Hugmyndasamkeppni um sýningu í Elliðaárstöð

t.v. geymsluskúr, næst er háspennulínan til Vífilstaða, hús stöðvarstjóra og rafstöðvarhúsið. Vel sést þar sem háspennulínann til Reykjavíkur liggur í tvístæðum við stöðvarhúsið.

Orkuveita Reykjavíkur efnir í samstarfi við Hönnunarmiðstöð Íslands til hugmynda-samkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárstöð og nánasta umhverfi. Miðað er við að rafstöðin, stöðvarstjórahús og annar húsakostur fyrirtækisins í dalnum nýtist sem hluti af sýningunni.

Elliðaárdalurinn er vagga veitureksturs í Reykjavík og á síðari áratugum eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarbúa. Vatn var fyrst tekið úr Elliðaánum í vatnsveituna sumarið 1909 og síðar það ár úr Gvendarbrunnum við Elliðavatn. Sumarið 1921 var rafstöðin við Elliðaár tekin í notkun og 1951 hóf veitustarfsfólk skógrækt í dalnum. Fyrsta heitavatnsholan í Elliðaárdal var boruð 1967 og hefur hitaveitan nýtt borholur í dalnum frá þeim tíma. Þá er ónefnd laxveiðin sem stendur djúpum rótum í dalnum.

Markmið samkeppninnar er að kalla fram áhugaverðir hugmyndir um hvernig miðla megi fróðleik um þetta einstaka útivistarsvæði og auka og greiða aðgengi fjölskyldna og annarra borgarbúa að þessum almannaeigum.

Frestur til að skila inn umsókn um þátttöku í forvali er til kl. 16.00 fimmtudaginn 14. febrúar 2019 en tilkynnt verður hverjir veljast til þátttöku í lokuðu samkeppninni viku síðar, fimmtudaginn 21. febrúar 2019. OR mun greiða hverju teymi sem velst til þátttöku í samkeppninni kr. 1.000.000 fyrir tillöguna, að því gefnu að hún sé fullnægjandi samkvæmt keppnislýsingu og uppfylli skilyrði um afhendingu og skilaform.

Nánari upplýsingar um hugmyndasamkeppnina, áherslur dómnefndar og fleira má sjá á vef OR.

 

 

Á morgun, laugardaginn 26. janúar, verður opið hús í rafstöðinni á milli klukkan 13 og 16. Örleiðsögn um stöðina og rafmagn í Reykjavík verður á heila og hálfa tímanum. Í húsnæði Hins hússins, hinum megin við Rafstöðvarveginn, verður Vísindasmiðja Háskólalestarinnar með rafmagnstengdar tilraunir, tæki, þrautir og óvæntar uppgötvanir sem allir aldurshópar geta haft gaman að.