1. júní 2016 Flutningsgjald raforku á Íslandi til stórnotenda undir meðaltali Flutningsgjald á raforku til stórnotenda á Íslandi er undir meðaltali í Evrópu, eða rúmar fimm evrur á megavattstund (MWst). Meðaltalið er rúmlega sjö evrur á megavattstund (MWst). Hæstu flutningsgjöldin eru á Kýpur, eða rúmar 16 evrur. Þetta kemur fram í nýjustu tölum Evrópusamtaka flutningsfyrirtækja, ENTSOE-E. Að mati Samorku er þetta vel ásættanleg staða, sérstaklega í ljósi þess að landið er strjálbýlt og línuleiðir víða krefjandi. Eftirspurnin eftir raforku er meiri en framboðið hérlendis. Ísland er langt undir meðaltali þegar skoðað er hlutfall kerfisþjónustu af flutningsgjaldinu. Hér á landi eru hlutfallið tæplega 5% en meðaltalið í öllum samanburðarhópnum er rúmlega 30%. Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem innt er af hendi til að tryggja gæði raforku og öruggan rekstur flutnings- og dreifikerfis.
26. maí 2016 Þrengt að orkuöryggi úr öllum áttum Orkuöryggi var lykilhugtakið í ræðu Helga Jóhannessonar, formanns Samorku, við upphaf um 150 manna fagfundar samtakanna í Reykjavík í dag. Helgi vakti m.a. athygli á því að stöndug iðnfyrirtæki á Norðurlandi geti ekki stækkað starfsemi sína og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ekki skipt úr olíubræðslu í vistvæna raforku. Þá ræddi hann skerðingar í raforkuafhendingu, vaxandi eftirspurn eftir raforku en lítið framboð og sagði suma af hagkvæmustu virkjanakostunum hafna í verndarflokki rammaáætlunar. Helgi sagði óljóst hver ef nokkur bæri ábyrgð á að landsmenn fái ávallt nægt rafmagn til almennra heimilisnota, eða að þörfum atvinnulífsins væri sinnt: „Við upplifum mikla eftirspurn eftir raforku en lítið framboð sem enginn vaktar. Flutningskerfi í knýjandi uppbyggingarþörf sem erfitt er að fá heimildir til að mæta. Og ferli rammaáætlunar sem horfir ekki til hagkvæmnissjónarmiða og samfélagslegra áhrifa, eins og lögin kveða þó skýrt á um að þar beri að gera. Orkuöryggi er nauðsynleg grunnstoð hvers þjóðfélags. Hér á landi þrengir að því úr ýmsum áttum og við ræðum hugtakið orkuöryggi sjaldan eða aldrei eitt og sér á eigin forsendum. Því þarf að breyta“ sagði Helgi m.a.
25. maí 2016 Fagfundur raforkumála færður til Reykjavíkur Fagfundur raforkumála, sem halda átti á Ísafirði dagana 26. og 27. maí, hefur verið færður til Reykjavíkur vegna slæmra horfa með flugsamgöngur. Fundurinn verður á Grand Hótel Reykjavík og hefst dagskráin með skráningu kl. 13:45 fimmtudaginn 26. maí. Fundarammann má sjá hér að neðan en fulla dagskrá fundarins má skoða hér. Fimmtudagur, 26. maí: 13.30-14.00 Skráning 14.00-16.00 Fundur 16.00-16.30 Kaffihlé 16.30-19.00 Fundur 19.00- Kvöldverður í salnum framan við Gullteig, standandi boð Föstudagur, 27. maí: Fundur 9-17, sjá dagskrá. Þeir sem hyggjast afboða sig eða breyta skráningu sinni vinsamlegast hafið samband við Guðfinn, gudfinnur@samorka.is.
