Horfur á stórauknum arðgreiðslum Landsvirkjunar

Fjárhagsstaða Landsvirkjunar hefur styrkst mikið undanfarin ár og að óbreyttu ætti fyrirtækið að geta greitt 10-20 milljarða króna á ári í arð til eiganda síns, íslenska ríkisins, innan fárra ára. Sú upphæð gæti þó orðið mun hærri við breyttar forsendur, t.d. með tilkomu sæstrengs til Evrópu. Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á ársfundi fyrirtækisins í Hörpu á 50 ára afmælisári þess. Erindi Harðar má nálgast hér á vef Landsvirkjunar, og upptökur af öllum fundinum og erindi hans er að finna hér, m.a. ávarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann fjallaði um stofnun sérstaks orkuauðlindasjóðs.

Varaafl og snjallnet á Vestfjörðum

Tekin hafa verið í notkun ný varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða í Bolungarvík og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði, sem er samheiti yfir ýmsar tækninýjungar á sviði flutnings og dreifingar raforku á svæðinu. Þessar framkvæmdir og nýjungar hafa í för með sér að svonefndur straumleysistími styttist til muna og raforkuöryggi Vestfjarða eflist. Aukin raforkuframleiðsla á svæðinu er þó enn talin forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar. Sjá nánar á vef Landsnets.

Námskeið Set ehf. HEF & Samorku á Egilsstöðum 11.-12. maí

Set ehf, í samstarfi við Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Samorku, mun dagana 11.-12. maí halda námskeið á Egilsstöðum. Á námskeiðinu verður á einum degi farið yfir samsetningu og frágang á einangrun hitaveituröra, og á öðrum degi farið yfir samsuðu á PE plaströrum, þ.e. spegilsuðu, rafsuðu og þráðsuðu.

Kostnaður við þátttöku er 24.000 kr. fyrir hvern þátttakanda. Takmarkaður fjöldi er á námskeiðið og fer skráning þátttakenda fram hjá Samorku í netfangið the@samorka.is og í síma 588 4430. Við vekjum athygli á því að samskonar námskeið verður einnig haldið í haust, þá bæði í samstarfi við Norðurorku á Akureyri og á suðvesturhorninu.

Opinn ársfundur Landsvirkjunar 5. maí

Landsvirkjun heldur opinn ársfund á 50. afmælisári sínu þriðjudaginn 5. maí í Hörpu. Ársskýrsla fyrirtækisins fyrir árið 2014 er komin á netið, en þar má nálgast ýmsar upplýsingar á mjög aðgengilegan hátt. m.a. í myndböndum og skýringarmyndum, t.d. umfjöllun um ferli rammaáætlunar og um sæstrengsverkefnið. Fram kemur m.a. að eftirspurn eftir raforku á Íslandi fer vaxandi og framtíðarspár benda til að á næstu árum muni hún aukast enn frekar. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Græn orka og ferðamenn

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Græn orka og ferðamenn

Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á Íslandi undanfarin ár. Íslensk orkufyrirtæki fara ekki varhluta af því, enda heimsækja nú á annað hundrað þúsund manns íslenskar virkjanir og tengd mannvirki á ári hverju. Er þá ekki vísað til tengdra mannvirkja á borð við Bláa lónið, Perluna eða Jarðböðin við Mývatn, sem eru gríðarlega vinsælir viðkomustaðir ferðamanna og grundvallast alfarið á nýtingu grænnar orku. Aðgangur að hálendi Íslands grundvallast jafnframt að stóru leyti á vegagerð sem tengist nýtingu grænnar orku.

Náttúra Íslands hefur mikið aðdráttarafl og oft er vísað til könnunar Ferðamálastofu þar sem 80% aðspurðra ferðamanna segja íslenska náttúru hafa haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra um að ferðast til Íslands. Hægt er að velja nokkur svör við þessari spurningu og þannig nefnir t.d. 41% svarenda íslenska menningu og sögu, 17% nefna lágt flugfargjald o.s.frv., líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Samtala svarhlutfalla er þannig ekki 100%, heldur 209%. Samorka hefur óskað eftir því að Ferðamálastofa bæti svarmöguleika við þessa spurningu: grænni orku.

