baki kynningu UN Water ekki hugsað sig tvisvar um að setja mynd af íslenskri jarðvarmavirkjun þar. Þegar kemur að því sem dagur vatnsins í ár snýst um þá erum við Íslendingar í fremstu röð. Það sem meira er, það að við séum til fyrirmyndar í þessum efnum er viðurkennt og óumdeilt á alþjóðavettvangi.

Verum stolt af því sem við gerum vel, verum stolt af vatninu og okkar framúrskarandi veitum og virkjunum.

Landsvirkjun semur við United Silicon

Landsvirkjun  hefur undirritað raforkusölusamning við United Silicon hf. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon mun reisa í Helguvík á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Landsvirkjun og PCC Bakki Silicon undirrita raforkusölusamning

Landsvirkjun og fyrirtækið PCC Bakki Silicon hf hafa undirritað samning um sölu raforku. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem PCC Bakki Silicon áformar að reisa við Bakka við Húsavík. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi snemma á árinu 2017. Verksmiðjan mun framleiða allt að 36 þúsund tonn af kísilmálmi og nota 58MW af afli sem unnið verður með endurnýjanlegum hætti í jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Norræna drykkjarvatnsráðstefnan – Opnað fyrir skráningu

Opnað hefur verið fyrir skráningu á norrænu drykkjarvatnsráðstefnuna, sem haldin verður í níunda skiptið í Helsinki í Finnlandi 2.-4. júní næstkomandi.

Nánari upplýsingar má finna a heimasíðu ráðstefnunnar eða í meðfylgjandi bækling.

Forskráningu lýkur 31. mars og eru þeir sem hafa áhuga á að taka þátt hvattir til að nýta sér hagstæðari kjör sem fylgja henni. Tekin hafa verið frá hótelherbergi fyrir tilvonandi þátttakendur á ráðstefnunni og er hægt að nálgast upplýsingar um þau í meðfylgjandi bækling eða hjá Samorku.

Þess má geta að Samorka tekur þátt í skipulagningu ráðstefnunnar, en fyrir hönd fagsviðs vatnsveitna Samorku
situr Sigurjón N. Kjærnested í skipulagsnefnd fyrir ráðstefnuna.

 

Ársfundur SvensktVatten 2014

Ársfundur SvensktVatten, sænsku vatns- og fráveitusamtakanna, árið 2014 fer fram 13.-14. maí næstkomandi í borginni Jönköping.

Dagskrá fundarins í ár einkennist af því að kosningaár er í Svíþjóð og því verða tekin fyrir ýmis mál sem tengast aðkomu stjórnvalda að vatns- og fráveitumálum.

Frekari upplýsingar um fundinn og skráningu má finna á heimasíðu samtakanna.

Búðarhálsstöð gangsett

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Íslendinga, hefur verið gangsett. Stöðin er staðsett á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og verður rekin samhliða öðrum aflstöðvum Landsvirkjunar á svæðinu. Uppsett afl hennar er 95 MW og hún framleiðir um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.