Landsvirkjun 50 ára – gagnvirk sýning opnar í Ljósafossstöð

Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965 og nú fagnar fyrirtækið því 50 ára afmæli. Líkt og fram kemur á vef fyrirtækisins var stofnun þess tengd byggingu Búrfellsstöðvar, sem var stærsta framkvæmd Íslandssögunnar á þeim tíma og lagði hún grunn að nýjum iðnaði í landinu sem leiddi af sér aukna verkþekkingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi. Landsvirkjun starfrækir í dag fjórtán vatnsaflsstöðvar og tvær jarðvarmastöðvar á fimm starfssvæðum. Þá er í byggingu jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum auk þess sem rannsóknarverkefni stendur yfir með tvær vindmyllur á Hafinu norðan við Búrfell. Landsvirkjun hefur m.a. fagnað afmælinu með opnum fundum og síðar í sumar mun fyrirtækið setja upp gagnvirka sýningu um orku og endurnýjanlega orkugjafa í Ljósafossstöð. Sjá nánar um 50 ára afmælisár Landsvirkjunar hér á vef fyrirtækisins.