15. nóvember 2018 Óskað eftir erindum á NORDIWA 2019 Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2019, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Helsinki í Finnlandi dagana 23. – 25. september 2019. Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum. Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 23. janúar 2019. Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar. Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál og áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga að senda inn erindi.
14. nóvember 2018 Lægsta hlutfall neysluútgjalda til orku- og veituþjónustu á Íslandi Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu mikið þarf að greiða fyrir þessa þjónustu í nágrannalöndum Íslands og hversu hátt hlutfall það er af neysluútgjöldum. Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi. Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%. Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Heildarkostnað meðalheimilis fyrir orku- og veituþjónustu í höfuðborgum Norðurlandanna má sjá hér fyrir neðan.
13. nóvember 2018 Rafmagn til gagnavers á Blönduósi Björn Brynjúlfsson framvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis og Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ON undirrita samninginn ON og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum. Fremst eru Björn Brynjúlfsson og Berglind Rán Ólafsdóttir. Aftari röð f.v. Elín Smáradóttir, Hjálmar Helgi Rögnvaldsson, Antoine Gaury, Þrándur Sigurjón Ólafsson og Jakob Sigurður Friðriksson Etix Everywhere Borealis hefur rekið gagnaver hér á landi um hríð og vex hratt, en það er í blandaðri eigu íslenskra og erlendra aðila. Fyrirtækið opnaði nýlega gagnaver við Blönduós og er frekari uppbygging fyrirhuguð þar og á Reykjanesi. Í kjölfar aðkomu alþjóðlega gagnaversins Etix Everywhere að Borealis hefur uppbygging aukist til muna. Eitt af samkeppnisforskotum gagnavera á Íslandi eru endurnýjanlegir orkugjafar á borð við jarðvarma og kalt veðurfar sem hentar vel til kælingar. Erlendir viðskiptavinir horfa í auknum mæli á þessa þætti. Gagnaver Etix Everywhere Borealis á Blönduósi
9. nóvember 2018 Landsnet hlýtur gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC Þorkell Guðmundsson frá PwC, Valka Jónsdóttir og Guðmundur Ingi Ásmundsson. Landsnet hlaut í dag gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC. Úttektin segir til um kynbundinn launamun innan fyrirtækisins að teknu tilliti til áhrifaþátta á laun. Gullmerkið hljóta þau fyrirtæki sem eru með minni óútskýrðan launamun en 3,5% en úttektin sýnir 2,8% launamun hjá Landsneti. Gullmerkið hvatning til að gera enn betur Jafnlaunaúttektin er liður í innleiðingu á jafnlaunakerfi hjá Landsneti. Valka Jónsdóttir mannauðsstjóri Landsnet segir að framundan sé vinna við að útrýma þessum launamuna alveg með innleiðingu á jafnlaunakerfi. „Þetta er virkilega góð byrjun á því ferli sem framundan er við innleiðingu á jafnlaunakerfi hjá okkur. Eitt af því sem þarf að vera til staðar við upphaf innleiðingar er greining á launamuni karla og kvenna og nú höfum við fengið þær niðurstöður til að vinna með. Gullmerkið er hvatning fyrir okkur að gera enn betur í þessum málum. “ Markmiðið að útrýma launamuninum Hjá Landsneti starfa 94 karlar og 26 konur og í mörg ár hefur verið unnið eftir jafnréttisstefnu. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu og að framundan sé að útrýma þeim launamun sem fram kom i greiningunni. „Jafnréttismál skipta okkur hjá Landsneti miklu máli og höfum við verið að vinna eftir jafnréttisstefnu sem hefur skilað okkur þessum árangri og nú gullmerkinu sem við fögnum í dag. En við ætlum að gera enn betur og útrýma þessum launamun alveg og það gerum við með því meðal annars að innleiða jafnlaunakerfi og láta votta það“.