17. maí 2016 Rafmagnið ódýrast á Íslandi Rafmagnsreikningur íslenskra heimila er sá langlægsti í Vestur-Evrópu, eða um 6.200 krónur á mánuði sé miðað við dæmigert heimili. Til samanburðar má nefna að sambærilegt danskt heimili greiðir 14.800 krónur á mánuði. Sé miðað við lönd innan EES greiða heimili í Búlgaríu og Ungverjalandi lægri reikning en á Íslandi og í Litháen er hann jafnhár. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat fyrir árið 2015 og miðast við heildarreikning, þ.e. raforku, skatta, flutning og dreifingu. Sé rafmagnreikningurinn sundurliðaður má sjá að skattar á raforkunotkun eru með lægsta móti hérlendis. Athygli vekur að í Danmörku, þar sem skattar eru hæstir á raforkunotkun, er oft um að ræða skatta á brennslu jarðefnaeldsneyta. Þeir eru svo nýttir til niðurgreiðslu á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hér á landi eru engar slíkar niðurgreiðslur til staðar, enda öll raforkuvinnsla byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Kostnaður við flutning og dreifingu raforku á Íslandi er nálægt meðaltalskostnaði í Evrópu, þrátt fyrir strjálbýli og krefjandi línuleiðir víða. Dæmigert íslenskt heimili borgar 3.100 krónur á mánuði fyrir flutning og dreifingu raforku á meðan sambærilegt evrópskt heimili greiðir til þess 2.600 krónur. Norðmenn búa nú við ódýrustu raforkuna, sem er breyting frá því sem verið hefur og skýrist meðal annars af gengi norsku krónunnar, sem veiktist töluvert árið 2015. Íslendingar borga næstminnst fyrir raforku.
13. maí 2016 Hvatning til aðildarfélaga frá stjórn Samorku Nokkur umræða hefur að undanförnu verið um dæmi þess að atvinnurekendur virði ekki kjarasamnings- og lögbundin réttindi starfsfólks, sér í lagi þegar í hlut á erlent starfsfólk sem er hér við störf vegna tímabundinna verkefna. Stjórn Samorku hvetur öll aðildarfyrirtæki samtakanna til að tryggja að í verksamningum og samningum við birgja séu ákvæði sem geri verkkaupum kleift að grípa til aðgerða ef í ljós kemur að verktakar, undirverktakar eða birgjar virði ekki í hvívetna ákvæði kjarasamninga og vinnumarkaðslöggjafar. Engum á að líðast slík framkoma og undirboð á íslenskum vinnumarkaði.
13. maí 2016 Landsvirkjun semur við Norðurál – raforkuverðið aftengt álverði Landsvirkjun og Norðurál hafa náð samkomulagi um að endurnýja raforkusamning fyrirtækjanna fyrir 161 MW. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember 2019 og er tengdur við markaðsverð á NordPool raforkumarkaðnum. Kemur sú tenging í stað álverðstengingar í gildandi samningi. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.
12. maí 2016 Skráning hafin á Norrænu vatnsveituráðstefnuna Norræna vatnsveituráðstefnan 2016 verður haldin í Hörpu í Reykjavík dagana 28. – 30. september. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni. Metnaðarfull dagskrá verður í boði með alls 90 erindum sem fjalla um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Ráðstefnan fer fram á ensku. Skráning er hafin á heimasíðu ráðstefnunnar, ndwc.is.
11. maí 2016 Landsvirkjun og Thorsil gera rafmagnssamning Landsvirkjun og Thorsil hafa skrifað undir samning um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík í Reykjanesbæ. Um er að ræða allt að 55 megavött af afli eða sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Afhending hefst árið 2018 þegar ráðgert er að gangsetja kísilverið. Orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Sem kunnugt er hefur fyrirtækið nú tvær virkjanir í byggingu, stækkun Búrfellsvirkjunar og jarðvarmavirkjun að Þeistareykjum. Meira á síðu Landsvirkjunar.
