6. mars 2019 Helgi endurkjörinn formaður Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, var í dag endurkjörinn formaður stjórnar Samorku á aðalfundi samtakanna, sem haldinn var á Grand hótel Reykjavík. Þá var Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, einnig endurkjörinn í stjórn samtakanna til tveggja ára. Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, var kosin í stjórn Samorku í fyrsta sinn. Berglind var kjörin til tveggja ára. Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Jóhanna B. Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar og Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Harpa Þuríður Böðvarsdóttir, Veitum og Indriði Þór Einarsson, Skagafjarðarveitum koma ný inn sem varamenn í stjórn Samorku. Áfram sitja sem varamenn þau Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða, Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK og Hörður Arnarson, Landsvirkjun. Konur skipa áfram meirihluta aðalmanna stjórnar Samorku. Að varamönnum meðtöldum er jafnt hlutfall kynja. Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2019, skipa: Aðalmenn: Ásgeir Margeirsson, HS Orku Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti Helgi Jóhannesson, Norðurorku, formaður stjórnar Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitum Jóhanna B. Hansen, Mosfellsbæ Ragna Árnadóttir, Landsvirkjun Varamenn: Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK Harpa Þuríður Böðvarsdóttir, Veitum Hörður Arnarson, Landsvirkjun, Indriði Þór Einarsson, Skagafjarðarveitum
19. febrúar 2019 Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri ON Stjórn Orku náttúrunnar (ON) hefur ráðið Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Berglind hefur gengt starfinu tímabundið frá því í september síðastliðnum en það var auglýst laust til umsóknar í byrjun þessa árs. Berglind er sameindalíffræðingur með MBA próf frá IESE í Barcelona. Hún var ráðin til Orku náttúrunnar á árinu 2017 sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaða og hafði þá meira en áratugarreynslu af viðskiptaþróun meðal annars hjá Landsvirkjun, Medis og Íslenskri erfðagreiningu. Orka náttúrunnar er stærsta orkufyrirtæki landsins á sviði jarðvarma og vinnur rafmagn og heitt vatn í virkjunum á Nesjavöllum og Hellisheiði auk raforkuvinnslu í Andakílsárvirkjun. ON er þjónustufyrirtæki með viðskiptavini um allt land og býður heimilum og fyrirtækjum eingöngu upp á vottaða endurnýjanlegra orku. Fyrirtækið er leiðandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi og rekur 50 hlöður fyrir rafbílaeigendur um allt land. Árleg velta fyrirtækisins nemur um 20 milljörðum króna og starfsfólk er liðlega 80 talsins. Formaður stjórnar ON er Hildigunnur H. Thorsteinsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkuveitu Reykjavíkur.
15. febrúar 2019 BEIN ÚTSENDING: Orkustefna í mótun Opinn ársfundur Samorku verður haldinn 6. mars kl. 15 í Háteig á Grand hótel Reykjavík. Á fundinum verður orkustefna fyrir Ísland til umfjöllunar. Hverjar verða áherslur Íslands til framtíðar í orkumálum? Dagskrá: Ávarp – Helgi Jóhannesson, formaður SamorkuÁvarp – Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherraMótun orkustefnu Íslands – Guðrún Sævarsdóttir, formaður starfshóps stjórnvalda um gerð orkustefnuMikilvægi orkustefnu – Páll Erland, framkvæmdastjóri SamorkuCreating Energy Policy: Experience from Norway – Toril Johanne Svaan, deildarstjóri í orkumálaráðuneyti Noregs Fundarstjóri: Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur Í lok fundar verður boðið upp á léttar veitingar. Allir velkomnir, skráningar er óskað hér fyrir neðan. Fyrr um daginn verður aðalfundur Samorku sem ætlaður er aðildarfélögum Samorku. Um hefðbundin aðalfundarstörf er að ræða. Nafn Netfang Fyrirtæki Ég mæti á aðalfund kl. 13 (fyrir aðildarfélög) Ég mæti á opinn ársfund kl. 15 Δ
6. febrúar 2019 Landsvirkjun fær jafnlaunavottun Frá afhendingu jafnlaunaskírteinisins Landsvirkjun hefur fengið vottun á jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Því til staðfestingar hefur fyrirtækið fengið afhent skírteini frá vottunar- og faggildarstofunni BSI á Íslandi og einnig jafnlaunamerki Velferðarráðuneytisins frá Jafnréttisstofu. Jafnlaunakerfið stuðlar að því að starfsmenn njóti jafnra launa fyrir jafnverðmæt störf. Starfsumhverfi og hlutverk Landsvirkjunar krefst fjölbreyttra starfa og er bakgrunnur starfsfólks mismunandi hvað varðar menntun, hæfni og reynslu. Jafnlaunakerfi fyrirtækisins endurspeglar þessa fjölbreytni og styður við fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun hvað varðar kjör starfsfólks. Unnið var að innleiðingu kerfisins á árinu 2018 í samvinnu við PwC og var kerfið tekið út af BSI í byrjun desember. Einnig hafði Landsvirkjun fengið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir árið 2018, en hafði áður fengið gullmerkið 2013, 2015 og 2017.