6. nóvember 2018 Ný kynslóð jarðhita á GGW2018 Ráðstefna á vegum GEORG, rannsóknarklasa í jarðhita, verður haldin dagana 14. – 15. nóvember á Grand hótel í Reykjavík. Yfirskrift ráðstefnunnar er „New Geothermal Generation“ og á henni verður leitast við að leiða saman aðila í grunnvísindum og iðnaði á sviði jarðhita. Á þessum tveimur dögum verður ítarlega fjallað um jarðhitatengd verkefni, rannsóknum á jarðhita, nýjustu framförum í tækni og margt fleira. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar. Einnig er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.
1. nóvember 2018 Rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðarbúið Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur og kynnt var í Norræna húsinu í morgun. F.v. Auður Nanna Baldvinsdóttir, stjórnarformaður Grænu orkunnar, Berglind Rán Ólafsdóttir, forstjóri ON, Brynhildur Davíðsdóttir, einn skýrsluhöfunda, Sigurður Páll Ólafsson, hagfræðingur á skrifstofu efnahagsmála, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson einn skýrsluhöfunda og Hlynur Stefánsson, einn skýrsluhöfunda taka við spurningum á fundinum í morgun Í greiningunni var stuðst við fjórar mismunandi sviðsmyndir, hver og ein með mismunandi stjórnvaldsaðgerðir sem styðja við rafbílavæðingu og lagt var mat á hvaða leið myndi flýta sem mest fyrir rafbílavæðingunni og hver þeirra væri hagkvæmust. Niðurstöður sýna að hlutfall hreinna rafmagnsbifreiða (BEV: battery-electric vehicle) og tengiltvinnbifreiða (PHEV: plug-in-hybrid electric vehicle) af bílaflotanum mun aukast á næstu árum. Hversu mikil aukningin verður er mjög háð ákvörðunum stjórnvalda og aðstæðum á markað, samkvæmt skýrslunni. Áhrif á afkomu ríkissjóðs eru háðar þeim leiðum og stjórntækjum sem verða notaðar til að hafa áhrif á orkuskipti í samgöngum. Til skemmri tíma fylgir rafbílavæðingu kostnaður, en með réttri notkun á stjórntækjum má stýra hvar sá kostnaður lendir. Fullt var út úr dyrum á kynningunni. Rafbílavæðing ein og sér dugir þó ekki til þess að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamningnum, verði þær að við þurfum að draga úr útblæstri um 40% miðað við árið 1990. Til viðbótar þurfi fleiri aðgerðir. Til lengri tíma er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Rafbílavæðing hefur einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi, og áhrifin eru jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri. Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð. Hér má nálgast skýrsluna í heild sinni: Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar (pdf, 5 MB) Hér má sjá upptöku af fundinum:
31. október 2018 Þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar Niðurstöður nýrrar greiningar um þjóðhagsleg áhrif rafbílavæðingar verða kynntar á opnum fundi í Norræna húsinu fimmtudaginn 1. nóvember. HR og HÍ hafa unnið að verkefninu fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna og Íslenska Nýorku, og hafa smíðað líkan sem metur áhrif af beitingu mismunandi hagrænna hvata stjórnvalda, s.s. ívilnunum, sköttum og gjöldum. Hvaða aðgerðir eru hagkvæmastar til að flýta fyrir rafbílavæðingu og hvaða árangri skila þær? Getur rafvæðing bílaflotans verið efnahagslega hagkvæm? Niðurstöðurnar eru mikilvægt innlegg til að meta næstu skref í orkuskiptum í samgöngum. Skráning á fundinn fer fram á viðburðasíðu Samorku þar sem einnig er hægt að sjá ítarlegri dagskrá. Í fyrramálið verður einnig hægt að horfa á streymi frá fundinum.