3. maí 2016 Íslenskar jarðvísindakonur heiðraðar Hrefna Kristmannsdóttir og Ragna Karlsdóttir hlutu á dögunum brautryðjendaverðlaun alþjóðasamtakanna Women in Geothermal, WING, fyrir framlag sitt til útbreiðslu jarðhitanotkunar í heiminum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti þeim verðlaunin í móttöku samtakanna á jarðhitaráðstefnunni Iceland Geothermal Conference, sem fram fór í Reykjavík dagana 26. -28. apríl. Hrefna var fyrsta íslenska konan til að ljúka doktorsprófi í jarðfræði. Það gerði hún frá Oslóarháskóla árið 1970. Hún átti langan starfsferil sem jarðefnafræðingur á Orkustofnun og átti þátt í að þróa efnafræðilegar aðferðir við mat á jarðhitaholum sem nú er beitt við allar slíkar boranir. Hrefna hefur verið mikilvirk á vísindasviðinu og skrifað um 100 greinar sem birst hafa í vísindatímaritum. Ragna Karlsdóttir er jarðeðlisfræðingur sem einnig starfaði lengi hjá Orkustofnun og nú síðari ár hjá ÍSOR. Þar hóf hún störf árið 1970 og hefur komið að rannsóknum, líkanagerð og auðlindamati á öllum þeim háhitasvæðum sem nýtt eru hér á landi og flestum lághitasvæðunum með einhverjum hætti. Báðar hafa þær Ragna og Hrefna komið að starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, sem rekinn er hér á landi. WING eru samtök sem hvetja til framgangs kvenna innan jarðhitageirans, styðja við konur sem þar starfa og leitast við að gera störf þeirra á þeim vettvangi sýnilegri. Samtökin voru stofnuð 2013. Móttaka WING var haldin í félagi við Konur í orkumálum, sem eru samtök kvenna sem starfa við orkumál á Íslandi. Þau samtök eru líka ný af nálinni. Auk iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði Andrea Blair, forseti WING, samkomuna.
2. maí 2016 Ísland án jarðhita? Ísland án jarðhita? Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Margfalt hærri reikningur fyrir húshitun. Engin snjóbræðsla í gangstéttum, gervigrasvöllum, eða bílastæðum. Engar knattspyrnuhallir. Miklu dýrara innlent grænmeti og/eða afar lítil innlend grænmetisframleiðsla. Fáar sundlaugar og litlar. Langar sturtuferðir mikill lúxus. Gluggar lítið opnaðir á veturna. Margfalt fleiri olíutankar. Margföld losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi. Um 700 manns frá 46 löndum sóttu nýafstaðna ráðstefnu jarðhitaklasans í Hörpu, þar sem sumt af framangreindu kom fram þegar fyrirlesarar reyndu að sjá fyrir sér Ísland án nýtingar jarðhitaauðlindarinnar. Ljóst er að lífskjör væru hér mun lakari í hefðbundnum efnahagslegum skilningi. Hið sama má segja um ýmis lífsgæði sem okkur þykja sjálfsögð í dag. Einn Landsspítali á ári Saga jarðhitanýtingar til húshitunar nær yfir 100 ár hérlendis. Mikið átak var gert í uppbyggingu hitaveitna í kjölfar olíukreppunnar snemma á áttunda áratugnum, en þá var olía víða notuð við húshitun hérlendis. Samanburðurinn við olíu er þess vegna áhugaverður. Ef við værum almennt að nýta olíu til húshitunar í dag, í stað jarðhitans, þyrfti að flytja hér inn olíu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Það er vel ríflega nýr Landsspítali. Á hverju ári. Að auki værum við í stað grænnar orkunýtingar að losa gróðurhúsalofttegundir á við alla losun Kaupmannahafnar og helmingi betur. Milljón á ári per heimili Ef við horfum á tölurnar út frá beinum kostnaði hvers heimilis, að frádregnum dæmigerðum húshitunarkostnaði hérlendis, væri viðbótarkostnaðurinn um ein milljón króna á ári á dæmigert heimili. Milljón á ári. Tölurnar hér að framan miðast við þá forsendu að við værum að nýta jafn mikla orku með brennslu olíu og jarðhitinn skilar okkur í dag. Auðvitað er sú forsenda umdeilanleg. Við myndum áreiðanlega nota miklu minni orku, en þó gegn mun hærri kostnaði. Húsin væru ekki jafn hlý. Sturtuferðirnar styttri og jafnvel færri. Knattspyrnulandsliðin okkar ekki að ná sama árangri. Andrúmsloftið mengað af olíureyk. Og lífskjörin verri.