Landsvirkjun fær jafnlaunavottun

Frá afhendingu jafnlaunaskírteinisins

Landsvirkjun hefur fengið vottun á jafnlaunakerfi fyrirtækisins. Því til staðfestingar hefur fyrirtækið fengið afhent skírteini frá vottunar- og faggildarstofunni BSI á Íslandi og einnig jafnlaunamerki Velferðarráðuneytisins frá Jafnréttisstofu.

Jafnlaunakerfið stuðlar að því að starfsmenn njóti jafnra launa fyrir jafnverðmæt störf. Starfsumhverfi og hlutverk Landsvirkjunar krefst fjölbreyttra starfa og er bakgrunnur starfsfólks mismunandi hvað varðar menntun, hæfni og reynslu. Jafnlaunakerfi fyrirtækisins endurspeglar þessa fjölbreytni og styður við fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja hvers konar mismunun hvað varðar kjör starfsfólks.

Unnið var að innleiðingu kerfisins á árinu 2018 í samvinnu við PwC og var kerfið tekið út af BSI í byrjun desember. Einnig hafði Landsvirkjun fengið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir árið 2018, en hafði áður fengið gullmerkið 2013, 2015 og 2017.