19. október 2018 Kalda vatnið ódýrast á Íslandi Heimili í Danmörku þarf að greiða rúmlega þrefalt meira fyrir notkun kalda vatnsins á ári hverju en á Íslandi. Ódýrast er að nota kalt vatn á Íslandi af Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í árlegri samantekt Samorku um kaldavatnsnotkun þar sem stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum á Norðurlöndum. Eins og sjá má er sker kostnaðurinn sig úr í Danmörku með tæplega 78 þúsund krónur árlega fyrir kaldavatnsnotkun. Skattar og gjöld hækka þessa tölu mikið, eins og sjá má á næstu mynd hér fyrir neðan, en jafnvel án þeirra er kostnaðurinn mestur þar. Í Finnlandi kostar kalda vatnið um 45 þúsund á hverju ári og svipað í Noregi, eða um 42 þúsund. Í Svíþjóð og á Íslandi er rukkað minnst fyrir þessa þjónustu. Í Svíþjóð má búast við að greiða rúmlega 25 þúsund krónur árlega fyrir notkun á köldu vatni og á Íslandi 24 þúsund, eða tvö þúsund krónur á mánuði. Íslendingar eru ein vatnsríkasta þjóð heims og landsmenn nota kalda og heilnæmt vatnið óspart. Meðalnotkun á heimili er um 500 lítrar á sólarhring sem er það mesta sem gerist í Evrópu. Kalt vatn er ekki selt um rennslismæla hérlendis eins og víðast hvar annars staðar, heldur er kostnaður áætlaður út frá fasteignamati. Þrátt fyrir mikinn vatnsauð og lítinn kostnað, hvetja veitufyrirtæki þó til þess að almenningur beri virðingu fyrir auðlindinni og noti vatnið skynsamlega, til að halda viðhaldskostnaði í skefjum.
19. október 2018 Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2018 Umhverfisverðlaun atvinnulífsins voru afhent við hátíðlega athöfn í Norðurljósum í Hörpu á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin. Umhverfisfyrirtæki ársins er Toyota en framtak ársins á sviði umhverfismála á Skinney-Þinganes. Í dómnefnd sátu Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar, Bryndís Skúladóttir efnaverkfræðingur og Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
4. október 2018 Mikil tækifæri í fjórðu iðnbyltingunni Spár sýna að tæknistörfum fjölgi mjög mikið á næstu árum með fjórðu iðnbyltingunni. Áhrif þessa gætu verið mikil á stöðu kynjanna á vinnumarkaði þar sem mikill meirihluti tæknistarfa er unninn af karlmönnum. Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Norðurorku Þetta var meðal þess sem rætt var á morgunverðarfundi Samorku og Origo og þeirri spurningu velt upp hvort fjórða iðnbyltingin sendi okkur tugi ára aftur í tímann hvað varðar jafnari kynjahlutföll í orku-, veitu- og upplýsingatæknigeiranum. Húsfyllir var á fundinum Frummælendur fundarins voru sammála um að þrátt fyrir að konum fjölgaði hægt í iðn- og tækninámi, þá væri ýmislegt sem gæfi ástæðu til bjartsýni. Bent var á að fjórða iðnbyltingin myndi ekki bara þurrka út störf, heldur einnig skapa mörg ný sem væru sennilega töluvert öðruvísi en störfin sem við þekkjum í dag og gætu nýst orku-, veitu- og upplýsingatæknifyrirtækjum til að höfða betur til kvenna. Í þeim breytingum sem framundan eru fælust því einnig mikil tækifæri fyrir konur til að hasla sér völl innan þessara atvinnugreina. Snæbjörn Ingólfsson, viðskiptastjóri hjá Origo Erindi fluttu Snæbjörn Ingólfsson, viðskiptastjóri hjá Origo, Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Norðurorku og Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans. Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans Í pallborðsumræðum tóku þátt Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, Elín Gränz, stjórnarmaður í Vertonet – samtökum kvenna í upplýsingatækni, Hildur Katrín Rafnsdóttir, stjórnarmaður í FNS – félagi náms- og starfsráðgjafa og Íris Baldursdóttir, stjórnarmaður í Konum í orkumálum. Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku, stýrði fundinum. Pallborðsumræður Ragna Árnadóttir og Magnús Þór Gylfason frá Landsvirkjun voru meðal gesta á fundinum Fundargestir Fundargestir Ásgeir Margeirsson tekur til máls í pallborði Íris Baldursdóttir frá KíO og Linda Stefánsdóttir frá Vertonet Fundargestir Fundargestir Íris Baldursdóttir, Ásgeir Margeirsson, Elín Gränz, Hildur Ingvarsdóttir, Hildur Katrín Rafnsdóttir, Erla Björg Guðmundsdóttir og Lovísa Árnadóttir.