Hluti af ímynd landsins
Íslenskt orkukerfi er algerlega einstakt í veröldinni og græna orkan mikilvægur hluti af ímynd landsins, enda henni gjarnan tjaldað til í hvers kyns landkynningarefni. Hér byggist svo gott sem öll raforkunotkun og húshitun á grænum, endurnýjanlegum orkugjöfum, á meðan flest önnur lönd þurfa að stærstum hluta að treysta á brennslu jarðefnaeldsneyta á borð olíu og kol, og/eða á kjarnorku. Að mati Samorku væri því afar fróðlegt að fá fram mælingu á vægi grænu orkunnar, einu helsta sérkenni landsins, við val ferðamanna á Íslandi sem áfangastað.

 

Hvað af eftirfarandi hafði mikil áhrif á ákvörðun þína um að ferðast til Íslands?*

Íslensk náttúra 80%
Íslensk menning/saga 41%
Gott tilboð/lágt flugfargjald 17%
Möguleikinn á viðkomu á Íslandi 14%
Vinir/ættingjar á Íslandi  13%
Dekur og vellíðan 12%
Sérstakur viðburður á Íslandi  10%
…og 6 svarmöguleikar til viðbótar
Samtals 209%

* Úr könnun Ferðamálastofu

 

Skráning hafin á Fagfund hita-, vatns- og fráveitna

Skráning er hafin á Fagfund Samorku, sem verður haldinn á Hótel Borgarnesi dagana 28. og 29. maí næstkomandi. Að þessu sinni verður fjallað um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað verður um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi orku- og veitufyrirtækja o.fl.

Framkvæmdir hefjast við Þeistareykjavirkjun

Landsvirkjun hefur undirritað samning við verktaka um byggingu stöðvarhúss Þeistareykjavirkjunar og veitna. Gert er ráð fyrir 45 MW virkjunaráfanga í fyrsta skrefi varfærinnar uppbyggingar á sjálfbærri jarðvarmavinnslu á svæðinu. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljörðum króna, en þegar mest verður á framkvæmdatímabilinu munu hátt í 200 starfsmenn verða við vinnu á svæðinu. Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Nýjar áherslur í starfsemi Landsnets

Landsnet er að taka upp breytt verklag með skýrari sýn á samfélagsábyrgð fyrirtækisins sem felst m.a. í enn meira samráði á fyrstu stigum fyrirhugaðra framkvæmda og stofnun þverfaglegra samráðshópa. Nýjar áherslur Landsnets voru kynntar á vorfundi fyrirtækisins. Nauðsynleg uppbygging flutningskerfisins var m.a. til umfjöllunar en áætlað er að fjárhagslegt tap þjóðarinnar hlaupi á 3-10 milljörðum króna á ári vegna annmarka á flutningskerfinu, og fari vaxandi. Felst þetta tap m.a. í takmörkunum á nýtingu virkjana, hlutfallslegu miklum orkutöpum í kerfinu og skerðingum á afhendingu raforku vegna flutningstakmarkana. Sjá nánar um nýjar áherslur Landsnets hér á vef fyrirtækisins.

Málþing VAFRÍ um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum

Vatns- og fráveitufélag Íslands (VAFRÍ) býður til opins málþings um fráveitulausnir á viðkvæmum svæðum og er áherslan á fráveitumál við Þingvallavatn. Málþingið er haldið í samstarfi við Samorku, Háskóla Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur, Umhverfisstofnun, Ferðamálastofu og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.

 

Tilgangur málþingsins er að fara yfir stöðu mála og fá fram upplýsingar um hvaða lausnir eru í boði og hafa verið notaðar við svipaðar aðstæður og við Þingvallavatn. Einn reyndasti sérfræðingur Norðmanna á sviði óhefðbundna skólplausna, prófessor Petter D. Jenssen, mun kynna mögulegar lausnir fyrir dreifbýli og viðkvæm svæði, og deila reynslu sinni og nágrannalanda af slíkum lausnum. Einnig verða kynningar um bakgrunnsrannsóknir á Þingvallavatni og nýjar rannsóknir nemenda Háskóla Íslands á óhefðbundnum skólplausnum.

 

Málþingið verður haldið í sal Orkuveitu Reykjavíkur föstudaginn 8. maí 2015 fyrir hádegi. Nánari dagskrá má finna á heimasíðu VAFRÍ