Landsnet hlýtur gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC

Þorkell Guðmundsson frá PwC, Valka Jónsdóttir og Guðmundur Ingi Ásmundsson.

Landsnet hlaut í dag gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC. Úttektin segir til um kynbundinn launamun innan fyrirtækisins að teknu tilliti til áhrifaþátta á laun. Gullmerkið hljóta þau fyrirtæki sem eru með minni óútskýrðan launamun en 3,5% en úttektin sýnir 2,8% launamun hjá Landsneti.

Gullmerkið hvatning til að gera enn betur

Jafnlaunaúttektin er liður í innleiðingu á jafnlaunakerfi hjá Landsneti. Valka Jónsdóttir mannauðsstjóri Landsnet segir að framundan sé vinna við að útrýma þessum launamuna alveg með innleiðingu á jafnlaunakerfi.
„Þetta er virkilega góð byrjun á því ferli sem framundan er við innleiðingu á jafnlaunakerfi hjá okkur. Eitt af því sem þarf að vera til staðar við upphaf innleiðingar er greining á launamuni karla og kvenna og nú höfum við fengið þær niðurstöður til að vinna með. Gullmerkið er hvatning fyrir okkur að gera enn betur í þessum málum. “

Markmiðið að útrýma launamuninum

Hjá Landsneti starfa 94 karlar og 26 konur og í mörg ár hefur verið unnið eftir jafnréttisstefnu. Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu og að framundan sé að útrýma þeim launamun sem fram kom i greiningunni.

„Jafnréttismál skipta okkur hjá Landsneti miklu máli og höfum við verið að vinna eftir jafnréttisstefnu sem hefur skilað okkur þessum árangri og nú gullmerkinu sem við fögnum í dag. En við ætlum að gera enn betur og útrýma þessum launamun alveg og það gerum við með því meðal annars að innleiða jafnlaunakerfi og láta votta það“.