Landsvirkjun 50 ára – gagnvirk sýning opnar í Ljósafossstöð

Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965 og nú fagnar fyrirtækið því 50 ára afmæli. Líkt og fram kemur á vef fyrirtækisins var stofnun þess tengd byggingu Búrfellsstöðvar, sem var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar á þeim tíma og lagði hún grunn að nýjum iðnaði í landinu sem leiddi af sér aukna verkþekkingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi. Landsvirkjun starfrækir í dag fjórtán vatnsaflsstöðvar og tvær jarðvarmastöðvar á fimm starfssvæðum. Þá er í byggingu jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum auk þess sem rannsóknarverkefni stendur yfir með tvær vindmyllur á Hafinu norðan við Búrfell. Landsvirkjun hefur m.a. fagnað afmælinu með opnum fundum og síðar í sumar mun fyrirtækið setja upp gagnvirka sýningu um orku og endurnýjanlega orkugjafa í Ljósafossstöð. Sjá nánar um 50 ára afmælisár Landsvirkjunar hér á vef fyrirtækisins.

ESB-ríkin með 15% hlut endurnýjanlegrar orku, Ísland með 76%

Hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í endanlegri orkunotkun aðildarríkja ESB var að meðaltali 15,3% árið 2014, samkvæmt nýbirtum tölum frá framkvæmdastjórn ESB. Flest aðildarríkin virðast vera á góðri leið með að ná markmiði sambandsins um 20% meðalatal árið 2020. Meðal aðildarríkja er hlutfallið lang hæst í Svíþjóð, 51,1%, en þar næst koma Lettland með 35,8% og Finnland með 34,5%. Lægst er hlutfallið á Möltu, 2,7%, en í Lúxemborg, Bretlandi og Hollandi er hlutfallið einnig undir 5%. Öll eiga þessi ríki langt í langt með að ná sínum markmiðum fyrir árið 2020.

Til samanburðar má geta þess að á Íslandi er þetta hlutfall 76%. Á Íslandi eru 99,9% allrar raforku framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum sem og um 99% allrar orku til húshitunar. Hins vegar flytjum við inn talsvert af jarðefnaeldsneyti, einkum til notkunar í samgöngum og sjávarútvegi.

Sjá tölur framkvæmdastjórnar ESB um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í aðildarríkjunum.

Erindi Fagfundar veitusviðs Samorku

Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti.

Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.

#orkakvenna

Orkuveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur taka þátt í hátíðarhöldum vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Þau hafa ákveðið að blása til ljósmyndasamkeppni á Instagram fyrir ungt fólk á aldrinum 13 til 20 ára undir myllumerkinu #orkakvenna. Tilgangurinn er að vekja áhuga ungs fólks, sérstaklega kvenna, á iðnmenntun og iðnnámi og útrýma hugmyndum um staðalímyndir þegar kemur að vinnumarkaðnum en einnig til að vekja athygli á jafnréttisstefnu fyrirtækjanna.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðunni: www.orkakvenna.is, sem hefur verið opnuð til að halda utan um jafnréttisstarfið, en þar birtast einnig Instagram myndirnar.