Vatn og orka – Dagur vatnsins 2014

Grein Sigurjóns N. Kjærnested í Bændablaðinu

Á laugardaginn næstkomandi, 22. mars, verður haldinn hátíðlegur alþjóðlegur dagur vatnsins, en haldið er upp á hann á hverju ári um heim allan í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi vatnsauðlindarinnar og sjálfbærri nýtingu hennar.  Í ár er þema dagsins „ vatn og orka“,  með áherslu á mikilvægi vatns við flutning og framleiðslu á orku á sjálfbæran hátt. Af þessu tilefni er gagnlegt fyrir okkur Íslendinga að horfa yfir sviðið og meta hvar við stöndum í þessum málum, sérstaklega í ljósi þess að undanfarin ár hefur talsvert borið á gagnrýni á nýtingu orkuauðlinda hérlendis.  Öll málefnaleg gagnrýni á auðvitað rétt á sér og getur veitt hollt aðhald. En hvar stöndum við Íslendingar í þessu samhengi?

Þegar staðreyndirnar eru skoðaðar kemur fljótt og skýrt í ljós að þegar kemur að framleiðslu og flutningi orku á sjálfbæran hátt erum við á margan hátt í algerum sérflokki. Má þar t.d. skoða hitaveiturnar okkar. Á árinu 2012 var hlutfallsleg skipting húshitunar á Íslandi þannig að rúm 89% nýttrar orku var í formi jarðhita og 10% með rafmagni, þ.e. yfir 99% af orku nýttrar til húshitunar á Íslandi var í formi endurnýjanlegrar orku. Árið 1970 var þetta sama hlutfall um 53% með olíu, 5% með rafmagni og 42% með jarðhita.  Jákvæðar afleiðingar þessarar þróunar eru m.a. gríðarlegur gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðina, lægri kostnaður heimila vegna húshitunar og mun minni losun á gróðurhúsalofttegundum.

Það sem hefur verið umdeildara en nýting jarðvarmaorku til húshitunar er virkjun hennar og vatnsafls til rafmagnsframleiðslu. Þrátt fyrir að kannanir sýni að mikill meirihluti landsmanna sé fylgjandi nýtingu bæði vatnsaflsins og jarðvarmans, þá hefur gagnrýni á nýtingu þeirra á tíðum verið áberandi, sérlega í fjölmiðlum. Þess vegna er svo áhugavert að skoða hvernig haldið er upp á dag vatnsins á alþjóðavettvangi. Á þessu ári sameinast alþjóðlegar stofnanir, stjórnvöld, fyrirtæki og umhverfisverndarsamtök víða um heim í þeirri viðleitni að vekja athygli á og styðja við flutning og framleiðslu á orku með vatni, á sjálfbæran hátt. Sem er nákvæmlega það sem við gerum hér á landi og þar sem við stöndum svo framarlega.  Staðreyndirnar tala sýnu máli:

  • Við nánast alla rafmagnsframleiðslu hér á landi er notast við endurnýjanlegar orkuauðlindir. Hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarframleiðslu rafmagns, sem Evrópuþjóðir berjast við að ná upp í 20%, er nánast 100% hjá okkur.
  • Yfir 85% frumorkunotkunar á Íslandi er endurnýjanleg orka – og þá er tekið tillit til allrar orkunotkunar í hvaða formi sem er. Þessi tala mun svo með tímanum breytast til batnaðar, með aukinni notkun raforku í samgöngum.
  • Íslensk orkufyrirtæki eru í fremstu röð í heiminum þegar kemur að sjálfbærri nýtingu vatnsaflsins. Má þar nefna sem dæmi nýlega úttekt á rekstri Blöndustöðvar Landsvirkjunar, sem unnin var af erlendum sérfræðingum samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana. Þar kom í ljós að m.t.t. sjálfbærrar nýtingar er Blönduvirkjun framúrskarandi – í raun með einn hæsta árangur í slíktri úttekt sem um getur.
  • Þegar kemur að því að nýta jarðvarmaorku á sjálfbæran hátt standa fáir – ef nokkrir – okkur framar. Við erum t.d. frumkvöðlar þegar kemur að líkanagerð, niðurdælingu og heildstæðri nálgun að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Einnig er vert að minnast á innlend rannsóknarverkefni sem eru einstök í heiminum, eins og t.d. SulFix verkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og HS Orku þar sem unnið er að því farga brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun með hagkvæmum, árangursríkum og umhverfisvænum hætti.

Í kynningu á degi vatnins 2014 á heimasíðu  UN Water, sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sér um öll ferskvatns tengd verkefni þar, eru sýndar þrjár myndir og er ein af þeim frá Íslandi, af Nesjavallavirkjun. Væntanlega hafa sérfræðingarnir að baki kynningu UN Water ekki hugsað sig tvisvar um að setja mynd af íslenskri jarðvarmavirkjun þar. Þegar kemur að því sem dagur vatnsins í ár snýst um þá erum við Íslendingar í fremstu röð. Það sem meira er, það að við séum til fyrirmyndar í þessum efnum er viðurkennt og óumdeilt á alþjóðavettvangi.

Verum stolt af því sem við gerum vel, verum stolt af vatninu og okkar framúrskarandi veitum og virkjunum.