30. janúar 2019 Viðbúnaður Veitna vegna kuldakasts Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins sem nú stendur yfir á höfuðborgarsvæðinu. Rennsli í hitaveitukerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu hélt áfram að aukast í nótt eftir metrennsli í gær. Jafnaðarrennslið nemur um 16.400 rúmmetrum þá klukkutíma sem notkunin er mest. Megin skýringin er aukin kynding húsa og varmatap úr þeim vegna kuldans. Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og vegna þessa hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun sína. Gangi veðurspáin eftir gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda á föstudag, á meðal þeirra eru sundlaugarnar. Förum vel með heita vatnið Veitur hvöttu fólk í gær til að fara vel með heita vatnið og huga að því hvort hugsanlega sé vatni sóað á heimilum þess eða vinnustöðum. Um 90% af hitaveituvatninu eru notuð til húshitunar. Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið. Fleiri sparnaðarráð er að finna á vef Veitna. Stækkuð varmastöð í haust Uppbygging stendur yfir í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Talsverð aukning varð á notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2018. Árið var mun kaldara en árin á undan, fólksfjölgun var mikil og mikið byggt af húsnæði. Aukning notkunar á heitu vatni var þó umfram það sem þessu svaraði. Á meðal yfirstandandi fjárfestinga Veitna er tenging eldri borhola við hitaveituna, sverun aðalæða en mestu mun skipta stækkun varmastöðvar í Hellisheiðarvirkjun. Hún var upphaflega ráðgerð árið 2023 en var flýtt til haustsins 2019. Gangi langtímaspár um heitavatnsnotkun eftir duga þessar aðgerðir fram undir miðjan næsta ártug. Spár Veitna í þessum efnum eru endurskoðaðar tvisvar á ári.
25. janúar 2019 Hugmyndasamkeppni um sýningu í Elliðaárstöð t.v. geymsluskúr, næst er háspennulínan til Vífilstaða, hús stöðvarstjóra og rafstöðvarhúsið. Vel sést þar sem háspennulínann til Reykjavíkur liggur í tvístæðum við stöðvarhúsið. Orkuveita Reykjavíkur efnir í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands til hugmynda-samkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárstöð og nánasta umhverfi. Miðað er við að rafstöðin, stöðvarstjórahús og annar húsakostur fyrirtækisins í dalnum nýtist sem hluti af sýningunni. Elliðaárdalurinn er vagga veitureksturs í Reykjavík og á síðari áratugum eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarbúa. Vatn var fyrst tekið úr Elliðaánum í vatnsveituna sumarið 1909 og síðar það ár úr Gvendarbrunnum við Elliðavatn. Sumarið 1921 var rafstöðin við Elliðaár tekin í notkun og 1951 hóf veitustarfsfólk skógrækt í dalnum. Fyrsta heitavatnsholan í Elliðaárdal var boruð 1967 og hefur hitaveitan nýtt borholur í dalnum frá þeim tíma. Þá er ónefnd laxveiðin sem stendur djúpum rótum í dalnum. Markmið samkeppninnar er að kalla fram áhugaverðir hugmyndir um hvernig miðla megi fróðleik um þetta einstaka útivistarsvæði og auka og greiða aðgengi fjölskyldna og annarra borgarbúa að þessum almannaeigum. Frestur til að skila inn umsókn um þátttöku í forvali er til kl. 16.00 fimmtudaginn 14. febrúar 2019 en tilkynnt verður hverjir veljast til þátttöku í lokuðu samkeppninni viku síðar, fimmtudaginn 21. febrúar 2019. OR mun greiða hverju teymi sem velst til þátttöku í samkeppninni kr. 1.000.000 fyrir tillöguna, að því gefnu að hún sé fullnægjandi samkvæmt keppnislýsingu og uppfylli skilyrði um afhendingu og skilaform. Nánari upplýsingar um hugmyndasamkeppnina, áherslur dómnefndar og fleira má sjá á vef OR. Á morgun, laugardaginn 26. janúar, verður opið hús í rafstöðinni á milli klukkan 13 og 16. Örleiðsögn um stöðina og rafmagn í Reykjavík verður á heila og hálfa tímanum. Í húsnæði Hins hússins, hinum megin við Rafstöðvarveginn, verður Vísindasmiðja Háskólalestarinnar með rafmagnstengdar tilraunir, tæki, þrautir og óvæntar uppgötvanir sem allir aldurshópar geta haft gaman að.
