Græn orka og ferðamenn

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Græn orka og ferðamenn

Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mjög mikið á Íslandi undanfarin ár. Íslensk orkufyrirtæki fara ekki varhluta af því, enda heimsækja nú á annað hundrað þúsund manns íslenskar virkjanir og tengd mannvirki á ári hverju. Er þá ekki vísað til tengdra mannvirkja á borð við Bláa lónið, Perluna eða Jarðböðin við Mývatn, sem eru gríðarlega vinsælir viðkomustaðir ferðamanna og grundvallast alfarið á nýtingu grænnar orku. Aðgangur að hálendi Íslands grundvallast jafnframt að stóru leyti á vegagerð sem tengist nýtingu grænnar orku.

Náttúra Íslands hefur mikið aðdráttarafl og oft er vísað til könnunar Ferðamálastofu þar sem 80% aðspurðra ferðamanna segja íslenska náttúru hafa haft mikil áhrif á ákvörðun þeirra um að ferðast til Íslands. Hægt er að velja nokkur svör við þessari spurningu og þannig nefnir t.d. 41% svarenda íslenska menningu og sögu, 17% nefna lágt flugfargjald o.s.frv., líkt og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Samtala svarhlutfalla er þannig ekki 100%, heldur 209%. Samorka hefur óskað eftir því að Ferðamálastofa bæti svarmöguleika við þessa spurningu: grænni orku.

Hluti af ímynd landsins
Íslenskt orkukerfi er algerlega einstakt í veröldinni og græna orkan mikilvægur hluti af ímynd landsins, enda henni gjarnan tjaldað til í hvers kyns landkynningarefni. Hér byggist svo gott sem öll raforkunotkun og húshitun á grænum, endurnýjanlegum orkugjöfum, á meðan flest önnur lönd þurfa að stærstum hluta að treysta á brennslu jarðefnaeldsneyta á borð olíu og kol, og/eða á kjarnorku. Að mati Samorku væri því afar fróðlegt að fá fram mælingu á vægi grænu orkunnar, einu helsta sérkenni landsins, við val ferðamanna á Íslandi sem áfangastað.

 

Hvað af eftirfarandi hafði mikil áhrif á ákvörðun þína um að ferðast til Íslands?*

Íslensk náttúra 80%
Íslensk menning/saga 41%
Gott tilboð/lágt flugfargjald 17%
Möguleikinn á viðkomu á Íslandi 14%
Vinir/ættingjar á Íslandi  13%
Dekur og vellíðan 12%
Sérstakur viðburður á Íslandi  10%
…og 6 svarmöguleikar til viðbótar
Samtals 209%

* Úr könnun Ferðamálastofu