23. janúar 2019 Dreifing sólarorkulampa heldur áfram Í dag, 23. janúar, er degi rafmagnsins fagnað á Norðurlöndunum. Rafmagn er sjálfsagt og aðgengilegt í daglegu lífi okkar Íslendinga, svo það er auðvelt að gleyma því að um það bil 1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að því í heiminum. Í tilefni af degi rafmagnsins hefur Samorku tvö ár í röð staðið fyrir fjármögnun og dreifingu sólarorkulampa í Afríku í samvinnu við sænska fyrirtækið Givewatts. Markmið Givewatts er að gefa fjölskyldum í Kenýa og Tansaníu kost á því að fjárfesta í hreinni og ódýrri orku í formi sólarorkulampa í stað steinolíulampa við leik og störf. Samorka hefur nú fjármagnað alls 320 lampa, sem munu bæta lífsgæði um 1.600 manns, þar sem að meðaltali nýta fimm einstaklingar sér hvern lampa á hverju heimili. Hér má sjá nýtt myndband frá Givewatts um áhrif sólarorkulampa á fjölskyldulífið á svæðum þar sem aðgengi að lýsingu á heimili er takmarkað. Impact: Family time from GIVEWATTS on Vimeo. Starfsmaður Givewatts heimsækir skóla í Vihiga Lamparnir frá Samorku eru í dreifingu í þorpinu Vihiga í Kenýa og Mwanza í Tansaníu. Eins og sjá má hefur dreifing lampanna gengið hægar en vonast var eftir, þar sem efnahagsástandið á svæðunum var ekki gott á síðari hluta ársins 2018 vegna slæmrar uppskeru, en vonast er til þess að hún taki kipp á nýju ári. Givewatts hefur ráðið í stöðu sölustjóra og almennan starfsmann yfir Vihiga svæðinu í Kenýa, sem er nýtt svæði hjá þeim. Þá eru fleiri starfsmenn í þjálfun og fræðslu, svo hægt sé að efla kynningu á lömpunum og kostum endurnýjanlegrar orku í stað steinolíulampa. Þannig er vonast til að dreifing lampanna komist á skrið að nýju. Hér má lesa frekari upplýsingar um fjármögnun lampanna á degi rafmagnsins 2017 og 2018.
23. janúar 2019 Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets Orkustofnun hefur samþykkt kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027 og felur samþykkið í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins. „Samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun 2018-2027 er mikilvægur áfangi í því verkefni sem framundan er í uppbyggingu raforkuinnviða landsins. Með uppbyggingunni verður flutningskerfið betur í stakk búið til að mæta framtíðaráskorunum þar sem verkefnin eru fjölmörg víðsvegar um landið“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets. Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína. Mat Orkustofnunar á framkvæmdum á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar kemur í stað leyfisveitinga stofnunarinnar fyrir einstökum framkvæmdum. Þannig felur samþykki Orkustofnunar á kerfisáætlun í sér ígildi leyfis fyrir framkvæmdum á framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins. Landsnet skal árlega leggja fram kerfisáætlun til samþykktar hjá Orkustofnun sem felur í sér tvo megin þætti: • Langtímaáætlun sem sýnir þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum. • Framkvæmdaáætlun sem sýnir áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landnet hyggst ráðast í á næstu þremur árum. Nánar á vef Orkustofnunar.
20. desember 2018 Gleðileg jól Starfsfólk Samorku óskar öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með þökkum fyrir gott samstarf á því ári sem er að líða. Skrifstofa Samorku verður lokuð á milli jóla og nýárs en hægt er að ná í starfsfólk í farsíma. Skrifstofan opnar aftur 2. janúar 2019.
9. desember 2018 Fagsviðsstjóri óskast FAGSVIÐSSTJÓRI Hefur þú áhuga á: Orkuskiptum? Umhverfismálum? Traustum innviðum? Snjallvæðingu? Samorka óskar eftir að ráða drífandi einstakling sem býr yfir miklu frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum og getu til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum í heimi orku- og veitumála. Um er að ræða skemmtilegt starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða faglegt starf samtakanna, sinna þekkingarmiðlun og samskiptum við stjórnvöld. Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um land allt. Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur. Samorka er aðili að Samtökum atvinnulífsins og er staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Í starfinu felst tækifæri til að vinna náið með ýmsum sérfræðingum aðildarfyrirtækja Samorku auk sérfræðinga annarra samtaka í Húsi atvinnulífsins Helstu verkefni: Móta starfsumhverfi orku- og veitugeirans Umsjón með starfi fag- og málefnahópa sem starfa á vettvangi samtakanna Samstarf við ráðuneyti og opinberar stofnanir Umsjón með ráðstefnum um málefni orku- og veitugeirans Skipulagning námskeiða og fræðslu fyrir aðildarfyrirtæki Faglegur stuðningur við ýmis verkefni innan orku- og veitugeirans Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna Menntunar- og hæfniskröfur: Háskólamenntun á sviði verkfræði/tæknifræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi. Þekking á orku- og veitugeiranum er kostur Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð Færni í markvissri framsetningu upplýsinga Færni og lipurð í mannlegum samskiptum Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku Umsókn óskast útfyllt á heimasíðu Intellecta. Umsókninni skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Umsóknarfrestur er til og með 9. janúar 2019. Bæði konur og karlmenn eru hvött til að sækja um starfið. Nánari upplýsingar um starfið veita Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku (pall@samorka.is) og Ari Eyberg (ari@intellecta.is). Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.